Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - 01.04.2014, Síða 7

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - 01.04.2014, Síða 7
7 hugur við tilhugsunina um að eiga að dvelja einn fjarri fjölskyldu og kunningjum á ókunnum slóðum. Maður var ef til vill barnalegur að hugleiða ekki þetta fallega boð nánar en ég var nú aðeins 15 ára og gerði mér kannski ekki fullkomna grein fyrir þeim möguleikum sem frekara nám í íþróttinni hefði getað skapað mér. Fékk skíði olympíu- og heimsmeistarans að gjöf En Jóni hlotnuðust fleiri viðurkenningar fyrir snilli sína á skíðunum á þessum árum, m.a. hlaut hann stökkskíði norska ólympíu- og heimsmeistarans Birgis Ruud að gjöf og lét Ruud svo ummælt við það tækifæri að Jón væri frábært skíðamannsefni og eitt það mesta sem hann hefði fyrir hitt. Ég bið Jón að lýsa þessu ögn nánar. Í tilefni af 25 ára afmæli Skíðafélags Reykjavíkur 1937 var sérstaklega vandað til Thúlemótsins og norska skíðastökkvaranum Birgi Ruud boðið. Ruud var þá sjöfaldur heims- og ólympíumeistari í skíðastökki og er tvímælalaust einn snjallasti skíðastökkvari sem uppi hefur verið. Stökkpallur var byggður skammt frá Skíðaskála Reykjavíkur og þarna sýndi kappinn listir sínar þrátt fyrir úrhellis rigningu þennan dag. Meðal þess sem Ruud sýndi var að koma létt niður. Þetta hafði fólk ekki séð áður og þótti mikið til koma, enda var leikni Ruuds á skíðunum þvílík að það mátti kallast undur. Á þessu móti sigraði ég í stökki og svigi. Fyrir sigurinn í stökkkeppninni gaf hann mér skíðin sín sem viðurkenningu auk þess sem hann hafði lofsverð ummæli um frammistöðu mína. Þetta fannst mér ákaflega mikill heiður og fallega gert af þessum kunna skíðagarpi. Af skíðunum er hinsvegar það að segja að á þeim keppti ég oft næstu árin og eru þau enn heil og óskemmd. Til keppni á Holmenkollen Árið 1947 voru liðin 50 ár frá því fyrst var keppt á Holmenkollen í Noregi. Af því tilefni voru fjórir keppendur valdir af Skíðasambandi Íslands til að keppa þar Þetta vorum við Jónas Ásgeirsson sem áttum að keppa í stökki og Guðmundur Guðmundsson og Ásgrímur Stefánsson í svigi. Við félagarnir héldum út u.þ.b. einum og hálfum mánuði fyrir mótið og dvöldum í Kongsberg við æfingar. Ég varð fyrir óhappi þarna í Kongsberg þegar ég stökk af palli sem var vitlaust hannaður. Ég fékk mjög harða lendingu og mörðust á mér hælarnir. Síðar frétti ég að Norðmennirnir voru ávallt með gúmmí í hælunum þegar þeir stukku. Þetta óhapp tafði mig frá æfingum í einar tvær vikur sem var miður. Við kepptum þarna á nokkrum mótum og náðum þokkalegum árangri. Okkur var ákaflega vel tekið af Norðmönnum og vorum jafnvel bornir á háhesti um salarkynni eftir mótin. Íslendingar höfðu lítið keppt á skíðamótum í Noregi til þessa og því þótti frændum okkar þetta sérstakur heiður og við fengum bikara og minjagripi og urðum þarna aðnjótandi margskonar heiðurs. Daginn fyrir keppnina á Holmenkollen fórum við Jónas að líta á aðstæðurnar. Ekki leist okkur nú meira en svo á þó við létum ekki á neinu bera. Það sem gerði þetta mest frábrugðið því sem við áttum að venjast var hinn gríðarlega hái turn sem keppendur renndu sér úr. Hér heima renndu menn sér bara niður fjallshlíðina að pallinum. Þegar við vorum þarna var talsverður vindur. Þarna voru 10-20 ungmenni að reyna pallinn og nokkur þeirra voru flutt brott slösuð því þegar þau stukku tók vindurinn þau og bar langt út fyrir brautina og stökk við þessar aðstæður var í rauninni stórhættulegt. Hundrað þúsund áhorfendur Keppnisdagurinn rann upp bjartur og fagur og veðrið eins og best varð á kosið. Eins og mörgum er vafalaust kunnugt er aðeins keppt einu sinni á ári á Holmenkollen. Mótin drógu á þessum árum að sér gríðarlegan fjölda áhorfenda og mótsdagurinn var nokkurs konar hátíðisdagur Norðmanna. Þarna voru samankomnir hátt í 100 þúsund manns sem var mesti mannfjöldi sem við Íslendingarnir höfðum nokkurn tímann keppt fyrir framan. Ég held að við Jónas höfum ekki verið sérstaklega upplitsdjarfir þegar við vorum að þramma upp turninn. Okkur hafði komið saman um að leggja meiri áherslu á að standa stökkin en stökklengdina. Við vildum ekki eiga á hættu að kútveltast niður snarbratta brekkuna neðan við stökkpallinn fyrir framan allan áhorfendaskarann. En keppnin gekk alveg þokkalega hjá okkur félögunum. Við stóðum stökkin í báðum umferðum og stökklengdin var 60-64 metrar en sigurvegarinn stökk 72 metra. Það kom í minn hlut að stökkva á undan og þegar ég var lentur á flötinni fyrir neðan pallinn var spilaður þjóðsöngur Íslendinga. Það fannst mér ákaflega tilkomumikið og verður þessi stund mér áreiðanlega ógleymanleg. Stemningin þennan dag á Holmenkollen var ólýsanleg en sýndi vel hvað skíðaíþróttin skipaði háan sess í hugum Norðmanna. Bestu skíðamenn þeirra nutu almennrar hylli á þessum árum og fólk þyrptist að þar sem þeir kepptu. Mér fannst ákaflega mikill heiður að því að fá tækifæri til að keppa á Holmenkollen og tel það í raun hápunkt á mínum keppnisferli. Hætti keppni rúmlega þrítugur Þegar ég hætti var ég búinn að vera á skíðum nánast alla vetur í 20 ár og fórna miklum tíma frá fjölskyldunni. Á keppnisferlinum hafði ég hlotið Íslandsmeistaratitil í göngu og svigi einu sinni, norrænni tvíkeppni tvívegis og stökki þrívegis. En þrátt fyrir að ég stæði ekki lengur sjálfur í eldlínunni sagði ég ekki skilið við skíðafólkið. Ég byggði stökkpalla og var stökkstjóri á mótum næstu árin og einnig fararstjóri þegar Siglfirðingar sendu unglinga til keppni í önnur byggðarlög. Það er ljúft að rifja upp minningar frá þessum árum, ferðalögin voru vissulega mörg og sum erfið þar sem samgöngurnar voru svo gjörólíkar því sem er í dag. En félagsskapurinn var skemmtilegur og ánægjustundirnar margar og þótt ekkert væri gefið eftir þegar í keppni var komið voru menn yfirleitt bestu félagar að henni lokinni. Jón Þorsteinsson hætti þátttöku í skíðakeppni rúmlega þrítugur. Á ferli sínum hafði hann unnið til fjölda verðlauna sem báru hróður hans og Siglufjarðar um allt land, og jafnvel lengra. Hann var sæmdur gullmerki ÍSÍ þegar hann var sjötugur.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.