Bæjarins besta


Bæjarins besta - 22.12.2011, Blaðsíða 14

Bæjarins besta - 22.12.2011, Blaðsíða 14
14 FIMMTUDAGUR 22. DESEMBER 2011 Hef alltaf verið flughræddur Nýlega kom út bók um flugslysið sem varð í Ljósufjöllum árið 1986. Þá hrifsuðu fjallavindar til sín vél sem var á leið frá Ísafirði til Reykjavíkur með þeim hörmulegu afleiðingum að fimm létust. Tveir farþeganna lifðu af en þurftu að bíða eftir hjálp á elleftu klukkustund. Annar þeirra er Bolvíkingurinn Kristján Jón Guðmundsson. Blaðamaður BB settist niður með honum til að ræða um flugslysið, sjómennsku og fleira. Venjulegur Bolvíkingur „Foreldrar mínir eru fæddir hér í Bolungarvík en ættir þeirra koma einhversstaðar innan úr Djúpi. Pabbi var sveitarstjóri hér í kauptúninu og bæjarstjóri þegar Bolungarvík fékk kaupstaðarrétt- indi, allt til 1987. Annars er mað- ur bara ósköp venjulegur Bolvík- ingur,“ segir Kristján. „Þegar ég var að alast upp hérna var alltaf uppsveifla, næg atvinna. Hún var minni fyrir sunnan svo að það var stöðugt að koma nýtt fólk. Núna höfum við eitthvað sem heitir kvótakerfi og búið að rígbinda þessa staði niður svo að nú verður aldrei upp- sveifla. Það er reyndar uppsveifla í veiðum hérna. Fyrstu 3 mánuði kvótaársins er búið að veiða hér 5100 tonn en megnið af því er flutt suður. Hinsvegar má fólk ekki hafa augun lokuð fyrir þeim möguleikum sem þessi veiði skapar. Það þyrfti lítið að gerast til að eitthvað af þessum fiski yrði unninn hér. Þannig sköpuð- ust kannski 3-4 störf og það munar um minna hérna.“ Kristján bætir við að atvinnu- lífið í Bolungarvík sé of einsleitt. „Þetta er bara það sama gamla. Nú eru margir farnir að beita. Það er bara eins og það var á grunnskólaárunum. Þá skrópaði maður á föstudögum og fór niður á höfn til að fá að beita. Þetta virðist allt fara í hringi.“ Hitinn á Reykjanesi Kristján kláraði grunnskólann í Bolungarvík en fór svo í skóla á Reykjanesi. „Það var fínt að vera þar. Á þessum tíma var fullt af fólki þarna. Ætli við höfum ekki verið svona 25 bara í mínum bekk en það voru fleiri bekkir í skólanum og svo var barnaskóli þarna líka. Á þessum tíma lá náttúrlega eng- inn vegur um Djúpið. Maður fór því í skólann um haustið með Fagranesinu, kom svo heim í jólafrí en svo ekki aftur fyrr en um vorið. Það var ekkert annað að gera en að standa á eigin fótum og finna sér eitthvað til dundurs. Hvort sem það var að spila fót- bolta eða borðtennis, fara í sund eða kíkja á stelpnavistina. Horm- ónarnir voru náttúrlega á fullu á þessum aldri. En kynin voru að- skilin og máttu bara heimsækja hvert annað á sunnudögum, í tvo tíma. Mér fannst alltaf mikið til um allan þennan jarðhita á Reykja- nesi. Það rauk upp úr útitröpp- unum og allsstaðar dúndurheitt. Þetta var eins og vin í eyðimörk- inni. Einhverntíma kom ég þarna aftur og hugsaði þá með mér að það hlyti að koma að því að ein- hver gæti nýtt heita vatnið þarna. Og núna skilst mér að einhverjir séu byrjaðir á að framleiða salt þarna með því að hita sjó. Það finnst mér gott mál. Landsbyggð- in er orðin svo fátæk af fólki sem hugsar út fyrir rammann. Við hér erum meira bara í því að vinna enn meira. Gleymum stundum að staldra við og spyrja okkur hvort þetta sé það sem við fæddumst til að gera. En svona er þetta, það eru allir í brauðstrit- inu.