Morgunblaðið - 12.04.2016, Side 4
4 | MORGUNBLAÐIÐ
Þeir sem gætu hugsað sér að kaupa bandarískan fornbíl eins og
Corvettuna hans Egils ættu að hafa hugfast að svona bílum getur
fylgt töluverð athygli á götum úti. Egill segir að viðbrögðin hafi
ekki látið á sér standa þegar feðgarnir fluttu Corvettuna frá
Reykjavík yfir í Hveragerði og áðu fyrir utan verslun Bónuss á leið-
inni. „Strax var fjöldi fólks farinn að safnast í kringum bílinn, og
eftir að við komum honum fyrir hér heima hefur ófáa gesti borið að
garði sem vilja fá að kíkja í bílskúrinn.“
Þeim sem ætla að skella sér á fornbíl ráðleggur Egill að kaupa
bíla sem búið er að koma í gott stand. „Það er vissara að kaupa
ekki of ódýran bíl og ætla að koma honum í lag hér heima, því það
getur orðið svo dýrt, nema ef menn geta gert sjálfir meira eða
minna allt sem þarf að gera. Það væri aldrei hægt að græða til
baka það sem seljandinn getur gert við bílinn úti fyrir miklu minni
pening.“
Segir Egill að best af öllu væri að geta skoðað bílinn með eigin
augun áður en gengið er frá kaupunum, en það kosti líka pening að
fljúga vestur um haf. „Getur þá reynst nóg að stóla í staðinn á ein-
kunnakerfi eBAy. Ef seljandinn hefur selt tugi og hundruð bíla og
ekki fengið annað en góðar umsagnir þá eru minni líkur á að maður
sé að kaupa köttinn í sekknum.“
E
f lesendur sjá fagurbláan
Chevrolet Corvette sport-
bíl á götunum, og mann á
bak við stýrið sem brosir
allan hringinn, þá er þar sennilega
á ferð Egill Viggósson eða sonur
hans Egill Örn.
Feðgarnir festu nýlega kaup á
þessum sérlega fagra fornbíl og
fluttu inn frá Bandaríkjunum. Egill
eldri segir að kaupin hafi borið
þannig til að hann var að skoða fal-
lega bíla á uppboðsvef eBay. „Ég á
það til að flækjast um þessa síðu
enda með mikinn áhuga á forn-
bílum. Ég rek augun í þennan bíl
og álpast til að bjóða í hann, þótt
ég hafi hingað til verið meiri Ford-
maður. Einhver annar bauð betur í
bílinn og hélt ég að málinu væri
þar með lokið, nema hvað að
nokkrum dögum síðar berst skeyti
þar sem okkur var boðið annað
tækifæri til að eignast Corvettuna.
Hafði hæstbjóðandi greinilega
klikkað á einhverju og þá var leitað
til þess sem bauð næsthæst.“
Hefðu séð eftir að segja nei
Nú voru góð ráð dýr, enda hafði
það verið skyndiákvörðun að bjóða
í bílinn á sínum tíma og í húfi var
fjárhæð sem flesta munar um. Gaf
seljandinn feðgunum tvo daga til
umhugsunar. Egill eldri byrjaði á
að leita ráða hjá frænda sínum
vestanhafs. „Hann hafði samband
við vin sinn, sem er formaður Kor-
vettuklúbbs, og gáfu þeir sína
skoðun á hvort skynsamlegt væri
að borga umsamið verð fyrir bílinn.
Þeir gáfu grænt ljós, svo úr varð að
við feðgarnir gengum frá kaup-
unum og hugsuðum sem svo að ef
við myndum ekki stökkva á þetta
tækifæri myndum við sennilega sjá
eftir því alla ævi.“
Þann 26. desember fór greiðslan
af stað, og fékk seljandinn 11.000
dali fyrir bílinn, jafnvirði um 1,4
milljóna króna. Corvettan er af ár-
gerð 1974 og var upphaflega með
270 hestafla vél en er nú með ný-
lega 350 kúbíktommu vél sem skil-
ar um 350 hestöflum. „Vélin kemur
frá fyrirtækinu Jasper, sem sér-
hæfir sig í endursmíðum á vélum
fyrir flestar gerðir bíla. Allt annað
í bílnum er upprunalegt, eða þar
um bil. Bílstjórasætið er aðeins rif-
ið en að öðru leyti sér varla á bíln-
um og ekki vottur af ryði á hon-
um,“ útskýrir Egill og bætir við að
hann hafi fengið tryllitækið á góðu
verði. Egill hefur þá kenningu að
ládeyða komi í sölu á fornbílum um
og eftir jólin og því hafi fáir verið
til að ýta verðinu upp. „Það er ekki
óalgengt að svona bílar fari á vel
upp í 20.000 dollara,“ segir hann.
