Skátablaðið Faxi - 01.04.1992, Blaðsíða 5
80 ára afmælissöngur skáta
Enn syngja skátar
Lag: Lóan er komin.
Enn koma skátarnir syngjandi saman,
söngvarnir óma og gleðin skín á brá.
Enn snarkar bálið, enn er fjör og gaman,
andinn hinn sami og fyrstu skátunum hjá.
Hugurinn reikar um fagra fjallasali,
fannhvítt er tjaldið og himininn er blár.
Það er sem lífið hér ótal tungum tali
um töfraheim skáta í áttatíu ár.
Vináttuböndin hjá varðeldi hnýttum,
vakir í glóðinni ævintýraþrá.
minningar kvikna er loganna lítum,
lífið er fagurt og dásamlegt að sjá.
Margþætt er starfið og mörgu þarf að sinna,
magnþrunginn kraftur og andinn brennur hreinn.
ísland það kallar: Hér er verk að vinna.
Viðbúnir skátar, til starfa hver og einn.
H.Z.
SKÁTABLAÐIÐ FAXI
5