Vestfirðir - 12.02.2015, Blaðsíða 9

Vestfirðir - 12.02.2015, Blaðsíða 9
12. Febrúar 2015 9 Strandirnar búa yfir töfrum Frá blautu barnsbeini var ég alin upp við það að Strandirnar ættu sér engan sinn líka í veröldinni. Foreldrar mínir voru bæði fædd hér sem og eldri bræður mínir. Mér þótti alltaf pínulítið súrt, þegar ég var lítil að vera ekki fædd hérna líka því þegar gömlu, góðu dagana bar á góma þá var eins og raddblærinn breyttist. Ljómi færðist yfir andlitin og svo endaði allt saman iðulega í miklum hrossahlátri. Sögurnar báru það með sér að hvergi í veröldinni væri fegurra, hvergi fleiri hraustmenni saman komin og síðast en ekki síst hvergi skemmtilegara fólk enda nær daglega sagðar hreysti- og skemmtisögur og hvert tækifæri notað til að endurnýta hnyttin tilsvör. Það var sem sagt deginum ljósara að Strandirnar hlytu að búa yfir töfrum sem hvergi annars staðar væri að finna. Þegar ég var um það bil að ljúka guðfæðináminu var prestsembætti auglýst til umsóknar á Hólmavík. Það vildi mér happs að enginn sótti um embættið á móti mér svo það var að hrökkva eða stökkva. Þarna var tækifærið sannarlega komið og nú skyldi láta reyna á, hvort satt reyndist, það sem fyrir mér hafði verið haft öll æskuárin og ef svo væri, í hverju töfrarnir væru fólgnir. Skólasystkini mín, sum hver, höfðu ekki hugmynd um hvar staðurinn var á landinu. Á þeim tíma voru símaskár með Ís- landskorti enn í notkun og ég man að ég þurfti, oftar en einu sinni, að draga símaskrána fram til að sýna þeim svart á hvítu hvar Hólmavík væri. Og vinirnir, þeir hristu örugglega höfuðin í laumi og hugsuðu með sér að ég myndi nú ekki endast þarna lengi. En ég lagði samt ótrauð af stað og ég var ekki búin að vera hér lengi þegar ég sannreyndi það sem mig hafði reyndar lengi grunað að töfrarnir fælust í stórfenglegri náttúru og góðu mannlífi. Fámennið hefur auðvitað bæði sína kosti og galla. Flest höfum við ákveðnar skoðanir á mönnum og mál- efnum. Okkur finnst náunginn oft vita fullmikið um okkur og stundum jafn- vel meira en við sjálf. Á móti kemur það, að hver einstaklingur verður stærri og mikilvægari en í fjölmenn- inu og samkenndin sem við þurfum svo oft á að halda verður einlægari. Okkur Strandamönnum þykir líka undur vænt um umhverfi okkar og náttúruna. Við erum þakklát fyrir að þurfa ekki að ferðast langar leiðir á vorin til að sjá og finna náttúruna vakna af dvala og við fylgjumst t. d. nákvæm- lega með því hvar tjaldurinn verpir við vegkantinn og reynum eftir bestu getu að tryggja að hann fái frið til að koma ungunum sínum upp. Og litadýrðin á haustin, gæti hún orðið fallegri annars staðar eða berja- löndin betri? Að ógleymdu logninu, hvort sem er að sumri eða vetri, og spegilsléttum Steingrímsfirðinum sem er engum öðrum líkur. Salómon konungur var nafntogaður fyrir speki sína og í orðskviðum sem kenndir eru við hann segir: „Glatt hjarta gerir andlitið hýrlegt.“ Orð- skv. 15.13 Ég veit svo sem ekki hversu vel sóknarbörn mín eru að sér í speki Salómons. Hitt hef ég hins vegar reynt á tuttugu og þriggja ára búsetu minni hér við Steingrímsfjörð að Stranda- menn virðast lifa samkvæmt þessari speki, hvaðan sem hún kemur þeim. Já, við eigum svo margt gott að þakka fyrir og mér sýnist að Strand- menn hafi fyrir löngu gert sér grein fyrir því að það er fyrst og fremst glatt hjarta og jákvætt hugarfar sem gerir lífið þess virði að lifa því. Þeir hafa líka komist að því að það má endurvinna nánast allt, m.a. s. Guðsorðið og þess vegna reynist áð- urnefnt orðtak líka vel sé því snúið við, því að að „hýrlegt andlit gerir hjartað glatt. “ Með bestu kveðjum af Ströndum, Sigríður Óladóttir Séra Sigríður Óladóttir, sóknarprestur Hólmavíkurprestakalli. Sólarkaffi Ísafirðingafélagsins 2015-02-10 Ísfirðingafélagið er 70 ára á þessu ári og var geysivel mætt á sólarkaffið. Um 700 manns voru í Hörpunni í Reykjavík og skemmtu sér hið besta undir söng Sunnukórsins og hátiðarræðu Eiríks Böðvarssonar.

x

Vestfirðir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirðir
https://timarit.is/publication/1082

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.