Vestfirska fréttablaðið - 22.12.1988, Blaðsíða 21
Reykjavíkurbréf
Páll Ásgeir Ásgeirsson.
„ ...freistandi að grípa til bersöglismála og
segja frá öllu því sem ég komst á snoðir um
í starfi mínu sem blaðamaður á Vestfirska
fréttablaðinu...“
Það er nebbnilega það. Og um
hvað skyldi þetta bréf svo eiga að
fjalla? Það er nú það. Um hvað á
leikritið að fjalla Eyvindur? Vissu-
lega koma nokkrir kostir til greina.
Ef bréfið ætti að vera skemmti-
legt og hreinskilið og ljóstra upp
leyndarmálum um innviði ísfirsks
viðskiptalífs, þá myndi ég segja
frá hvernig það bar til að ég sam-
þykkti að skrifa það. Það voru ein-
kennilegir samningar, tímafrekir
og í þeim voru brotnar flestar meg-
inreglur algengra viðskiptahátta.
En það yrði bæði höfundi bréfsins
og ritstjóra blaðsins til minnkunar,
svo við förum ekki nánar útí þá
leiðindasálma.
Ég ætti kannski að bera vistina
á mölinni hörðu saman við fjalla-
faðminn bláa og mjúka. Á hnytt-
inn og skemmtilegan hátt gæti ég
dregið upp hreint ómótstæðilega
mynd af sumarfríi andans í ávaxta-
lundum menningarinnar í Reykja-
vík. Hér drýpur nefnilega smjör
eða einhverjar aðrar fitusýrur af
hérumbil hverju strái. Hér eru allt-
af allir óskaplega hressir og kátir
eins og Jón Hreggviðsson var þeg-
ar verið var að hýða hann. En ís-
firðingar hafa allir komið til
Reykjavíkur og látið sér leiðast
þar, svo það gerum við ekki.
Annar kostur væri að grípa til
heimsósómastílsins og segja Isfirð-
ingum ærlega til syndanna. Láta
vaða yfir þá hárbeittar og glögg-
skyggnar aðfinnslur um allt það
sem aflaga hefur farið og er að fara
á Eyrinni við Skutulsfjörð. Það er
nefnilega útbreiddur misskilning-
ur, að allt sé í sómanum og lukk-
unnar velstandi þar vestra. Þar eru
margir pottar brotnir og sumir al-
veg í mél. En ísfirðingar hlustuðu
aldrei á mig meðan ég var heima-
maður, og gera það trúlega ekki
nú.
Einnig væri freistandi að grípa
til bersöglismála og segja frá öllu
því sem ég komst á snoðir um í
starfi mínu sem blaðamaður á
Vestfirska fréttablaðinu hér áður
en mátti ekki eða gat ekki skrifað
um af félagslegum, pólitískum,
efnahagslegum eða persónulegum
ástæðum. En eins og máltækið
segir: Sá sem ætlar að vaða í
drullupollum skyldi sjálfur klæðast
vaðstígvélum. Svo ekki skulum við
tala meira um það.
Nú síðast en ekki síst, þá gæti ég
skrifað í grátklökkum saknaðartón
um kosti þess að búa í dreifbýlinu.
Ég gæti mært landsbyggðina og
fjandskapast útí þéttbýlið þangað
til lesendur væru farnir að gráta af
heilagri vandlætingu og með-
aumkvun með mér. Veslings burt-
flogni unginn úr dreifbýlishreiðr-
inu. Bittinú, nú varð mér fingra-
skortur á lyklaborðinu. Er ísa-
fjörður dreifbýli? Samkvæmt skil-
greiningu mun svo ekki vera, held-
ur telst hann vera þéttbýli og að
auki höfuðborg Vestfjarða (að áliti
innfæddra). Ég ætlaði auðvitað að
segja (eða skrifa) að ég gæti skrifað
um kosti þess að búa úti á landi.
