Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.06.2007, Blaðsíða 17

Neytendablaðið - 01.06.2007, Blaðsíða 17
,,Þið eruð nýjungagjörn og tæknióð eins og Japanir og eigið stóra bíla“ sagði sænskur nemandi minn við mig daginn eftir að hann hafði eytt nokkrum dögum á Íslandi nú í vetur. Þessi staðhæfing Svíans kom mér ekki á óvart enda hef ég oft heyrt slíkar fullyrðingar áður. Ég veit hins vegar aldrei hvort ég á að vera stolt af þessum miklu lífsgæðum eða verða örlítið vandræðaleg vegna neyslugleði okkar Íslendinga. Sennilega fara viðbrögð mín eftir því hver viðmælandinn er. Hinn dæmigerði Svíi hefur þó líka gaman af því að kaupa sér flatskjái, þráðlausar ryksugur og nýjar tölvur en hann er mun umhverfisvænni þegar kemur að samgöngum. Hann keyrir ekki um á stórum jeppa og hann notar hjólið eða strætó mun meira en hinn dæmigerði Íslendingur því umhverfisvitund Svía er sterk og þeim er umhugað um að nota einkabílinn í hófi. Okkur Íslendingum til varnar má ef til vill segja að það sé sennilega ekki nema fyrir hina hugrökku að hjóla til og frá vinnu á Íslandi því enn vantar almennilega hjólastíga um stóra hluta borgar og bæja. Lundur, bærinn sem ég bý í, er sannkallaður hjólabær. Samkvæmt opinberum tölum frá bæjarfélaginu hjóla Lundarbúar vegalengd sem samsvarar því að þeir hjóli fjórum sinnum í kringum hnöttinn á hverjum degi og þó eru þeir ekki nema tæplega 100.000 talsins. Lundarbúar hafa þó ekki alltaf verið svona hjólaglaðir og bæjarfélagið hefur gert mikið í því síðastliðinn áratug að hvetja íbúana til þess að hjóla til og frá vinnu í stað þess að nota einkabílinn en markmiðið með þessu er að draga úr mengun og vernda umhverfið. Til að ná þessu markmiði hefur bæjarfélagið eytt sem samsvarar tæplega 800 milljónum íslenskra króna á síðastliðnum 9 árum. Þessum fjármunum hefur m.a. verið varið til þess að fjölga hjólastígum, auka öryggi hjólreiðafólks í miðbænum, bæta lýsingu á hjólastígum og fjölga hjólastæðum í miðbænum. Þetta átak bæjarfélagsins hefur m.a. skilað sér í því að 40% fleiri Lundarbúar hjóla nú til og frá vinnu heldur en fyrir 8 árum síðan og þeir keyra 10 milljón kílómetrum minna/ styttra innanbæjar á ári í dag en þeir gerðu fyrir 8-9 árum síðan. Hvað hjólreiðar okkar Íslendinga varðar má ef til vill færa fram þau rök að í íslenskri veðráttu séu þær ekki nema fyrir annáluð hreystimenni stóran hluta ársins. Almenningssamgöngur eru líka síður en svo til fyrirmyndar á okkar kalda landi því það getur verið tímafrekt að komast á milli staða og þjónustan hefur hingað til verið of dýr þótt einhver breyting sé reyndar að verða þar á. Ég held að það þurfi þó meira til en bætt leiðarkerfi eða niðurgreidd strætófargjöld til að breyta samgönguvenjum okkar Íslendinga. Ég hef stundum fengið á tilfinninguna að sumum finnist það svolítið pínlegt að ferðast með strætó; slíkur ferðamáti henti einungis börnum og gamalmennum en ekki fólki á besta aldri sem hefur efni á að eiga og reka bíl og helst tvo. Sennilega þarf talsverða hugarfarsbreytingu til þess að breyta samgönguvenjum okkar. Aukin umhverfisvitund Íslendinga og aukin um- ræða um mengun af völdum umferðar er vonandi til þess fallin að sem flestir hætti að nota einkabílinn sem yfirhöfn og fari að velja umhverfisvænni ferðamáta. Gunnhildur Lily Magnúsdóttir Af sænskri umhverfisvitund 1 NEYTENDABLA‹I‹ 2. TBL. 2007

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.