Skólavarðan - 01.05.2008, Blaðsíða 15

Skólavarðan - 01.05.2008, Blaðsíða 15
15 vIÐTAL vIÐ óLAF ELíASSON SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 8. ÁRG. 2008 viðbrögð við breyttu umhverfi tónlistarskóla þar sem ég hafði Tónlistarskóla Garðabæjar til hliðsjónar,“ segir Ólafur. „Niðurstaða mín í því verkefni var sú að ég tel að hefð- bundnu tónlistarskólarnir þurfi að bregðast afdráttarlaust við breytingum sem eru að verða á umhverfi þeirra og leitast við að leiða sjálfir þróun í tónlistarkennslu. Það geta þeir gert með því að móta sér skýra framtíðarsýn og setja sér markmið í starfi sem líkleg eru til að styrkja stöðu þeirra í þjóðfélaginu.“ Kennarar leiði stefnumótun Ólafur nefnir einnig að skólinn ætti að stefna að sem hæstu getustigi nemenda, þ.e. að sem flestir nemendur ljúki viðurkenndum stigsprófum, og að sérhanna þurfi verkefni fyrir ungt fólk á aldrinum tólf til sextán ára með tilliti til áhugasviðs þess. Á þeim aldri hafa nemendur sinn eigin tónlistarsmekk og margir hætta sé námið ekki í samræmi við áhuga þeirra. „Margir tónlistarkennarar eru mjög með- vitaðir um þetta og leggja sig fram um að ná til nemenda,“ segir Ólafur, „en það þarf að koma á markvissari hátt til móts við nemendur á þessum aldri, móta um það skýra stefnu og gefa kennurum svigrúm til að skipuleggja kennslutíma sinn með tilliti til þessara áherslna. Hljóðfæranám í grunnskólum Sömuleiðis þarf stefnumörkun um hljóð- færanám í grunnskólum að vera skýr, á hvaða forsendum hún sé og hversu mikil. Ef stór hluti hljóðfæranáms færist til dæmis inn í grunnskóla getur komið að því að foreldrar fái þá tilfinningu að það sé í engu frá- brugðið hljóðfæranámi í tónlistarskólanum í aðbúnaði og ýmsum öðrum þáttum. Við sem störfum að tónlistarkennslu vitum hins vegar að tónlistarskólarnir geta boðið upp á mun faglegra nám sé það stundað þar. Í verkefninu legg ég til að hljóðfæranám fram að tíu ára aldri færist inn í grunnskólann en þá taki tónlistarskólinn að mestu við. Það sem stendur hins vegar upp úr í þessum vangaveltum öllum,“ segir Ólafur, „er að tónlistarskólakennarar verða einnig að vera í fararbroddi í þessari umræðu í sam- félaginu. Ýmsar leiðir eru færar og fjölbreytni er af hinu góða en ef tónlistarskólakennarar viðra ekki skoðanir sínar og berjast ekki pólitískt fyrir þeim er hætt við að þeir sem minna vita taki stjórnina með misjöfnum árangri.“ Tónlistarnámskeið fyrir bæjarbúa Í verkefninu leggur Ólafur til annað megin- markmið sem Tónlistarskóli Garðabæjar gæti sett sér til að styrkja stöðu sína til framtíðar og fylgir því eftir með rökstuðningi um hvernig standa megi að framkvæmd þess. Markmiðið er að skólinn verði í farar- broddi á höfuðborgarsvæðinu þegar litið sé til fjölbreytts námsframboðs umfram hefðbundna hljóðfærakennslu. Í rökstuðningi með markmiðinu segir Ólafur meðal annars: „Þegar litið er til þess að ekki er ólíklegt að á næstu árum standi tónlistarskólinn frammi fyrir því að einkaaðilar bjóði í tónlistarkennslu bæjarfélagsins, er afar mikilvægt að tónlistarskólinn geti sýnt fram á að innan hans fari fram mun öflugara tónlistarstarf en einkaaðilar geta boðið upp á. Núverandi hljóðfærakennsla sem skólinn veitir er að miklum meirihluta einkatímar hjá hljóðfærakennara og eiga einkaaðilar ekki erfitt með að veita þeirri þjónustu samkeppni. Eins og stendur virðast hagsmunaaðilar skólans bera mikla virðingu fyrir tónlistarskólanum og líta svo á að innan hans sé einmitt boðið upp á starfsemi sem telst langt umfram það sem einkaaðilar geta boðið upp á, svo sem ýmislegt samspil og hliðargreinar og kannski kemur ekki síst til sterk ímynd skólans sem menntastofnun.