Skólavarðan - 01.02.2006, Blaðsíða 14

Skólavarðan - 01.02.2006, Blaðsíða 14
14 NÁMSEFNI SKÓLAVARÐAN 1.TBL. 6. ÁRG. 2006 Ósérhlífni er alltaf jafnheillandi. Þær Ragnheiður Jónsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir bókasafnskennarar hafa þennan eiginleika til að bera í ríkum mæli. Undanfarið hafa þær unnið að gerð námsefnis sem mun vafalaust gera fjölda barna og unglinga með annað móðurmál en íslensku kleift að ná tökum á málinu hratt og vel. Námsefnið heitir Lesið, hlustið, lærið íslensku, en þess má geta að hugmyndin er komin frá Danmörku þar sem sambærilegt verkefni fékk virt frumkvöðlaverðlaun fyrir nokkrum árum. Einfaldar hugmyndir eru oft þær bestu og þessi er stórsnjöll. Hún felst í því að valdar barnabækur eru lesnar upp á snældur eða geisladiska svo að nemendur geti lesið textann og hlustað á hann um leið. Hugmyndin er að bækurnar og upptökurnar séu notaðar í skólum og eins geti nemendur fengið þær lánaðar heim. Þar geta foreldrar stutt börnin í náminu hvort sem þeir kunna íslensku eða ekki, enda fylgja leiðbeiningar á því tungumáli sem fjölskyldan talar. Ragnheiður og Ragnhildur lögðu gífur- lega vinnu í að lesa sem flestar tiltækar bækur til þess að finna efni þar sem texti og myndir eiga vel saman, en sú er því miður allt of sjaldan raunin. Báðar hafa mikla reynslu af því hvernig hægt er að gera börn að unnendum bóka. Ragnhildur fór í framhaldsnám í Danmarks lærerhøjskole eftir kennarapróf og var ein þeirra sem komu á fót fyrsta grunnskólabókasafninu en það er í Laugarnesskóla. Síðar var hún einn stofnenda barnabókaútgáfunnar Bjöllunnar, ásamt því að vinna á bókasöfnum innan sem utan skóla, meðal annars í Háteigsskóla þar sem var náin samvinna milli bókasafns og móttöku- deildar nýbúa. Ragnheiður kenndi í aldarfjórðung og lærði síðan bókasafnsfræði í Háskóla Íslands. Hún tók að sér skólabókasafn Melaskóla og er nýlega hætt störfum þar sökum aldurs. „Ég hef alltaf verið bókakona,“ segir Ragnheiður og hlær. En hvernig stóð á því að þær réðust í þetta verkefni? „Friðbjörg Ingimarsdóttir kennsluráðgjafi er dóttir mín,“ segir Ragn- heiður, „og hún kynntist þessu verkefni í Danmörku og benti okkur á það. Okkur leist strax með eindæmum vel á þetta. Árið 2002 fengum við styrk og hófum vinnuna, en auk þess að vera tímafrek er stúdíóvinna mjög kostnaðarsöm.“ Eftir að hafa lesið mikinn fjölda bóka söfnuðu þær Ragnheiður og Ragnhildur saman nýtanlegum bókum og skiptu þeim í þrjá þyngdarflokka. Alls völdu þær 31 bók og lásu þær allar inn á band. „Við spáðum mikið í lesturinn,“ segja þær. „Niðurstaðan var að lesa eina blaðsíðu í senn, hafa augnabliksdvöl til að tengja mynd og texta, fletta og lesa svo áfram. Þá er þetta hvorki of hratt né of hægt.“ Ekki tókst að fá nægan styrk til að fjölga bókum og of dýrt var að fá leyfi fyrir nema örfáum upptökum af hverri bók hjá leyfishöfum. Það varð því ofan á að dreifa efninu til móttökuskólanna í Reykjavík, Austurbæjarskóla, Háteigsskóla og Breiðholtsskóla, auk Melaskóla. Týnist upptaka brenna þær Ragnheiður og Ragnhildur nýjan disk heima hjá sér en ljóst er að til að tryggja útbreiðslu verkefnsisins þarf meira fé; til stúdíóvinnu, leyfiskaupa, fjölföldunar og dreifingar. Árið 2004 fluttu Ragnheiður og Ragnhildur lesturinn af bandi yfir á geisladiska en þá kom í ljós að ekki voru allar bókanna lengur fáanlegar. Þær eru þó sem betur fer til á bókasöfnum og því hægt að nýta sér hljóðupptökurnar hér eftir sem hingað til. Leiðbeiningar á þrettán tungumálum Þær Ragnheiður og Ragnhildur hafa mikinn áhuga á að kynna þessa aðferð í íslenskunámi sem víðast og hafa fundið leið til þess. „Allir geta lesið bækur inn á band,“ segja þær, „og unnt er að nota efnið á marga vegu. Til að mynda með því að spila söguna fyrst og láta nemendur fá bókina síðar í hendur, eða lána þeim til yndislestrar í skólanum eða heima fyrir. Þetta er aðgengilegt efni sem auðvelt er að vinna með og þessi lausn kostar ekki mikið.“ Ragnhildur og Ragnheiður hafa jafnframt útbúið leiðbeiningar um notkun námsefnisins sem til eru á þrettán tungumálum auk íslensku. Leiðbeiningarnar fylgja náms- efnispakkanum en hann samanstendur af bókunum ásamt geisladiskum í vasa í hverri bók. Öllu er safnað saman í möppur og litamerkt eftir þyngdarstigi. Friðbjörg Ingimarsdóttir, upphafsmaður verkefnisins, segir efni af þessum toga sárvanta hérlendis. Hún bendir jafnframt á aðra hugmynd sem mikill akkur væri að; einfaldari og styttri útgáfu af námsbókum sem til eru fyrir þá sem hafa annað móðurmál en íslensku. Að sögn Friðbjargar þurfa nemendur að fá efni við sitt hæfi en ekki bækur sem ætlaðar eru mun yngri nemendum og koma má til móts við þennan hóp með því að létta og stytta texta námsbókar en láta þó öll meginhugtök halda sér – þau má taka til hliðar og skýra sérstaklega. „Markmiðið er ekki að klára bókina heldur að mennta fólk og til þess þarf hugtakaskilning,“ segir Friðbjörg. Kynningar á námsefninu Höfundar Lesið, hlustið, lærið íslensku bjóðast til að halda kynningu á námsefninu og hugmyndafræðinni sem það byggist á. Leiðbeiningarnar með verkefninu verða aðgengilegar á netinu á slóðinni www. menntasvið.is Hafið samband við Ragnheiði Jónsdóttur í síma 553 3543, netfang rajon@simnet. is eða Ragnhildi Helgadóttur í síma 561 1834, netfang bollib@simnet.is keg Einföld en stórsnjöll hugmynd sem gerir heilu fjölskyldunum kleift að læra íslensku í sameiningu Lj ós m yn d: k eg Ragnhildur, Ragnheiður og Friðbjörg

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.