Feykir


Feykir - 25.05.1983, Blaðsíða 5

Feykir - 25.05.1983, Blaðsíða 5
MIÐVIKUDAGUR 25. MAÍ 1983 FEYKIR 5 Eftir BJÖRN EGILSSON Það var fyrir fjörutíu árum, að messað var í kirkju á afskekkt- um stað í héraðinu. Þetta varum sumar og margt fólk við kirkju. Fjórir vinnufélagar komu þar og settust á innsta bekk við pre- dikunarstól. Þeir steinsofnuðu þegar messan hófst, en sagt var, að þeir hefðu vakað við drykkkju kvöldið áður. Þegar prestur sté í stólinn hafði hann með sér biblíu, sem var stór og þung og lagði hana á stólbríkina. Síðan fór hann að predika, en allt í einu datt biblían í gólfið með miklum hávaða og grunaði suma að prestur hefði látið hana detta. Þeir fjórmenningar vökn- uðu við hávaðann og munu ekki hafa fest blund eftir það, meðan messan stóð yfir. Sumir prestar eru viðkvæmir fyrir því, ef kirkjugestir festa blund eða ef kirkjugestir eru sárafáir. Þetta er mannlegt. Þeir eru búnir að leggja vinnu í að semja ræðu og vilja að kirkju- gestir vaki og heyri orðið og svo vilja þeir að sem allra flestir sæki kirkju. Já, þetta er mannleg afstaða en á misskilningi byggð. „Og hvar sem sjö eru saman komnir í mínu nafni, þá er eg mitt á meðal þeirra, og einnig þótt þeir séu aðeins tveir eða þrír - jafnvel þegar einmana leitar mín í kyrrðinni er eg honum nálægur.” Sjálfur hef ég verið við messu, þar sem voru 6 manns í kirkju og man ég ekki aðra messu hátíð- legri. Messa þessi var sungin í skammdegi við kertaljós. Á jólaföstu 1982 átti Sauð- árkrókskirkja nítíu ára afmæli. Fjöldi fólks var við afmælis- messu af þessu tilefni. Ég var þar ekki, var ég þó við messu, í minni sóknarkirkju fram í dölum. Eftir afmælismessuna var haldin samkoma í Bifröst og voru þar ræður fluttar. Séra Tómas Sveins- son þjónaði Sauðárkrókspresta- kalli nokkur ár. Hann flutti skemmtilega ræðu í Bifröst, að því er mér hefur verið sagt, og lét þess getið meðal annars, að eitt sinn hefði meðhjálpari sinn verið sofandi þegar hann átti að afskrýða prestinn. Ég sem þetta skrifa var með- hjálpari séra Tómasar, víst ein þrjú ár. Ekki segir séra Tómas þetta ósatt. Ég man þennan atburð vel, eins og hann hefði skeð i gær. Ég sat innarlega í kirkjunni að norðan, líklega í öðrum eða þriðja bekk frá predikunarstól. Ekki var það ræða prestsins sem svæfði mig, en það gæti hafa verið söng- listin, sem er æðst allra lista, eða pistilí og guðspjall. Svo vel vildi til að Helgi Rafn, formaður sóknarnefndar, sat fyrir aftan mig og ýtti við mér og þegar ég var kominn til meðvitundar var presturinn kominn lítið eitt lengra fram á gólfið en þar sem ég sat. Nú það mátti svo vera, því ég átti að ganga á eftir honum fram í skrúðhúsið. En hvernig hefði farið ef ég hefði ekki verið vakinn? Nú prestur hefði getað lagt frá sér hökulinn hjálparlaust, en djákni máaldrei sofa í kirkjunni, því á hans valdi er röð af embættisverkum: að lesa bæn, skrýða og afskrýða prestinn, opna glugga eða loka þeim og sjá um allt sé í röð og reglu. Eg held ég hafi aldrei gleymt að kveikja á kertunum á altarinu, enda var þá ekki kominn svefntími. Við séra Tómas ræddum þetta á eftir og hann ávítaði mig ekki, því hann er mildur í lund og góðmenni. Öðru sinni var það að prestsfrúin fann að því, þegar ég svaf eða mókti undir barna- messu. Hún gerði það í góðri meiningu og sagði að það væri svo