Norðurslóð - 26.06.2002, Blaðsíða 4

Norðurslóð - 26.06.2002, Blaðsíða 4
4 - Norðurslóð Vallaklerkar og hugleið- ingar þeim tengdar Júlíus Kristjánsson skrifar - seinni hluti s Aöðrum tug tuttugustu aldarinnar gekk berkla- faraldur yfir Dalvíkina, þar sem mörg ungmenni fengu berkla og voru mörg þeirra send suður á Vífilsstaði. Sum komu aftur en önnur áttu ekki aftur- kvæmt. Tómas Baldvinsson veiktist ungur af berklum eins og flest hans systkini og móðir. Hann var sendur suður á Vífils- staði og þar dvaldi hann með hléum árum saman. Snemma bar á óvenjulegri söngrödd hjá hon- um; fögur tenórrödd og há. Þannig voru þeir einnig bræður hans, Pétur Friðrik, fæddur 1909, og Óli Sigurbjörn sem var fæddur 1915. Jafnframt söngnum hjá Pétri, sem hann iðkaði fram á gamals aldur, þá var hann leikari af guðsnáð. Hann lék á Dalvík og einnig mikið á Siglufirði, þar sem hann bjó mestan hluta ævi sinnar og andaðist þar. Óli bjó í Reykjavik um ára- raðir og andaðist þar. Hann var einnig hár og bjartur tenór og hef ég eftir Vilhelm Sveinbjörns- syni, sem bjó á Dalvík f næsta nágrenni við þá bræður, að dag- lega hittust þeir Óli og Vilhelm, tóku lagið, ýmist úti undir hús- vegg eða inni og sungu þekktar söngperlur, en Vilhelm var einn- ig kunnur fyrir fagra og háa rödd. Hann var einsöngvari með kórum hér á Dalvík. Ég hitti eitt sinn eldri konu, Sigurveigu að nafni, suður í Hafnarfirði á Hrafnistu árið 1995. Við tókum tal saman, og leiddi það í ljós að hún þekkti Dalvíking, sem hún hafði kynnst þegar bæði voru á ungum aldri. Hún sagði mér að 1991 hefði komið út hjá Forlaginu bókin, Minningar Sigurveigar Guð- mundsdóttur, kennara í Hafnar- firði, undir heitinu Þegar sálin fer á kreik skrifuð af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Þetta eru minningar konu sem ung fékk berkla og varð að fara á Vífils- staði oftar en einu sinni. Þetta er fróðleg og jafnframt sorgleg saga um þau mörgu ungmenni, sem smituðust af þessum hvíta- dauða, en sum sluppu undan honum en önnur urðu honum að lJ Tómas Baldvinsson. Hann lést um aldur fram úr berklum. bráð. Sigurveig segir vel frá og dregur lítið undan um sjúkling- ana á Vífilsstöðum á þessum ár- um. Mig langar að vitna í frá- sagnir Sigurveigar um þann tíma sem hún og Tómas Baldvinsson voru samsjúklingar. En þar segir Sigurveig frá komu sinni í annað skiptið á Vífilstaði: „Á einum stað segir Halldór Kiljan eitthvað á þessa leið að fyrsta ástin sé hin eina sanna ást og öll önnur ást endurspeglun af henni. Þetta eru sannmæli. Eitt sumarkvöld með aftan- roða, lognkyrrð á vatni og ástar- stjörnunni í austri læddumst við til sætis í dagstofunni til að hlusta á Gunnar Sigurgeirsson (frá Ak- ureyri, son Sigurgeirs söngkenn- ara) spila Tunglskinssónötuna. Við vorum mörg og því hrein til- viljun hvar við gátum sest í þétt- setinni stofunni. Við hlustuðum hljóð. En Tunglskinssónatan er nokkuð löng og þar kom að augun fóru að reika í ýmsar áttir. Mér var litið hugsunarlaust fram fyrir mig og mætti þá blá- um stórum augum í fölu andliti. Yfir enninu reis þykkur makki af ljósu hrokknu hári. Þetta var ungur piltur, rúmlega tvítugur. Hann hafði legið rúmfastur und- anfarið í langan tíma. Reyndar var það hann, sem söng svo vel, fyrsta kvöldið mitt á hælinu. Gunnar lauk leik sínum og leit í kringum sig. Ungi maður- inn með hrokkna hárið stóð upp hvatlega, gekk til Gunnars og sagði eitthvað við hann. Gunnar kinkaði kolli og ungi maðurinn byrjaði að syngja við undirleik Gunnars Sigurgeirssonar. Hann söng ýmis lög Sigvalda Kalda- lóns, sem þá voru ný af nálinni, og þau sönghæfu dægurlög sem Gunnar vildi spila. Og þegar Tómas Baldvinsson söng O Sole mio við danskan texta sem Gunnar hafði kennt honum var mér allri lokið. Að lifa annað eins og þennan dýrð- lega tenór syngja þvílíkt lag og horfa um leið á mig, var meira en svo að ég gæti setið ósnortin. Ekki þurfti meira með. Ég var orðin gagntekin af djúpri ást á Tómasi Baldvinssyni frá Dal- vík.