“ Sólrún, Heiðrún og Dagrún Eftir einn vetur á Reykjanesi fór Kristján á sjóinn. „Ég hafði róið á Sólrúnu sumarið áður en ég fór á Reykjanes og þegar ég kom þaðan aftur fór ég beint nið- ur á bryggju. Daginn eftir var ég kominn út á sjó. Þetta er auðvitað stærsta breytingin frá því sem var. Það var nóg að gera og miklu meiri eftirspurn eftir vinnukrafti en í dag. Ég var á skipum í Bol- ungarvík þar til togarinn Heiðrún var smíðaður en þá réði ég mig þar og það voru skemmtilegir tímar.“ Kristján gekk svo í Stýrimanna- skólann en var á sjó í öllum fríum. „Ég kláraði Stýrimannaskólann 1980 en skráði mig þá í útgerðar- deildina í Tækniskólanum og var þar í tvö ár. Því næst vann ég sem skrifstofumaður hjá ríkinu. Meðfram þessu var ég alltaf í fótboltanum, spilaði með Fylki. Ég hafði mjög gaman af því og átti reyndar erfitt með að hætta, spilaði þar til ég var 29 ára sem þótti hundgamalt á þessum tíma. Launin hjá ríkinu voru léleg og þar kom að ég réði mig aftur á Dagrúnu. Ég var þá einn hér í Bolungarvík en konan var fyrir sunnan með börnin. En svo, árið 1986, varð þetta slys.“ Man ekki mikið Þann 6 apríl árið 1986 steig Kristján upp í flugvélina TF- ORM á Ísafirði og ætlaði til Reykjavíkur. Vélin komst aldrei á áfangastað heldur brotlendi í Ljósufjöllum. Í hvaða erindum var Kristján? „Það var nú lítil þúfa sem velti því hlassi, en ég var á leið á Borgarspítalann. Ein- hverju áður hafði ég verið úti á sjó og skar mig illa svo að litli puttinn lá bara hreyfingarlaus þegar ég kreppti hendina, fylgdi ekki hinum fingrunum. Ég fór til Péturs Péturssonar sem þá var læknir hér. Hann skoðaði þetta og talaði við lækna á Ísafirði. Þeir sammæltust um að best væri að ég færi suður til að láta kíkja á þetta. Hann setti því á mig spelku og skrifaði bréf sem ég átti að sýna læknunum fyrir sunnan. Þennan apríldag átti ég því pant- að með Flugleiðum en svo flugu þeir ekki. Þá ákvað ég að taka litlu vélina með flugfélaginu Erni. Og endaði á Borgarspítal- anum.“ Kristján segist ekki muna mik- ið eftir sjálfu slysinu en næstum 11 tímar liðu þar til björgunar- sveitir fundu brak vélarinnar í vitlausu veðri í Ljósufjöllum. „Í bókinni sem er nýkomin út er ljósmynd af hrikalegu klettabelti og ég man eftir því. Sá það út um gluggann og var orðinn nokkuð viss um að ef vélin færi niður myndi enginn koma að ná í okk- ur, þarna langt upp í fjöllum. En svo er bara allt svart.“ - Þú hefur væntanlega rotast í brotlendingunni og verið í móki á meðan leit stóð yfir, eða hvað? „Já, það brotnaði það mikið í andlitinu að ég hlýt að hafa stein- rotast. Ennið sprakk og allt and- litið gekk inn um einn sentímetra. Kjálkarnir fóru í sundur. Maður hefur kannski verið að kíkja út þegar maður átti að beygja sig niður.“ Á hækjum í 3 ár Aðspurður hvað hafi tekið við eftir að björgun var yfirstaðin, svarar Kristján: „Ég var í raun ekki svo lengi inni á spítala. En ég var auðvitað allur víraður í framan eins og Hannibal Lecter, bara innan frá. Og önnur löppin fór illa í slysinu, beinið snérist í sundur ofan við ökkla og löppin hékk bara á hásininni þegar þeir fundu mig. Þeir reyndu að skeyta henni saman en það var sveigja á beininu og hálfgert vesen á þessu. Fingurinn sem ég hafði komið út af var það síðasta sem þeir lög- uðu. Einhverju seinna var ég settur í myndatöku og þá kom í ljós að styrktarjárnin á löppinni voru brotin og komin