Franskir dagar - 01.07.2016, Page 8
Franskir dagar Les jours français
8
Björgunarbáturinn Hafdís er íslensk nýsmíði
bátasmiðjunnar Rafnar ehf. í Kópavogi. Það
sem gerir þessa tegund báta einstaka er sérstakt
skrokklag sem nefnist Ok hull og er uppfinn-
ing eiganda fyrirtækisins Össurar Kristinssonar.
Hefðbundinn hraðbátur notar vélaraflið til að
lyfta sér upp úr sjónum og siglir eða fleytir kerl-
ingar ofan á haffletinum á meðan bátar frá Rafnar
eru svokallaðir særýmisbátar sem ryðja sjónum
frá sér en lyfta sér ekki upp. Þetta gerir það að
verkum að bátarnir eru einstaklega mjúkir í sjó
og álagið á áhöfnina er mun minna en í hefð-
bundnum bátum.
Hafdísin er sérhannaður sjálfréttandi lokaður
björgunarbátur og því er um algera byltingu fyrir
björgunarsveitina Geisla að ræða. Félagar sveit-
arinnar hafa tekið þátt í hönnunarferlinu og bát-
urinn því sniðinn að þörfum sveitarinnar.
Áhöfn Hafdísar hefur nú tækifæri til að flytja og
annast sjúklinga í liggjandi stöðu inni í upphit-
uðu húsi en hingað til hafa aðeins björgunarskip
Landsbjargar og björgunarbáturinn Þór í Vest-
mannaeyjum getað það. Þetta eykur notkunar-
gildi bátsins mikið og getur stytt tímann sem
tekur að flytja slasaða eða veika sjómenn undir
læknishendur. Til þess að það megi verða þurfa
þó þeir aðilar sem koma að björgunarmálum á sjó
að hugsa þetta sem mögulegan kost í stöðunni
því hingað til hafa menn treyst nánast alfarið á
þyrlur Landhelgisgæslunnar til að sinna sjúkra-
flutningum af sjó. Fram hefur komið í fjölmiðlum
að flugtími á þyrlu Landhelgisgæslunnar kostar
um það bil 700.000 kr. á meðan áætlanir björg-
unarsveitarinnar gera ráð fyrir að siglingatími á
Hafdísi kosti um það bil 40.000 kr.
Nýja Hafdísin er vel tækjum búin til leitar og
björgunarstarfa eins og sést á meðfylgjandi
myndum innan úr stýrishúsinu. Báturinn er búinn
öllum fullkomnustu siglingatækjum auk hita-
myndavélar sem auðveldar leit í slæmu skyggni.
Hann er einnig búinn Sidescan hátíðni dýptar-
mæli sem teiknar ansi nákvæma mynd af botn-
inum, sjálfstýringu sem getur stýrt bátnum sjálf-
virkt í leitarferla, tveimur VHF talstöðvum, Tetra
talstöð, 3G síma og mörgu fleiru. Einnig verður
reynt að búa bátinn sem best með lausabúnaði
og er til að mynda í honum dæla sem dælir 1200
lítrum á mínútu, sjúkrabúnaður og fleira.
Gert er ráð fyrir að í áhöfn bátsins séu þrír eða
fjórir björgunarmenn og er báturinn hannaður
með það að leiðarljósi að uppstilling í stýrishús-
inu geti verið mismunandi eftir því hvaða verk-
efnum er verið að sinna. Öll sæti og bekkir eru
því á hraðfestingum svo hægt sé, með auðveldum
hætti, að færa þau til eftir því hvort um leitar- eða
björgunarverkefni er að ræða eða sjúkraflutning.
Björgunarsveitin þakkar þeim aðilum sem styrktu
þetta stóra verkefni, það er ykkar framlag sem
gerir það að verkum að við getum með miklu
stolti sagt að á Fáskrúðsfirði sé einn best búni
björgunarbátur í eigu björgunarsveitar á landinu.
Björgunarbáturinn Hafdís
Texti og myndir: Óskar Þór Guðmundsson
Uppstilling í stýrishúsi fyrir hefðbundin leitar- og björgunarstörf.
Hafdís í heimahöfn á Fáskrúðsfirði.
Uppstilling í stýrishúsi fyrir sjúkraflutning.