“ Já, hún blómstraði ástin hjá þessum ungmennum, þótt fram- tíðin væri óráðin vegna nálægð- arinnar við dauðann. En grípum enn niður í frásögn Sigurveigar: „Ekki mun áhugiTómasar á mér hafa setið sérlega djúpt, enda var ég án efa ekki hans fyrsta ást. Hann hafði lengi verið á hælinu og hafði lífsreynslu í samræmi við það. Þar að auki var honum gefin mikil kvenhylli sem hann notaði sér óspart alla tíð. Kjör- orð Tómasar Baldvinssonar var: Alltaf má fá annað skip og ann- að föruneyti. Hann vissi að lífsl- ogi hans yrði senn að skari og dæi út þá minnst vonum varði. Hann vildi nota daginn og stundina, meðan fært var. Þessi lífsskoðun var algeng á hælinu, bæði hjá körlum og konum: „Ég ann þér gleði, uns dagurinn dvín og dauðinn sýkir mitt blóð“.“ Sigurveig Guðmundsdóttir sagði undirrituðum að auk söng- raddarinnar þá spilaði Tómas á þau hljóðfæri sem til voru á hæl- inu. Tómas var bláfátækur og þegar fram liðu stundir á hælinu átti hann varla fötin utan á sig. Því var það að margir hvöttu hann til að koma fram og syngja opinberlega í Reykjavík. Gunn- ar Sigurgeirsson frá Akureyri, sem áður var nefndur, spilaði Baldvin Sigurðsson og Guðrún Tómasdóttir ásamt einum sona sinna. ætíð undir söng hjá Tómasi, æfði með honum og sagði honum til. Gunnar varð síðar organisti í Háteigskirkju. Sigurveig segir orðrétt eftirfarandi: „Tómas var hvattur til að syngja opinberlega og söng hann nokkrum sinnum í Nýjabíói í Reykjavík og fékk lof- samlega dóma. Þessar söng- skemmtanir færðu honum það mesta fé í hendur sem hann eignaðist nokkurn tíma á sinni stuttu ævi.“ Að lokum segir Sigurveig: „Það leið fram á sumarið og nú var Kristneshælið í Eyjafirði fullbúið. Það þýddi að allir Norðlendingar sem þurftu á hæl- isvist að halda urðu að fara af Vífilsstöðum og norður í Krist- nes. Af þessu varð mikill harma- grátur, því að ekki spurði ástin frekar þá en endranær að skilum landsfjórðunganna. Tómas Baldvinsson frá Dalvík var auð- vitað í Norðlendingahópnum. Ekki virtist hann hlakka til norðurferðarinnar og löngum söng hann meðal okkar útí hrauni þýðingu Hannesar Haf- stein á ljóði Bellmans,Tæring, en þar birtist í hnotskurn lífsskoðun Tómasar. Flýt þér, drekk út! Sjá dauðinn búinn bíður, brandinn sinn hvessir, dokar þröskuld við. Hrœðstu samt ei. Hann aftur burtu líður, eftil vill gefur nokkurn stundar- grið. Tœringin fer loks með fjörið þitt veika. Flýt þér að leika ! Still þína strengi, kveð um vorsins klið. Það var eins og lífsfjör hans blossaði upp í skærum loga fyrir endalokin." Tómas Baldvinsson andaðist á Kristneshæli 31. ágúst árið 1928, aðeins 23 ára að aldri. Hann var jarðsettur í Akur- eyrarkirkjugarði. Júlíus Kristjánsson Minning Jóhannes Haraldsson Fæddur 14. ágúst 1916 - Dáinn 17. júní 2002 Fyrir hálfri öld var sá sem þessar línur ritar samtíða manni í Reykjavík, Gauta Hannessyni smið og kennara frá Hleiðar- garði í Eyjafirði. Hafði hann unnið við að smíða nýjar brýr á árnar í Svarfaðardal hjá Hreið- arsstöðum og í Hvarfinu. Þetta var sumarið 1934. Rifjaði Gauti upp minningar frá þessu sumri. Honum var hugstæður ungur Svarfdælingur sem vann við brú- arsmíðina, og nafngreindi hann. Hafði sá verið óvenju röskur, verklaginn og skemmtilegur fé- lagi. Þessi piltur var Jóhannes í