“ En að sögn Ólafs er ekki gefið að núverandi sterk ímynd hefðbundnu tónlistarskólanna fylgi þeim inn í framtíðina. „Þetta getur breyst á næstu tíu árum ef því er að skipta,“ segir hann. Markmiðinu vill hann koma í framkvæmd með því að Tónlistarskóli Garðabæjar hvetji kennara skólans til að bjóða bæði nemend- um og bæjarbúum upp á ýmisleg tón- listarnámskeið sem þeir haldi á eigin vegum. „Til þess fái þeir endurgjaldslaust aðstöðu í skólanum. Þannig munu bæjarbúar njóta aukins framboðs á fjölbreyttum tónlistar- námskeiðum sem gagnast ekki aðeins nemendum skólans heldur einnig almenningi í bæjarfélaginu. Sem dæmi um slík námskeið mætti nefna: Hljómakennslu fyrir fullorðna, námskeið fyrir fyrrverandi nemendur sem vilja halda sér við, námskeið þar sem ýmsar tónlistarstefnur eru kynntar almenningi, þjóðlaganámskeið og svona mætti lengi telja. Lagt er til að alla vega tvö til þrjú slík námskeið séu í boði hjá skólanum á hverri önn“ Mosó iðar af lífi Auk fræðanna um skipulagsheildir styðst Ólafur við hugmyndir mannauðsstjórnunar bæði í þessu verkefni í námi sínu og öðru þar sem hann veltir því meðal annars fyrir sér hvernig nemendur geti notið þekkingar og reynslu fleiri kennara skólans en bara aðalkennara síns. Þessa stundina er hann hins vegar að kanna viðhorf foreldra í Mosfellsbæ til tónlistarnáms barna sinna með skoðanakönnun. „Mosfellsbær er í mestum vexti bæjarfélaga á landinu og þar iðar allt af lífi!“ segir Ólafur. „Þar eru nýjar áherslur um tónlistarskóla, í hnotskurn er þetta þannig að búið er að sameina tón- listarskóla, leiklistarnám, myndlistarskóla og skólahljómsveitarstarf undir einn hatt. Ýmsar aðrar hugmyndir vekja einnig áhuga minn. Í samningi bæjarfélagsins við listaskólann er t.d. sérstaklega tekið fram að listaskólinn skuli bjóða bæjarbúum upp á ýmis nám- skeið, en þetta rímar afar vel við mínar hugmyndir. Atli Guðlaugsson er skólastjóri og virðist hann fullkomlega óhræddur við að takast á við nýungar í starfi. Það verður gaman að fylgjast með þróun þessa skóla á næstu árum. Hefðbundið klassískt nám er akkerið Minn skóli, Tónlistarskóli Garðabæjar, hefur reyndar mjög sterka ímynd hjá bæjarbúum enda standa bæjaryfirvöld afar vel að skólanum og hafa mikinn metnað fyrir hönd hans. En ég spyr: Eru ekki auknar líkur á að skólinn haldi þeirri ímynd og styrki hana jafnvel enn frekar ef margir bæjarbúar hafa til dæmis sótt námskeið á hans vegum? Þetta má segja um marga skóla, kannski um tónlistarskóla almennt. Hefðbundið klassískt tónlistarnám er akkerið, frumforsendan. En skólinn getur líka komið til móts við aðra íbúa bæjarins eða hverfisins en þá sem stunda formlegt nám við skólann. Fyrir vikið verður hann svo aftur í betri stöðu til að sækja sér það fé úr bæjarsjóði sem hann þarf til að halda úti góðu og metnaðarfullu námi,“ segir Ólafur Elíasson. keg

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.