Morgunblaðið - 20.05.2017, Side 32

Morgunblaðið - 20.05.2017, Side 32
Tækniorð? Vesturíslenskan varðveitti ýmislegt sem síðar var útrýmt. Eiginlegar mállýskur fyrirfinnast því miður ekki á Íslandi. Hvergi álandinu hefur þannig hagað til að þær næðu að mótast og þróast al-mennilega. Landfræðileg einangrun héraða um lengri tíma varaldrei næg til að svo mætti verða, enda talsvert ráp á mönnum, ekki síst vegna sjósóknar fjarri heimabyggð. Afskekktar byggðir voru aldrei nógu fjölmennar og stöndugar til að vera sjálfum sér nægar og óháðar utanaðkom- andi aðdráttum og áhrifum. Fólk hlaut að hittast og deila kjörum og vessum, blanda geði og tungutaki. Því miður, segi ég þegar ég hugsa til þess hvílíkur fengur það væri öllu orðs- ins fólki að geta velt sér upp úr fjölbreytilegum og merkilegum íslenskum mál- lýskum. Hvílík veisla væri ekki fyrir rithöfunda, sviðslistafólk og fræðimenn. Að ég nú ekki tali um uppistandara og eftirhermur. Allir þekkja þó ýmsan framburð- armun eftir landshlutum, norð- lenskt harðmæli og röddun, norð- lenska spurnartóninn, vestfirskuna, hv-framburð (eða öllu heldur hg- framburð) Rangæinga og fleiri Sunnlendinga, flámælið sem þróaðist á Austfjörðum en var snarlega kveðið í kútinn. Þannig mætti lengi telja. Eins hefur á öllum tímum þróast sérstakt orðafar á tilteknum stöðum. Vestmanneyingar tala um peyja og Ísfirðingar um púka og meina með því eitthvað allt annað en við hin. Ótal fleiri dæmi úr öðrum landshlutum kannast flestir við. Að auki mætti tilgreina fjölmörg staðbundin orðatiltæki og orðtök, þó nútímanum hætti til að gera einn hrærigraut úr öllu slíku. Allt er þetta merkilegt og gleðilegt en ekki nógu afgerandi til að hægt sé að tala um raunverulegar mállýskur eins og þær þekkjast td. annarsstaðar á Norðurlöndum, ekki síst í þeim mikla longintes Noregi þar sem heita má að ein eða fleiri kveði við í hverjum firði, sumar óskiljanlegar öðrum en innvígðum. Gleymum því samt ekki að til er ein raunveruleg íslensk mállýska, þó ekki sé hún töluð á Íslandi. Hér á ég að sjálfsögðu við vesturíslenskuna, mál sem enn hljómar amk. meðal elstu afkomenda þeirra Íslendinga sem settust að vestan- hafs á sínum tíma. Fyrrum fyrsta mál og móðurmál fjölmargra. Vesturíslenska er sem sé ekki brengluð og menguð og úrkynjuð íslenska heldur sjálfstæð mál- lýska sem þróaðist við sérstakar aðstæður í þjóðahafi þar sem enska varð æ meir alltumlykjandi. Vesturíslenskan varðveitti ýmislegt sem síðar var útrýmt úr íslensku íslenskunni, svo sem áðurnefnt flámæli og marga góða dönskuslett- una. Ný ensk tækniorð voru einnig eðlilega og sársaukalaust löguð að íslenskri málfræði, cars and trucks gátu að sjálfsögðu ekki orðið annað en kör og trakkir. Það fjarar undan vesturíslenskunni með hverri nýrri kynslóð og austur- íslenskan sjálf svamlar nú um í enskuhafi. En aðlögunarkröfurnar eru horfnar. Okkar take á málið er allt annað, hvort sem við erum húkt á enskuna eða fokkt vegna framrásar hennar. Mállýskur Tungutak Þórarinn Eldjárn thorarinn@eldjarn.net Kör og trakkir 32 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. MAÍ 2017 Það er orðið sérstakt umhugsunarefni hvað stjórn-málamenn tala mikið en segja lítið. Það er einsog markmið margra þeirra sé að tala svo loðiðum mál, sem eru á dagskrá þjóðfélagsumræðna að það verði eins erfitt og hugsast getur fyrir kjósendur að skilja hvað þeir eru að fara. Þetta á við um ráðherra og al- þingismenn en minni spámenn læra fljótt. Það er líka að verða einhvers konar stíll hjá þessum hópi fólks að slá fram alls kyns fullyrðingum sem ekki standast í von um að enginn taki sig til og fari ofan í saum- ana á því sem þeir eru að segja. Þó vill svo vel til að víða á Vesturlöndum er