Ytra-Garðshorni, þá innan við tvítugt. Þessi gagnorða mannlýs- ing aðkomumanns á unga mann- inum stóð heima í huga mínum og þar var ekkert ofsagt, því svona var Jóhannes. Hann var fæddur á Þorleifs- stöðum í Svarfaðardal 14. ágúst 1916. Fáum árum síðar flutti fjöl- skyldan niður í Ytra-Garðshorn og þar ólst Jóhannes upp til full- orðinsára. Foreldrar hans voru Haraldur bóndi og bátaformað- ur Stefánssonar af ætt Jónasar Hallgrímssonar og Jóhanns Sig- urjónssonar og kona hans Anna Jóhannesdóttir af hinni fjölhæfu Hreiðarstaðakotsætt. Jóhannes kvæntist Steinunni Pétursdóttur Gunnlaugssonar, bónda á Jarð- brú og konu hans Sigurjónu Jó- hannsdóttur. Börn þeirra eru, Halldór Kristinn háskólakenn- ari í Gautaborg, Pétur Arnvið starfsmaður við Alþýðuleikhús- ið í sömu borg, Sigurjóna leik- skólakennari á Akureyri og Anna sérkennari á Akureyri. Ungu hjónin bjuggu fyrstu hjú- skaparárin í Ytra-Garðshorni í tvíbýli við eldri hjónin, Harald og Onnu og stundaði Jóhannes vinnu utan heimilis meðfram. Vorið 1947 hófu Jóhannes og Steinunn búskap í Laugahlíð og bjuggu þar góðu búi í 11 ár. Vor- ið 1945 keypti Jóhannes Farm- All dráttarvél, hina fyrstu af sínu tagi í sveitinni og fylgdu nokkrir fordæminu er bændur kynntust kostum þessarar lipru dráttar- vélar. Eftir 11 ára búskap í Laugahlíð breyttu þau hjón ráði sínu, fluttust til Dalvíkur, reistu sér þar einbýlishús í Smáraveg- inum og ræktuðu þar upp falleg- an trjágarð á lóðinni. Jóhannes stundaði verslunarstörf á Dal- vík, lengst af hjá Útibúi Kaupfé- lags Eyfirðinga. Hann var líka umboðsmaður Samvinnutrygg- inga á Dalvík. Margir dalbúar söknuðu Laugahlíðarhjónanna úr sveit- inni, þó að þau flyttu ekki langt. Jóhannes var félagsmálamað- ur, vel máli farinn og tillögugóð- ur fundarmaður. Hann valdist því til forystu í félögum ýmsum í Svarfaðardal, sat meðal annars í hreppsnefnd og var fjallskila- stjóri Svarfdæla um skeið, for- maður U.M.F. Þorsteins Svörf- uðar var hann auk annars. Jóhannes var skemmtilega hagmæltur eins og þeir fleiri frændur af ætt Jónasar Hall- grímssonar. Söngmaður góður með háan og bjartan tenór. Söng hann í ýmsum sönghópum í Svarfaðardal, meðal annars í kirkjukórnum og karlakórnum Svörfuði en Jóhannes var einn af hvatamönnum þess að sá kór var stofnaður 1944. Hann starfaði að leiklistarmálum í dalnum, bæði sem leikari og leikstjóri og síðar starfaði hann með Leikfélagi Dalvíkur. Á Dalvík valdist hann fljótt til félags- og trúnaðarstarfa, sat í hreppsnefnd Dalvíkurhrepps, sat í skólanefnd, var einn af stofnendum Karlakórs Dalvíkur og Lyonsklúbbs Dalvíkur, svo eitthvað sé nefnt. Var virkur í Hinu Svarfdælska Söltunarfé- lagi, sem var siðprúður félags- skapur glaðlyndra söngmanna og hagyrðinga á síðustu áratug- um liðinnar aldar. Til er hljóm- diskur með um 20 lögum sem þessir félagar sungu á góðri stund í Laugarbrekku hjá Birni og Fjólu, eina fagra júlínótt 1996. Var Jóhannes þá áttræður orðinn og söng enn tenórinn fullum fetum. Þá hljómplötu tók upp Gísli Már Jóhannesson (Daníelssonar) og gaf út í Holly- wood vestra í nokkrum eintök- um. Þau Jóhannes og Steinunn voru samhent hjón. Unnu þau jafnan saman að hverju sem var, svo að sjaldgaft var. Þau voru gestrisin og góð heim að sækja. Minnumst við Þuríður enn frægrar rækjuveislu í fjölmenn- um fagnaði á Smáravegi 12. Jóhannes var einn af sjö syst- kinum. Þau hafa all tíð verið sem önnur systkini okkar Syðra Garðshornsbarna. Kveð ég svo þennan góða vin og votta fjölskyldu hans innilega samúð okkar Þuríðar. Minningin lifir og vermir. Júlíus J. Daníelsson

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.