Selfoss - 28.05.2015, Blaðsíða 9
928. Maí 2015
Forvitnileg sýning í Sagnheimum í Vestmannaeyjum:
Eyjakonur í íþróttum
í eitt hundrað ár
„Afrekskonur í fleiru en íþróttum, þó að ekki væri það alltaf skráð á blöð sögunnar“
Á íslenska safnadaginn, sunnudaginn 17. maí, voru allir hvattir til að heimsækja
söfnin og nýta sér það sem boðið var
upp á. Ein af safnaperlum Suður-
lands eru Sagnheimar, byggðasafnið
í Vestmannaeyjum.
Eyjakvenna í íþróttum minnst
á íslenska safnadeginum
Safnadaginn, sunnudag 17. maí
opnaði Dóra Björk Gunnarsdóttir
framkvæmdastjóri ÍBV glænýja sýn-
ingu í Sagnheimum í Vestmanna-
eyjum: „Eyjakonur í íþróttum í
eitt hundrað ár.“ Á sýningunni
eru dregnir fram fulltrúar þeirra
mörgu afrekskvenna í íþróttum sem
Eyjamenn hafa átt. Í níu skipti af 37
hafa konur hlotið titilinn íþrótta-
maður Vestmannaeyja og er þeim
gerð sérstök skil á sýningunni. Þar
er einnig að finna stutt myndband
sem Sighvatur Jónsson tók saman
um Eyjakonur í íþróttum.
Við opnun sýningarinnar kynnti
Þórhildur Ólafsdóttir íþrótta-
fræðingur, þjálfari og leikmaður
meistaraflokks ÍBV í fótbolta lokarit-
gerð sína við HR 2014 um ,,Saman-
burð á umfjöllun íslenskra vefmiðla
á knattspyrnu karla og kvenna“. Í
máli Þórhildar kom fram að þó að
um 31,5% iðkenda í fótbolta séu
konur þá er heildarhlutfall umfjöll-
unar fjölmiðla þar sem fjallað er
um konur aðeins 9,1% auk þess sem
umfjöllun um karlafótboltann var
almennt fjölbreyttari. Með tilliti til
þess hversu stórt hlutverk íþróttir
gegna í öllu forvarnarstarfi barna
og unglinga og í allri sjálfsstyrkingu,
er þetta háalvarlegt mál og hlýtur
jafnræði að þurfa að gæta þar sem og
í öðru. Íþróttir gegna því mikilvægu
hlutverki í að efla jafnrétti kynjanna.
Þórhildur sagðist vona að með því
að leggja staðreyndirnar á borðið
gæti hún hjálpað til við að opna
umræðuna betur meðal almennings,
stjórnenda og fréttamanna. Áður en
sýningin var formlega opnuð lék Sól-
ey Guðmundsdóttir í meistaraflokki
ÍBV í fótbolta á flautu og Svanhildur
Eiríksdóttir, sundmaður Vestmanna-
eyja 2012 og sundþjálfari lék á gítar
og söng.
Sýningarstjórn var í höndum
Helgu Hallbergsdóttur, safnstjóra
Sagnheima, en sýningin var unnin
með styrk frá Safnaráði og verkefn-
inu ,,Kosningaréttur kvenna á Ís-
landi í 100 ár“ Helga benti á að við
heimildavinnuna hafi henni orðið
ljóst að þessar konur voru oftast
afrekskonur í fleiru en íþróttum,
þó að ekki væri það alltaf skráð á
blöð sögunnar. Þær voru einstaklega
skipulagðar, einbeittar, úrræðagóðar
og vinnusamar atorkukonur sem
náðu langt í hverju sem þær tóku
sér fyrir hendur. Grunninn lögðu
þær í íþróttunum og er það ekki
einmitt slíkar konur sem við þurfum
til forystu í þjóðfélaginu? Áætlað er
að sýningin standi fram á næsta ár
og eru allir hvattir til að koma og
skoða sýninguna svo og annað sem
Sagnheimar og Safnahús hafa upp
á að bjóða.
