Ægir - 01.07.2014, Síða 16
Blákarpi, Polyprion americanus
Helga María AK veiddi í mars 2012 102 cm langan blákarpa á
Melsekk (63°10’ N, 25°11’ V). Fiskurinn var tæp 20 kg og veiddist í
botnvörpu á 230 m dýpi. Þetta er stærsti blákarpi sem frést hefur
af við Íslandsstrendur, en tegundin mun geta náð 2 m lengd.
Blákarpi minnir dálítið á karfa í útliti nema liturinn sem er gráleitur
eða dökkbrúnn á baki, ljós á kvið og sporðblaðka er hvít í jaðarinn.
Hann virðist vera orðinn alltíður flækingur við Ísland, einkum
á svæðinu frá Suðausturmiðum og vestur fyrir Reykjanes en
sjaldséður norðan þess.
Brynstirtla, Trachurus trachurus
Eitthvað slæddist með af brynstirtlu við makrílveiðar, m.a. veiddi
Málmey SK einar þrjár djúpt vestur af landinu árið 2012. Þetta voru
34-36 cm langir fiskar. Brynstirtlu varð einnig vart í leiðöngrum
Hafrannsóknastofnunar, þrjár fengust árið 2012 og ein 2013. Þær
voru 27-39 cm langar og veiddust frá Berufjarðarál og vestur í
Faxaflóa. Brynstirtla, einnig nefnd hrossamakríll, er uppsjávarfiskur
og er hún algeng víða í Norður-Atlantshafi þar sem hún lifir í
stórum torfum frá yfirborði og niður á 100-200 m dýpi.
Sandhverfa Psetta maxima
Sandhverfa er sjaldséð í kalda sjónum fyrir norðan land og austan.
Í apríl 2013 veiddi Finni NS eina í grásleppunet í Bakkafirði og var
hún 41 cm á lengd. Frár VE veiddi síðan eina stóra í september
sama ár VSV af Dyrhólaey. Sú var 75 cm löng og var um 11 kg.
Flundra Platichthys flesus
Flundra hefur verið að breiðast út við landið en mest heldur
hún sig í hlýja sjónum við sunnan- og vestanvert landið. Í apríl
2013 veiddist 42 cm löng flundra í rauðmaganet við Steinsnes
í Mjóafirði. Ekki er vitað til að flundra hafi veiðst áður svo
norðarlega við Austfirði. Þá veiddist önnur í silunganet í júlí sama
ár við Húsavík á Ströndum.
Tunglfiskur Mola mola
Óvenju mikið varð vart við tunglfisk árið 2012, en alls fréttist af
sjö fiskum. Sex þeirra veiddust við makrílveiðar með flotvörpu
suðurvestur og vestur af landinu, frá Skerjadjúpi og norður á móts
við Snæfellsnes, en einn sást á sundi fyrir miðjum Faxaflóa. Lengd
þriggja þessara fiska var mæld. Voru þeir 92, 186 og 202 cm langir.
Þeir tveir stærstu vógu um 400 kg hvor.
Óvenju stórir eða sérkennilegir fiskar
Hlýri, Anarhichas minor
Ottó N. Þorláksson RE veiddi sérkennilegan hlýra í botnvörpu
á Halamiðum í nóvember 2012. Þessi fiskur var 103 cm langur
og ljósgrár á lit með gulum dílum. Í fyrstu var talið að þetta væri
steinbítur, en afstaða gómtanna sýndi að þetta var hlýri.
Skarkoli, Pleuronectes platessa
Í apríl 2013 fékk Óli Magg BA óvenju stóran skarkola í
grásleppunet í norðanverðum Breiðafirði. Þetta var 77 cm löng
hrygna, 12 ára gömul. Þeir sjást ekki oft svo stórir nú til dags, en
lengsti skarkoli sem mældur hefur verið við Ísland var 85 cm.
Fiskar af úthafskarfamiðum
Nokkrir fiskar bárust sem veiddust utan landhelgi við veiðar á
úthafskarfa með flotvörpu:
Stóri földungur, Alepisaurus ferox
Málmey SK veiddi stóra földung á 61°48’ N, 29°06’ V (600 m
togdýpi) í júní 2012. Hann var 155 cm langur.