Flutningur og gjöld bætast við
Þegar hér var komið sögu var
ballið rétt að byrja. Nú þurfti að
koma bílnum til landsins alla leið
frá Bandaríkjunum. „Ég hafði sam-
band við Eimskip og fékk þar til-
boð í flutningana alla leið, þannig
að bíllinn yrði sóttur heim á hlað til
seljandans og afhentur við bryggju
hér á Íslandi. Þeir eru með aðila úti
sem annast svona flutninga og
kostaði á milli 400 og 500 þúsund
að koma bílnum í Sundahöfn,“ seg-
ir Egill. „En hér er ég að tala af
mér því að konan veit ekki alveg
allar tölur og heldur að þetta æv-
intýri hafi verið ódýrara en það var
í raun,“ bætir hann við glettinn.
Áður en Egill gat fengið bílinn í
hendurnar þurfti að borga viðeig-
andi gjöld og skatta. „Gagnvart
tryggingafélaginu eru bílar skil-
greindir sem fornbílar ef þeir eru
eldri en 25 ára, en í tollareglunum
eru fornbílar allir bílar eldri en 40
ára. Bíll sem væri fluttur inn í dag
myndi því þurfa að vera eldri en
árgerð ’76 til að sleppa við að bera
öll sömu innflutningsgjöld og nýr
bill.“
Vörugjöldin voru því 13% og
virðisaukaskattur um 25%, og
bættust ofan á bæði kaupverðið og
flutningskostnaðinn. Egill segir að
ekki hafi þurft nein vottorð eða
leyfi. „Það sama gildir hins vegar
ekki um nýja bíla, en ég hef stund-
að það að flytja inn nýja og nýlega
bíla endrum og sinnum. Þarf þá að
kaupa sérstakt vottorð sem er
pantað frá Þýskalandi, fyrir hvern
einasta bíl sem keyptur er og send-
ur til landsins. Breytir engu ef
fluttir eru inn nokkrir bílar af ná-
kvæmlega sömu tegund, að borga
þarf vottorðið fyrir hvern og einn
þeirra, sem er alveg út í hött.“
Gjaldeyrishöftin voru ekki að
flækjast fyrir. „Hver einstaklingur
má flytja inn bíl á hverju ári sem
kosta má upp að ákveðinni fjárhæð
án þess að sækja verði um sérstaka
undanþágu frá höftum,“ útskýrir
Egill.
Er óhætt að segja að Corvettan
hafi staðist væntingar feðganna.
„Menn verða auðvitað að skilja að
maður kaupir aldrei 40 ára gamlan
bíl án þess að geta reiknað með að
þurfa að lyfta skrúfjárni. Er eitt og
annað sem þarf að dytta að og
skipta um,“ segir Egill og kveðst
munu nota bílinn á tyllidögum.
Hann segir bæði gaman og þægi-
legt að aka bílnum, og þökk sé nýju
vélinni er Corvettan með krafta í
kögglum.
Býst Egill ekki við að þurfa að
eyða miklum peningum eða tíma í
viðhald og varahlutakaup enda
bandarískir bílar frá þessum tíma
þekktir fyrir að vera sterkbyggðir
og vel smíðaðir. „Bílarnir sem
bandarísku verksmiðjurnar fram-
leiddu fram að þessu þykja veru-
lega traust ökutæki en það er
kannski þegar tekið er að líða
lengra á 8. áratuginn og þann 9. að
bílar koma fram á sjónarsviðið sem
hafa verið bilanagjarnari og erf-
iðari.“
ai@mbl.is
Ökuþórinn Egill Viggósson
Hefði séð eftir því alla ævi
að kaupa ekki bílinn
Ljósmynd / Sigmundur Sigurgeirsson
„Bílarnir sem bandarísku verksmiðjurnar framleiddu fram að þessu þykja verulega traust ökutæki,“ segir Egill og bætir við að bílarnir frá 8. og 9. áratugnum hafi verið bilanagjarnari.
Undir húddinu er kröftug vél endurgerð af fyrirtækinu Jasper.
Ekki kaupa of ódýran bíl