Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2015, Blaðsíða 9

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2015, Blaðsíða 9
9SIGLFIRÐINGABLAÐIÐ - október 2015 Það var mikið um að vera s.l. sumar (2015) hjá eðalfólkinu sem fætt var á því herrans ári 1965 en helgina 24. til 25. júlí hittist árgangurinn á bernskuslóðum í Siglufirði. Heimavarnarliðið svokallaða sá um allan undirbúning og stóð sig með „bravör“ enda var helgin frábær í alla staði. Árgangsmótið hófst á föstudagssíðdegi með móttöku brottfluttra og maka þeirra og átti að fara fram á hinu nýja glæsilega Hótel Sigló með fordrykk og huggulegheitum. Ekki vildi betur til en svo að upp kom eldur í hótelinu sem gerði að verkum að ekki var hægt að hleypa fólki inn á hótelið og þeir sem þar gistu voru fluttir annað. Við færðum okkur því yfir á Rauðku og sátum þar um stund í góðu yfirlæti. Frá Rauðku lá leið okkar út á Ráðhústorg þar sem fólki var skipt í lið eftir litum og upphófst síðan æsispennandi ratleikur. Stjórnendur ratleiksins sáu greinilega ekki fyrir sér að keppnisskapið væri enn svona gífurlega ríkjandi hjá fólki á besta aldri og það sem átti að taka dágóða stund og vera afslappað dúll og tölt breyttist í æðislegt kapphlaup um bæinn þar sem allt var lagt í sprettina. Ekki komu allir heilir út úr þessum æfingum en engin nöfn verða nefnd. Eftir að búið var að útnefna sigurvegara ratleiksins og þeir búnir að grobba sig hæfilega, var haldið í hús björgunarsveitarinnar. Hópurinn dvaldi þar sem eftir lifði kvölds, borðaði frábærar veitingar frá Aðalbakaríi, gripið var í gítar og sungið og auðvitað var heilmikið skrafað og spjallað enda margir á staðnum sem ekki höfðu sést árum saman. Á laugardegi, stundvíslega kl 11 var farið niður í barnaskóla, skólahúsið skoðað og skólanum afhent gjöf frá árgangi 65. Örlygur Kristfinnsson sem kenndi okkur myndmennt sælla minninga tók á móti okkur, hringdi bjöllunni og öll fórum við í röð eins og fyrirmyndar nemendum sæmir. Það er gaman að segja frá því að fólk man nokkuð vel hvar þeirra staður var í röðinni og hverjir gengu inn saman. Inni í skólahúsi var farið í stofurnar og fólk rifjaði upp hverjir sátu hvar og /eða saman. Einnig var farið í leikfimisalinn og kaðlar og slár mátaðar og þykir nokkuð ljóst að sumir eru í fantaformi og geta enn rokið upp kaðal og sýnt leikni sína á slá án þess að blása (mikið) úr nös. Eftir heimsóknina í gamla skólann okkur héldum við sem leið lá upp í kirkjugarð en frá því að árgangurinn fór að hittast reglulega, höfum við haft fyrir sið að heimsækja leiði vinar og skólabróður okkar, Kolbeins Kolbeinssonar, sem lést ungur af slysförum. Síðan var haldið niður að Siglufjarðarkirkju en þar áttum við stefnumót við Ómar Hauksson. Hann fylgdi okkur síðan um bæinn og sagði sögur af húsum, fólki og staðháttum. Leiðsögn Ómars er bæði glettin og upplýsandi og hann er fróður um bæinn okkar, þetta varð því hin besta skemmtun. Heimavarnarliðið hafði greinilega gert ráð fyrir að fólk þyrfti að gera sig klárt fyrir kvöldið og eftir gönguna um bæinn fór hver til síns heima. Við hittumst síðan í Bláa húsinu um kvöldið þar sem við nutum glæsilegra veitinga en einnig voru frumflutt skemmtiatriði í boði heimavarnarliðs og brottfluttra úr árgangi 65. Skemmtunin og fjörið stóð fram á nóttina og fólk dansaði við tónlist frá áttunda áratugnum og byrjun þess níunda. Ýmsir taktar rifjuðust upp fyrir fólki og menn og konur snerust um í slögurum Meatloaf eða svifu um gólfið í ljúfum Abbatónum, tilþrifin voru upp og ofan en stórslysalaus. Allir höfðu þó gaman af og vertinn á staðnum mætti til að hrósa gestunum fyrir almenn skemmtilegheit og lífsgleði, ekki ónýtt það! En allt tekur enda, á sunnudagsmorgni hittust svo hressir skólafélagar úr árgangi 65 í Aðalbakaríi og snæddu brunch, ræddu skemmtun helgarinnar og kvöddust með virktum. Áætlað árgangsmót 55 ára er þegar komið í nefnd og munu brottfluttir sjá um þá framkvæmd. Helgin og árgangsmót fimmtugra, árgangs 1965 frá Siglufirði tókst með eindæmum vel og allir fóru ánægðir og glaðir til síns heima. Þökkum skal hér með skilað til heimavarnarliðsins og þeirra sem stóðu fyrir þessu frábæra árgangsmóti, þið stóðuð ykkur eins og hetjur! Hittumst heil árið 2020! Anna Friðrika Guðjónsdóttir. Árgangsmót á Siglufirði 1965

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.