sýking í það allt. Þá fór maður á sjúkrahús aftur. Ég var líka á Grensás í 10- 12 daga en tók aldrei annað í mál en að fá að vera dagsjúklingur, vildi fá að fara heim. Það voru ekki allir á eitt sáttir á sínum tíma og ég þurfti að hóta að hringja á lögregluna. Benti þeim á að þeir hefðu ekkert leyfi til að halda mér þarna. Þegar svo gifsið var tekið af hendinni þurfti ég að sýna þeim fram á að ég gæti bjargað mér á hækjum með því að fara upp 2-3 tröppur. Ég renn- svitnaði við það en vissi að þetta kæmi smám saman. Síðan var ég á hækjum meira og minna í 3 ár.“ Kristján og fjölskylda fluttu í Bolungarvík haustið 1986. „Mað- ur þurfti náttúrlega alltaf að vera mæta suður til lækna, í skoðun og yfirhalningu. En haustið 1989 var ég kominn á Dagrúnu aftur. Þótt maður væri kannski aðeins hnjaskaður var bara að standa sig. Það var ekki til neitt annað um borð en fullt starf og ég gat gert það sem mér var ætlað að gera. Tveimur árum síðar var ég beðinn að taka að mér útgerðar- stjórn hjá EG og gerði það. EG fór nú á hausinn, illu heilli. Þá var stofnað fyrirtækið Ósvör sem tók yfir togarann og ég var út- gerðarstjóri þar þangað til það fyrirtæki var selt árið 1995. Þá fluttum við aftur suður.“ Kristján segir einfaldlega hafa verið komið að kaflaskilum hjá fjölskyldunni. „Elsta dóttir okkar var búin með grunnskólann og vildi fara í Verslunarskólann. Og strákurinn var að byrja í skóla líka. Við tókum því þá ákvörðun að fara suður. Ég var reyndar eitthvað áfram á sjó, hjá Bása- felli, þar á meðal á Hattinum á Guðmundi Péturs. Síðan fékk ég alveg nóg af sjómennsku og skráði mig í iðnrekstrarfræði í Tækniháskólanum. Því næst fór ég í viðskiptafræði á vörustjórn- unarsviði og kláraði það 2003. Í framhaldi af því fór ég að vinna hjá Atlasskipum og var þar til 2008. Þá fór auðvitað allt til fjand- ans.“ Leiðin upp - En hvernig var sálræna hliðin eftir að hafa lent í flugslysi, tók ekki tíma að jafna sig? „Það er náttúrlega rosalegt þegar fólk deyr með þessum hætti. Það létust fimm manneskj- ur í slysinu. En þetta er eitthvað sem maður ræður ekki við. Sjálf- ur gerði ég ekkert annað en að vera í vélinni. Af hverju á það að vera hræðilegra þegar eitthvað kemur fyrir mann sjálfan en ann- að fólk? Fólk er að farast í bíl- slysum og sjóslysum alla daga,“ svarar Kristján. „Þannig að eftir slysið byrjaði maður bara á núlli. Eftir svona er það kostur að það er bara ein leið, hún er upp. Fyrst var að komast heim, síðan var að kom- ast úr rúminu, á lappir og taka þetta skref fyrir skref. Og á með- an maður gerði það hugsaði mað- ur með sér hvað það yrði nú gaman að losna við gifsið af fæt- inum. Smám saman kom þetta. Ég hef reyndar aldrei getað hlaupið aftur en þvílík frelsistil- finning sem fylgdi því á sínum tíma að geta loks brölt af stað. Þegar ég var á Grensás hitti maður náttúrlega marga sem voru í hjólastólum. Og sjálfur var ég í hjólastól. En munurinn var sá að ég myndi standa upp úr honum. Hinir myndu aldrei gera það því þeir voru hryggbrotnir. Ég gat leyft mér að hugsa sex mánuði fram í tímann og stefnt á að vera þá kominn á lappir. Þegar maður lendir í einhverju svona eru þær byrðar sem maður tekur á sig jafn þungar og maður vill hafa þær. Það er fullt af fólki sem hef- ur það miklu verr en ég, foreldrar

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.