Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.06.2007, Page 23

Neytendablaðið - 01.06.2007, Page 23
Hörður Bergmann þjóðfélagsrýnir er les­ endum Neytendablaðsins að góðu kunnur. Hann gaf nýlega út bókina Að vera eða sýnast ­ Gagnrýnin hugsun á tímum sjónar­ spilsins. Neytendablaðið bað Hörð um að svara nokkrum spurningum sem tengjast efni bókarinnar. Á fólk að skoða fjölmiðla með gagnrýnum augum? Við notum fjölmiðla í mismunandi tilgangi; stundum til afþreyingar og stundum til að fylgjast með og fræðast um það sem við höfum áhuga á. Ef við förum að skoða það sem við ætlum að hafa skemmtun af með mjög gagnrýnum augum þá er hætt við því að ánægjan endist ekki lengi. Aftur á móti er óhjákvæmilegt að hafa augun opin fyrir því sem virðist hæpið og villandi þegar fjölmiðlar túlka stefnu stjórnmálaflokka eða hagsmunasamtaka, hvort sem efnið kemur frá ritstjórninni eða er aðsent. Raunar er orðið svo mikið um tilbúning og úthugsaða sviðsetningu fyrir fjölmiðla frá hendi þeirra sem keppa um atkvæði okkar eða peninga að það er eins gott að hafa gagnrýna sjónaukann tiltækan. Hver finnst þér helsti galli fjölmiðla í dag? Gagnrýnisleysi. Mér finnst allt of lítið gert af því spyrja gagnrýninna spurninga og upplýsa hvað hangir á spýtunni. Valdhafar í landinu eiga allt of greiðan aðgang að fjölmiðlum með sjónarspil og fortöluskilgreiningar. Það hlýtur t.d. að bitna á lýðræði í landinu ef framhald verður á því að fjölmiðlar birta athugasemdalaust fréttir af því þegar ráðherrar gera samninga við þrýstihópa og stofnanir um milljarða fjárframlög og nóga peninga eftir að kjörtímabil þeirra rennur út. Því ekki að minna á að fjárveitingar úr ríkissjóði eru háðar samþykki Alþingis og ráðast af fjárlögum hvers árs? Því ekki að spyrja, fá staðfest að ráðherrann hafi kynnt stjórnarþingmönnum örlæti sitt? Mig grunar að jafnvel þeim sé farinn að ofbjóða einleikur ráðherranna sem sitja í skjóli þeirra; bjarta sviðsljósið sem þeir fá að baða sig í þegar kosningar nálgast. En almennt get ég tekið undir þá gagnrýni á fjölmiðla sem oftast heyrist: Það vantar meira af vel unnu íslensku efni og minna mætti vera af auglýsingum. Það er eins og hver önnur kennisögn að fjölmiðlarnir flytji það efni sem fólk vill helst, margt sem beðið er um sést sjaldan. Þú segir í formála bókarinnar: „Farvegur auglýsinga breikkar og fréttir og viðtöl snúast iðulega um að kynna söluvöru eða málstað”. Hvernig þekkja lesendur fréttatilkynningar frá öðru efni? Ég held að það sé vandalítið að greina á milli annars vegar frétta sem eru keyptar af þeim sem keppa á markaðnum og hins vegar frétta sem eru upplýsandi og koma frá samtökum sem gæta almannahags, eins og t.d. Neytendasamtökunum, eða stofnunum sem eiga að þjóna almenningi, eins og t.d. Lýðheilsustöð eða Vinnueftirlitunu. Sérblöðunum svo kölluðu er alltaf að fjölga og þar með auglýsingum í formi frétta, t.d. fara vörur og námskeið sem eiga að bæta heilsu oft inn í fréttaramma og líka sitthvað um nýjungar, bíltegundir gæddar eftirsóknarverðum eiginleikum og annað í þeim dúr. Stjörnur skemmtanabransans fæðast með markvissu kynningarstarfi, einhvers konar fréttaspuna. En ef maður ætlar að reyna að átta sig á því hvenær frétt er byggð á fréttatilkynningu, sem send er í kynningarskyni fyrir söluvöru, er um að gera að spyrja sig að því hvort fullyrðingarnar standist reynslu okkar eða þekkingu, þ.e. hvort „fréttin” af nýjunginni sé of góð til að geta verið sönn; er stjörnuskinið ekta? Þú gagnrýnir auglýsendur sem reyna oft að slá ryki í augu neytenda. Er það ekki það sem auglýsingar ganga út á? Auglýsingar sem beinast að neytendum eiga auðvitað að vekja áhuga sem leiðir til þess að varan selst. En sem minnst af ryki í augu fólks, takk. Ég tel mig vera á sömu línu og Neytendablaðið þegar ég hef gagnrýnt ýkjur og bull. Það held ég raunar að sé þjóðþrifaverk. Það er hvorki seljendum né neytendum til gagns eða sóma þegar reynt er lokka fólk til að kaupa krem eða kúr sem engu breytir, fæðubótarefni sem fæst úr venjulegum mat eða matvöru sem sögð er vera úr „náttúrulegu” hráefni. Mig minnir að einhvern tímann hafi verið spurt í Neytendablaðinu hvort matvara gæti verið úr ónáttúrulegu efni! Eru íslenskir neytendur of auðtrúa? Allir vita hve auglýsingastreymið í landinu breikkar og dýpkar. Auglýsingar standa undir sífellt stærri hluta af rekstrarkostnaði fjölmiðlanna. Neytendur hljóta að vera að borga sífellt meiri kostnað af birtingu auglýsinga við kassann hjá fyrirtækjunum sem auglýsa. Einhverjir þeirra borga fyrir von um betra útlit, heilsubót eða ímynd sem hefur veik tengsl við veruleikann. En vonandi eru það fleiri sem kaupa gott í matinn og eitthvað sem er örugglega til ánægju og þæginda. Hörður Bergmann  NEYTENDABLA‹I‹ 2. TBL. 2007

x

Neytendablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.