En það yrði aldrei mjög sannfær-
andi lesning, svo við sleppum því.
Það endar sennilega með því að
ég verð að sleppa því að skrifa
þennan árans pistil. Enda er ég
ekki viss um að lesendur geri sér
almennt grein fyrir því, hvílíka
alúð og natni þarf að leggja í pistla-
skrif af þessu tagi til þess að læsi-
legt sé. Andríki, gáfur, fyndni og
ótrúlegt innsæi í þjóðarsálina og
líkamann og allt heila klabbið, allt
þarf þetta að vera til staðar. Og
samkeppnin, maður guðs og lif-
andi. Állt frá því að Flosi fór að
verða vinsæll að marki fyrir skrif
sín í Vilja þjóðarinnar og síðar
Blað alþýðunnar, þá hafa velst
fram á hinn margfótumtroðna rit-
völl óteljandi spámenn sem vaða
yfir þjóðina á grútskítugum blek-
rosabullunum. Ekki verður svo
opnað blað, kveikt á útvarpi eða
yfirhöfuð litið í eða á fjölmiðla, að
þar sé ekki mættur einn árans
pistlahöfundurinn enn. Sjáiði bara
nýja sunnudagsmoggann. Þessi
hlunkur er ein pistlahrúga frá
fyrstu síðu til hinnar öftustu. Ég
lýsi ábyrgð á hendur Flosa Ólafs-
syni. NiSíir með pistilinn.
Ég lýsi því hérmeð yfir að þessi
pistill, ef pistil skyldi kalla, er í
raun ekki pistill heldur stríðsyfir-
lýsing. Ég segi pistlinum (sem
slíkum) stríð á hendur og mun eigi
af láta fyrr en þetta afstyrmi verður
útlægt gjört úr íslenskum blöðum.
Og hananú.
Hafa íslenskir blaðalesendur
einhvern tímann látið það í ljós að
þeim þætti gaman að lesa pistla af
þessu tagi? Nei, það hafa þeir sko
ekki gert. Ég veit ekki betur en að
pistlinum (sem slíkum) hafi hrein-
lega verið troðið ofan í kok á þeim.
Hverskonar nöldur á þetta eig-
inlega að verða? Hér fer örugglega
að læðast að skynsömum lesendum
sá grunur að höfundur
sé bara að fylla út í áður umsamið
pláss með bévuðum vaðli. Það er
að segja, ef skynsamir lesendur eru
ekki þegar hættir að lesa þetta
kjaftæði og hafa hent blaðinu út í
horn eða flett upp á hátíðamat-
seðlum eða einhverju slíku sem
hagnýtt má teljast þegar jólin eru
í nánd.
Blessuð jólin. Auðvitað á þessi
pistill að fjalla um jólin. Þetta á að
vera jólapistill. Ég bið lesendur
forláts á því að hafa teygt þá á
asnaeyrunum (eða asnaaugunum)
til þess að lesa svona langt. Gleym-
ið öllu sem stendur hér fyrir
framan. Nú hefst jólapistill.
Það sem öðru fremur setur svip
sinn á jólaundirbúninginn að þessu
sinni, bæði á Vestfjörðum og utan
þeirra, er örvænting. Kaupmenn
örvænta yfir því hvað almenningur
er tregur til þess að versla við þá.
Almenningur örvæntir yfir því
að nýja ríkisstjórnin, sem lofaði að
vernda hagi hinna lægst launuðu,
hefur þrengt svo að þeim að ör-
birgð blasir við. Ríkisstjórnin ör-
væntir yfir týndum huldumanni
sem hafði lofað að styðja hana í
herferðinni til útrýmingar íslensk-
um almúga. Fyrrum forseti sam-
einaðs Alþingis örvæntir yfir
lausmælgi og skilningsleysi núver-
andi forseta og fornum áfengis-
kaupum. Og nú verður ekki talað
meira um brennivín og hver keypti
það, hvenær og á hvaða kjörum.