Þá færði Helga María RE að landi eftirfarandi tegundir, sem
veiddar voru í maí 2013 á u.þ.b. 62°00´N 29°50´V. Þessir fiskar voru
hafðar til sýnis á Hátíð hafsins á sjómannahelginni það ár:
Álsnípa, Nemichthys scolopaceus, 2 eintök, 95 og 110 cm.
Bersnati, Xenodermichthys copei, 17 cm langur fiskur. Græðisangi,
Holtbyrnia anomala, 25 cm langur. Marsnákur, Stomias boa ferox,
20 cm langur. Slóansgelgja, Chauliodus sloani, tvö eintök 23 og
29 cm löng. Surtur, Cryptopsaras couesii, tvö eintök 25 og 37 cm
löng.
Hryggleysingjar
Nornakrabbi Paromola cuvieri
Helga María AK veiddi nornakrabba í botnvörpu á Litlabanka
(62°53’ N, 24°32’ V; 550 m dýpi) í apríl 2012 og í sama mánuði fékk
Aðalbjörg II RE annan í dragnót sunnan við Þorlákshöfn (63°47’ N,
21°26’ V; 150 m dýpi).
Nornakrabbi er tegund sem lifir í austanverðu Norður
Atlantshafi og Miðjarðarhafi, frá Angóla í suðri og norður til
norðurhluta Norðursjávar á 10-1000 m dýpi. Við Ísland veiddist
þessi krabbi fyrst á fjórða áratug síðustu aldar en hans varð ekki
aftur vart fyrr en 2003. Svo virðist sem þessi tegund hafi tekið sér
bólfestu við suðurströnd landsins.
Allmargar sjaldséðar tegundir veiddust í leiðöngrum
Hafrannsóknastofnunar, ýmist bæði eða annað hvort áranna
tveggja. Flestar tegundirnar veiddust á djúpslóð í haustralli
og eru þessar helstar: Slímáll (Myxine jespersenae), stuttnefur
(Hydrolagus affinis), digurnefur (Hydrolagus mirabilis), hvítnefur
(Hydrolagus pallidus), langnefur (Harriotta raleighana),
fjölbroddabakur (Polyacanthonotus rissoanus), gapaldur
(Eurypharynx pelecanoides), slétthaus (Bajacalifornia megalops),
bersnati (Xenodermichthys copei), broddatanni (Borostomias
antarcticus), marsnákur (Stomias boa ferox), kolbíldur
(Malacosteus niger), uggi (Scopelosaurus lepidus), svartdjöfull
(Melanocetus johnsonii), svarthyrna (Oneirodes eschrichtii),
bjúgtanni (Anoplogaster cornuta), grænlandsmjóri (Lycodes
adolfi), bleikmjóri (Lycodes luetkeni) og nafnlausi mjóri (Lycodes
squamiventer).
Í öðrum leiðöngrum veiddust einnig sjaldséðar tegundir
eins og t.d. djúpskata (Rajella bathyphila), sníkir (Echiodon
drummondii), fuðriskill (Icelus bicornis), guli brandáll (Gymnelus
retrodorsalis), blettaálbrosma (Lycenchelys kolthoffi), álbrosma
(Lycenchelys muraena), aurláki (Lycodonus flagellicauda),
kambhríslungur (Chirolophis ascanii), flekkjaglitnir (Callionymus
maculatus), dílakjafta (Lepidorhombus boschii) og litli flóki
(Phrynorhombus norvegicus).
Helstu heimildir
Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. 2013. Íslenskir fiskar. Mál og
menning, Reykjavík. 493 bls.
Hafrannsóknastofnun. 2014. Þættir úr vistfræði sjávar 2013. Hafrannsóknir
1785. s. 20-25
Parin, N.V. 1986. Gempylidae. Í: Fishes of the North-eastern Atlantic and
the Mediterranean. 2: 967-973.
Hlýri, albínói sem veiddist á Halamiðum
16