HH/ÞHH
Þrír ættliðir íþróttakvenna: Guðný Jensdóttir, íþróttakennari og öflug sund-
kona, Sóley Guðmundsdóttir spilar með meistaraflokki íBV í knattspyrnu og
Guðný Gunnlaugsdóttir, sund – og leikfimikennari í hálfa öld. Var einnig öflug
í handbolta og fimleikum.
Stutt dagskrá var flutt við opnun sýningar. Hér má sjá á fyrsta bekk frá vinstri
knattspyrnukonur meistaraflokks íBV frá vinstri: Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir
markvörður, Sóley Guðmundsdóttir sem lék á flautu og Þórhildi Ólafsdóttur
sem flutti athyglisvert erindi um mismunandi umfjöllun vefmiðla á knattspyrnu
karla og kvenna.
„Þá getum við boðið skemmtiferðaskipin velkomin,“
segir Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri um verulegar endurbætur og dýpkun hafnarinnar í Þorlákshöfn
„Þar sem reynslan liggur eru verð-mæti hvers manns,“ segir Gunn-steinn R. Ómarsson, bæjarstjóri í
Sveitarfélaginu Ölfusi. Gunnsteinn á
að baki stjórnunarstörf í fleiri sveitar-
félögum á Suðurlandi, sem sveitar-
stjóri í Skaftárhreppi 2002 – 2006,
síðar í Rangárþingi ytra, en í millitíð-
inni lagði hann stund á framhaldsnám
og vinnu í Danmörku. Leiðin lá svo
í Ölfusið þegar þáverandi bæjarstjóri
lét af störfum á ofanverðu kjörtímabili
2010 - 2014. „Leitað var til mín og
ég sló til.“ Gunnsteinn var svo endur-
ráðinn við upphaf kjörtímabilsins sem
hófst í fyrra að loknum sveitarstjórn-
arkosningum 2014.
„Hvert sveitarfélag hefur sín sér-
kenni,“ segir Gunnsteinn. „Fámenni
og dreifbýli í Skaftárhreppi, í Rangár-
þingi eru þorp og sveit – og svo er
meiri bæjarbragur á Ölfusinu þar
sem stærstur hluti íbúa býr í Þorláks-
höfn.“ Nálægðin við höfuðborgina
hefur áhrif á samfélagsgerðina, þjón-
usta byggist upp á annan veg þar sem
stutt er t.d. á höfuðborgarsvæðið og
til næstu bæja. Héðan getur fólk auð-
veldlega sótt vinnu til Reykjavíkur
og margir gera það. Rétt eins og þeir
sem búa á höfuðborgarsvæðinu en
stunda vinnu í Ölfusi. Gunnsteinn
nefnir m.a. fiskvinnsluna Frostfisk,
sem sé stærsta fyrirtæki á Íslandi sem
er í fiskverkun sem rekur ekki sjálft
útgerð. Eigendurnir eru búsettir á
höfðuborgarsvæðinu en reka fyrirtæki
í Þorlákshöfn. Hér var húsnæði til
taks og hafnaraðstaða góð. Og Gunn-
steinn tekur fleiri dæmi. Til dæmis
um vatnsverksmiðjuna sem þurfi m.a.
á séhæfðu vinnuafli að halda. Mörg
fyrirtæki væru örugglega betur staðsett
austan fjalls en á höfuðborgarsvæðinu.
„Svo er margt fólk sem fer daglega á
milli í vinnu, en býr í sveitarfélaginu.