það að verða fastur þáttur í starfi fjölmiðla að kanna sannleiksgildi slíkra orða og vísbendingar um að hið sama sé að byrja hér. Eftir stendur spurningin af hverju? Af hverju vilja stjórnmálamenn, sem að eigin frumkvæði leita eftir um- boði fólks til að vinna að sameiginlegum málefnum á Al- þingi eða í sveitarstjórnum ekki tala skýrt við kjósendur sína? Af hverju kjósa þeir þann kost þegar þeir hafa fengið umboðið að læðast með veggjum og fara í einhvers konar feluleik með skoðanir sínar í að því er virðist mis- skilinni von um að ekki verði eftir þeim tekið? Að vísu má ekki gleyma því að til hefur orðið sérstök at- vinnugrein á nokkrum áratugum, sem snýst um að hjálpa frambjóðendum, stjórnmálamönnum, fyrirtækjum og öðr- um, sem þurfa að eiga regluleg samskipti við almenning í þeirri viðleitni. Í flestum tilvikum snúast þær leiðbeiningar um heil- brigða skynsemi en stundum tekur þessi starfsemi á sig aðra mynd. Hún getur snúizt um skipulega starfsemi til þess að hafa áhrif á stjórnvöld um framgang einhverra mála eða stöðvun einhverra mála og hún getur líka breytzt í viðleitni til að blekkja fólk. Það er ekki endilega jákvæð þróun, hvað stjórnmála- flokkar og stjórnmálamenn hér eru farnir að nota mikið slíka aðstoð. Í stað þess að málefnin ráði færist það í vöxt að reynt sé að hanna atburðarás til þess að ná fram tiltek- inni niðurstöðu. Hér skal ekkert fullyrt um það hvort slík leiðsögn kom við sögu, þegar skýrt var í vetur frá kaupum nokkurra er- lendra kröfuhafa í þrotabú gamla Kaupþings á hlutabréf- um í Arion banka en atburðarásin kom áhorfanda þannig fyrir sjónir að hún væri vel skipulögð. Fréttin um kaupin birtist og skömmu síðar fögnuður forsætisráðherra og fjármálaráðherra yfir þeim og því „trausti“ á íslenzku efnahagslífi, sem þau bæru vott um. Efni þessu máli skylt birtist í dagblaði daginn eftir sem nánast var óhugsandi að náðst hefði á þeim skamma tíma sem leið frá birtingu fréttar og til prentunartíma blaðsins nema með lengri undirbúningi. Hafi þetta verið vandlega undirbúið í því skyni að skapa strax jákvæð viðbrögð við þessum fréttum mistókst það að vísu. Daginn eftir fór að draga úr fögnuði fjármálaráð- herra og svo meir og meir vegna þess að augljóst var að í flokki hans voru þingmenn, sem kunnu ekki að meta þessi tíðindi. Það væri hægt að nefna fleiri dæmi frá þessum vetri um „fréttir“, sem vísbendingar eru um að séu afurð slíkrar hannaðrar atburðarásar. Kannski er eitthvað til í því þrátt fyrir allt hjá Donald Trump, að „fake news“ séu hér og þar á ferð. Vandamál þeirra sem slíka starfsemi stunda er hins vegar það að hinn almenni borgari er byrjaður að sjá í gegnum svona vinnubrögð og það þýðir að viðbrögð hans verða jafnvel enn neikvæðari en ella. En skörp sýn almennings kemur víðar við sögu en þeg- ar hannaðar „fréttir“ eru á ferð. Þegar stjórnmálamenn tala í gátum verða þeir að átta sig á að almennir borg- arar sjá með berum augum margt af því sem þeir tala um. Það er alveg sama hvað ráðherrar í rík- isstjórn Íslands tala oft um það að þeir séu að auka fram- lög til heilbrigðismála. Það fer ekki fram hjá aðstandend- um sjúklinga á Landspítala eða sjúklingunum sjálfum hvar skórinn kreppir. Og þá er sagt:Það er ekki hægt að gera allt í einu. Hvar á að skera niður? Og þetta er rétt spurning. En hvernig stendur á því að það sést aldrei viðleitni til þess að skera niður í opinbera kerfinu á móti? Talaði einhver um, þegar Kjararáð úrskurðaði um mikl- ar launahækkanir til ráðherra, þingmanna og æðstu emb- ættismanna á síðasta ári að það þyrfti þá að skera niður á móti? Eru það bara rök, þegar sjúklingar eiga í hlut? Það má að sjálfsögðu ekki tala um fækkun sendiráða, þótt öllum sé ljóst