leiðinlegt fyrir börnin að sjá mig sofa í kirkjunni. I þetta sinn þurfti ég þó ekkert að gera og sat í krókbekknum að norðan, en við venjulegar messur gerði ég mig breiðan og sat á innsta bekk. Sauðárkrókskirkja er gott hús. Oft og mörgum sinnum sótti svefn að mér þar, svo ég varð að beita allri orku til að sofa ekki nema svo sem eina mínútu í einu. En þetta gerðist ekki í hverri messu og veit ég ekki neina skýringu á því. Ég er ekki einn um að sofa í kirkju. Fjöldi fólks fyrr og síðar hefur sömu sögu að segja. Um síðustu aldamót skrifaði Þorgils gjallandi söguna „Upp við fossa”. I þeirri sögu lýsir höfundurinn páskamessu þann- ig meðal annars: „Margur roskinn maður var sá, er fann höfuga ró færast yfir sig, hvíld og værð og megnan hita; andlit fjölda margra urðu þunglamaleg og dráttarslök; augnlokin sigu niður hægt og hægt; höfuðin hnigu niður; sam- visku ró og helgifriður löðuðu til sígandi svefns.” Hefur nokkur heyrt þess getið, að svefn sæki að fólki er það hlustar á útvarpsmessu í heimahúsum? Ekki ég. Hvað veldur þvi að svefn sækir að fólki í kirkjum? Það er friðurinn, sem er æðri öllum skilningi og kirkjuhúsið er heilagur staður. Og andinn mótar efnið. Fyrst er vígsla kirkjunnar, en síðan marg endurteknar helgiathafnir með bænum og tilbeiðslu, hvítar hugsanir einar, er verða áfram í kirkjunni og helga gólf, þil og hvelfingu. Ég heyrði séra Halldór Kol- beins segja frá því, að oft þegar hann stæði fyrir altari, fyndi hann andlegan kraft leika um sig og hann bætti því við, að mestur andlegur kraftur væri í Víðimýrarkirkju af kirkjum hér, af því hún væri elst, næst Hóladómkirkju. Hinar hvítu hugsanir, sem helga kirkjuhúsin eru sumar sterkar, en aðrar veikari. Farfuglarnir fljúga grein af grein eða hoppa á þúfu af þúfu, stefnulaust að því er virðist. En að áliðnu sumri hópa þeir sig saman og fljúga yfír höfin breið, með þeim hug og dug sem enginn skilur. Hugur hins venjulega manns er eins og fugl, sem flögrar sitt á hvað. Ég ræð lítið við hvaða hugsanir koma og fara um huga minn, en hugsanir manna geta verið svo sterkar að þær flytji fjöll og þá getur það gerst, sem kallað er kraftaverk, þegar þekkt lögmál efnisheimsins eru rofin. Góð vinátta var með okkur séra Tómasi. Við munum ekki hafa verið sammála um allt milli himins og jarðar, en við ræddum aldrei um það, sem við gætum hafa verið ósammála um. Eftir hinn óleyfilega kirkjusvefn hjá mér, sagði hann, að þetta hefði kannski verið vegna þess, að í predikun þar næst á undan hefði hann eitthvað minnst á Búdda, en hann mun hafa haft hug- mynd um, að speki Búdda væri mér hugstæð. Eitt sinn spurði ég hann hvers vegna himnaríki væri uppi í festingu himinsins, en helvíti einhvers staðar niðri við eld og myrkur. Þetta er mannleg hugsun, svaraði hann 9g vorum við sammála um það. Öðru sinni spurði ég séra Tómas að því hvers vegna drottinn hefði djöfulinn hið næsta sér alltaf og alls staðar. Því getur enginn svarað, mælti þá prestur. I Ameríku er það sagt, að þar sé eirðarleysi og hraði svo mikill, að fólk sé hætt að geta sofnað í kirkju. Ég á þá ósk, að fólk á íslandi verði aldrei svo yfirkomið af eirðarleysi og hraða, að það hætti að geta fest blund í kirkju og notið hins himneska friðar, sem er æðri öllum skilningi.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.