Héðan er rétt um hálftíma akstur til
Reykjavíkur. Það er gott að búa hér og
ekkert að því að sækja vinnu suður.“
Fer ekki saman mengandi stór-
iðja ofan í byggð
Við ræðum það almennt hversu
margir sæki vinnu af Suðurlandi á
höfuðborgarsvæðið og öfugt og hvað
styrki búsetu. Hvar liggja möguleik-
arnir? Hvað er skynsamlegt? „Það er
ekki ákjósanlegt að leggja allt í sömu
körfuna,“ segir Gunnsteinn og legg-
ur áherslu á að það fari ekki saman
mengandi stóriðja ofan í byggð. „Þetta
var í umræðunni hér en er það ekki
lengur.“ Þessu tengdu berst talið að
höfninni.
Gunnsteinn ræðir áform um endur-
bætur og dýpkun hafnarinnar og mik-
ilvægar áætlanir sem væntanlega megi
sjá merki um í nýrri samgönguáætlun.
Samgönguáætlun sem verður á dag-
skrá 2015 til 2018. „Verulegar endur-
bætur eru framundan. Vegagerðin
hefur í frumkostnaðaráætlun gert ráð
fyrir að hafnarframkvæmdirnar muni
kosta 1,9 milljarð. Hönnun endurbót-
anna er í vinnslu núna og nákvæmari
kostnaðaráætlun mun liggja fyrir fljót-
lega. Endurbætur hafnarinnar munu
skipta miklu fyrir þróunina hér og
möguleika okkar. Í náinni framtíð
má hugsa sér enn meiri endurbætur
á höfninni en með tiltölulega lágri
fjárhæð mætti stækka höfnina enn
frekar og gera hana öruggari. Við sjá-
um fram á að hér verði fullkomin inn-
og útflutningshöfn. Og þá getum við
boðið skemmtiferðaskipin velkomin.
Og stutt fyrir farþegana í ómengaða
nátturu sem Suðurland hefur upp á
að bjóða.“
Getur munað
heilum vinnsludegi
Með Suðurstrandarveginum og bætt-
um hafnarskilyrðum telur Gunn-
steinn að hægt sé að styrkja byggð enn
frekar. Það geti munað um hálfum
sólahring að þurfa ekki að sigla fyrir
Reykjanes. Og það geti munað heilum
vinnsludegi fyrir t.d. fiskframleiðend-
ur að flytja út frá Þorlákshöfn í stað
Reykjavíkur. Útflutningur frá Þor-
lákshöfn gæti verið frá Grindavík og
af Suðurnesjum og jafnvel austur um
allt að Höfn í Hornafirði. Gunnsteinn
er ekki bara að tala um fiskafurðir;
vatnið, ylræktin og landbúnaðarafurð-
ir komi þar líka til álita. „Ísland getur
markaðsett sig með hágæða matvæli
á dýrum markaði.“ Og enn lengra
megi teygja sig á hugarflugi. Hvað
með aðflutninga til Íslands, t.d. vélar
og tæki til landbúnaðar? „Hér eru öfl-
ug fyrirtæki á Suðurlandi sem þjóna
landbúnaðinum. Og t.d. miklir flutn-
ingar hjá SET á Selfossi. Og enn má
nefna allan bílaflotann sem er fluttur
inn til landsins í hverri viku. Bílunum
er skipað á land í Reykjavík og þeir
geymdir á rándýrum svæðum – eigum
við að segja hekturum – í Reykjavík.
Eru ekki fluttir til landsins um 600
bílar á viku? “
Gunnsteinn áréttar að sveitarfélögin
á Suðurlandi hafi staðið heilshugar
að baki við því að koma hafnarfram-
kvæmdunum á kortið. „Við eigum að
vinna saman á Suðurlandi. Ekki ein-
skorða okkur við sveitarfélagamörk,“
segir Gunnsteinn.
ÞHH
„Endurbætur hafnarinnar munu skipta miklu fyrir þróunina hér og möguleika
okkar. í náinni framtíð má hugsa sér enn meiri endurbætur á höfninni en
með tiltölulega lágri fjárhæð mætti stækka höfnina enn frekar og gera hana
öruggari.“
Gunnsteinn R. Ómarsson: „Þar sem
reynslan liggur eru verðmæti hvers
manns.“