Það hefur lítillega verið minnst á
þau mál annars staðar. Það hálfa
væri nóg.
Opinberir starfsmenn öryænta
yfir því að þeim verði ef til vill
aldrei leyft að kaupa brennivín
aftur. ísfirðingar örvænta yfir því
að bærinn skuldar ríkissjóði ein-
hver ókjör af peningum. Ríkis-
sjóður örvæntir yfir misskilningi
Isfirðinga sem héldu sig eiga fé hjá
ríkissjóði. Allir eru á einhverju
rosalegu örvæntingarflippi yfir
frekar ómerkilegum hlutum.
Og hér verður loksins barinn
botn í þetta ómerkilega blaður sem
glöggskyggn lesandi er auðvitað
löngu búinn að sjá að fjallar ekki
um nokkurn skapaðan hlut. En svo
flýgur hver sem hann er fiðraður,
og læt ég það verða mín lokaorð
að sinni.
Heilir og sælir.
Páll Ásgeir Ásgeirsson.
Höfundur var búsettur á ísafirði
um sex ára skeið, en fluttist til
Reykjavíkur sl. haust. Naumast
þarf að kynna hann fyrir mörgum
ísfirðingum aðminnsta kosti, enda
hefurhann komið víða við, en þess
má þó geta að hann starfaði aII-
lengi við Vestfirska fréttablaðið.
SVÆÐISSTJÓRN MÁLEFNA FATLAÐRA
VESTFJÖRÐUM
Tilsjónarmaður, helst karlmaður, óskast í
hlutastarf til að hafa umsjón og eftirlit með
einstaklingi á ísafirði.
Nánari upplýsingar gefur félagsmálastjóri
ísafjarðarkaupstaðar í síma 3722 eða fram-
kvæmdastjóri Svæðisstjórnar í síma 3224.
Skattstofa
Vestfjarðaumdæmis
verður lokuð á Þorláksmessu, 23. desember,
en verður opnuð að Hafnarstræti 1-3, ísa-
firði, á 4. hæð, þriðja dag jóla, 27. desember
næst komandi.
Framvegis verður opið frá kl. 10:00 - 15:00
mánudaga til föstudaga.
Símanúmer skattstofu verða óbreytt.
Skattstjórí Vestfjarðaumdæmis.
Húsafriðunarsamtök
Stofnfundur
í framhaldi af undirbúningsfundi í nóvember sl.
er boðað til stofnfundar samtaka um húsafriðun
og umhverfisvernd á ísafirði og nágrenni. Fund-
urinn verður haldinn á Hótel ísafirði miðvikudag-
inn 28. desember og hefst kl. 20:30. Öllum er
heimil þátttaka.
Á dagskrá verður m.a.:
Kynning á félögum í bænum með svipað
starfssvið.
Málefni Eyrarkirkju og nágrennis hennar.
Nafn fyrir samtökin og lög til að starfa eftir.
Kosin stjórn fyrir samtökin.
Önnur mál.
Áhugamenn um húsafriðun
og umhverfisvernd fjölmennið.
Undirbúningsnefnd.
Samgönguráðuneytið
Stöðugleiki fiskiskipa
Endurmenntunarnámskeið
fyrir starfandi sjómenn
Námskeið verður haldið í Menntaskólanum
á ísafirði dagana 27., 28., 29. og 30. desem-
ber. Á námskeiðinu verða tekin fyrir helstu
atriði varðandi stöðugleika og notkun stöð-
ugleikagagna fyrir fiskiskip.
Námskeiðið er haldið á vegum samgöngu-
ráðuneytisins í samvinnu við Stýrimanna-
skólann í Reykjavík og hagsmunaaðila.
Starfandi sjómenn eru hvattir til þátttöku.
Nánari upplýsingar og skráning í síma 94-
3899.
Samgönguráðuneytið.