að í of mörgum þeirra er lítið um verk- efni, sem ekki er hægt að sinna með öðrum hætti. Það má að sjálfsögðu ekki tala um verulegan uppskurð í opinbera kerfinu, sem allir vita að er orðið illa starfhæft og stendur varla undir nafni. Sú var tíðin að það var hægt að stjórna fyrirtækjum á Íslandi með geðþóttaákvörðunum og skýringarlausum skipunum. En sú tíð er löngu liðin af þeirri einföldu ástæðu að starfsmennirnir eru orðnir svo vel upplýstir og vel menntaðir. Með sama hætti er íslenzka þjóðin orðin svo vel mennt- uð og vel upplýst að ráðherrar sem tala í gátum eða læðast með veggjum með það sem þeir eru að gera virka eina og risaeðlur úr fortíðinni. Það er ekki hægt að stjórna Íslandi á 21. öld með hug- arfari, sem mótast af þjóðfélagsviðhorfum frá því snemma á 20. öld. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í útvarps- viðtali fyrir skömmu að hann gerði sér grein fyrir að það væri „pirringur“ í samfélaginu. Ofangreind vinnubrögð eru ein af ástæðum þess „pirrings“. Hönnun „frétta“ er orðin of augljós. Að tala í gátum og læðast með veggjum Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Íumræðum sumarið 2009 um fyrstaIcesave-samninginn, sem lagt hefði þungar byrðar á þjóðina, héldu tveir fræðimenn, annar í Háskóla Ís- lands, hinn í Háskólanum í Reykja- vík, því fram, að Ísland myndi ein- angrast á alþjóðavettvangi eins og Norður-Kórea, yrði samningurinn ekki samþykktur. Það var því ómaksins vert að fara í öndverðum maí 2017 út á Kór- euskaga og kynna sér helstu ástæður þess, að Norður-Kórea er einangruð á alþjóðavettvangi. Ég skoðaði þá jarðgöng nálægt Seoul, sem uppgötv- ast höfðu 1974. Skreið ég drjúga leið inn í göngin og komst um skeið undir Norður-Kóreu. Að minnsta kosti fern slík göng inn í Suður-Kóreu hafa fundist, og átti að flytja um þau herlið og vopn til spellvirkja. Kommúnistastjórnin í Norður- Kóreu hóf Kóreustríðið 1950 með inn- rás í Suður-Kóreu og hefur aldrei sætt sig við vopnahléið þremur árum síðar. Hún hefur ekki látið sér nægja að grafa jarðgöng. Hún sendi sér- þjálfaða skæruliðasveit til Suður- Kóreu árið 1968, sem átti að ráðast inn í forsetahöllina í Seoul og myrða forsetann. Í árásinni féllu 16 Suður- Kóreumenn og 4 Bandaríkjamenn, en úr skæruliðasveitinni féllu 29 og 2 komust af. Árið 1969 rændi norður-kóreskur erindreki flugvél í innanlandsflugi í Suður-Kóreu og sneri norður. Sjö farþegar urðu þar eftir, hinum var sleppt. Árið 1983 skipulagði norður- kóreski herinn sprengjutilræði við þáverandi forseta Suður-Kóreu, er hann var staddur í opinberri heim- sókn í Rangoon í Búrma. Forsetinn slapp heill á húfi, en fjórir ráðherrar hans týndu lífi. Árið 1987 sprengdu norður-kóreskir flugumenn upp suð- ur-kóreska farþegavél á leið frá Abu Dhabi til Seoul. Farþegar og áhöfn, alls 115 manns, fórust öll. Fyrir skömmu lét einvaldur Norður-Kóreu síðan myrða bróður sinn í Kuala Lumpur. Í Icesave-deilunni neituðu Íslend- ingar aðeins að taka ábyrgð á skuld- um, sem þeir höfðu aldrei stofnað til og líklegt var, að greiddust að fullu úr þrotabúi Landsbankans. Fyrir það áttu þeir samkvæmt skoðun fræði- mannanna tveggja að einangrast al- þjóðlega í svipaða veru og Norður- Kórea, sem hóf mannskætt þriggja ára landvinningastríð, sýndi þjóð- arleiðtogum banatilræði, sprengdi upp eina farþegaflugvél og rændi ann- arri og gróf að minnsta kosti fern jarð- göng inn í annað land til spellvirkja. Íslenskir stjórnmálamenn geng- isfella krónuna, fræðimenn tunguna. Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar Hannes H. Gissurarson hannesgi@hi.is Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð Einangrað eins og Norður-Kórea?

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.