Víkurfréttir - 12.11.2015, Qupperneq 9
9VÍKURFRÉTTIR • fimmtudagur 12. nóvember 2015
Suðurnesjamaður vikunnar
Borðar marsipanbrauð
og verður danskur
Suðurnesjamaður vikunnar er Tómas Knútsson hjá Bláa
hernum. Samtökin hafa á undanförnum árum hreinsað 1200 tonn
af rusli meðfram strandlengju landsins og vakið athygli á rusli í
sjónum. Tómas segir starf sitt með Bláa hernum vera ástríðu frekar
en áhugamál.
Fullt nafn:
Tómas Júlian Höiriis Knútsson
Aldur:
58 ára.
Fjölskylda:
Sambýliskonan Magga Hrönn,
tvær dætur, þrjár stjúpdætur og
sjö afabörn.
Áhugamál:
Ég á nokkra gamla bíla og dúlla
mér í kringum þá. Þó svo að ég
geri mikið af því að týna rusl þá
er það frekar ástríða en áhugamál.
Leyndur hæfileiki:
Ég hef sennilega ekki séð hann
enn.
Fyrsta bernskuminningin:
Það var þegar ég var fjögurra ára
í Hrauntúni og vinur pabba gaf
mér trébíl. Þessi minning er alveg
ljóslifandi.
Uppáhaldsnammi:
Ég er mikill nammigrís og Ant-
on Berg marsipanbrauð er í
sérstöku uppáhaldi enda er ég
hálfur Dani. Alltaf þegar ég kem
til Danmerkur fæ ég mér strax
danska pylsu, drykkinn Cocio
og svo Anton Berg marsipan-
brauð í eftirrétt. Þá er ég tilbúinn
í slaginn í Danmörku og eiginlega
orðinn alveg danskur.
Uppáhaldsbækur:
Gíslasaga Súrssonar og Íslands-
klukkan.
Gæludýr:
Hundarnir Kolla og Tinna sem
eru mæðgur.
Fallegasta náttúruperla
á Suðurnesjum:
Ósabotnar og Sandvík. Þangað
fer ég reglulega og tíni rusl því ég
vil hafa hreint og fínt þar.
Nánari upplýsingar inná
www.lk.is
„Þetta er eiginlega falinn fjár-
sjóður hérna hjá okkur,“ segir
Halldóra Blöndal, verkefnastjóri
um verslun Rauða krossins við
Smiðjuvelli í Reykjanesbæ. „Við
erum búin að stækka búðina mikið
að undanförnu enda nóg af fötum
til að selja því Suðurnesjamenn eru
mjög duglegir að koma með föt til
okkar. Við erum alltaf að bæta við
úrvalið hjá okkur.“
Fyrir utan Rauða krossinn við
Smiðjuvelli eru fatagámar og eru
þeir fljótir að fyllast. Í hverri viku
kemur um eitt tonn af fötum í
gámana. Hluti fatanna er seldur
í búðinni, hluti fer í fataúthlutun
hjá Rauða krossinum og annað er
sent í burtu og ýmist selt í versl-
unum Rauða krossins í Reykjavík
eða sent til útlanda. Fötin sem send
eru til útlanda fara ýmist til bág-
staddra eða eru seld til vefnaðar-
kaupmanna. Að sögn Halldóru er
öll vefnaðarvara sem gefin er til
Rauða krossins nýtt. „Það fer ekk-
ert til spillis. Við getum jafnvel nýtt
gamlar nærbuxur, sokka og rifin
lök,“ segir hún og hlær.
Fá oft ný tískuföt
Fólk gefur mikið af nýjum fötum
til Rauða krossins og segir Hall-
dóra hluta ástæðunnar vera þá að
Suðurnesjamenn séu duglegir að
fara til útlanda að versla. „Stundum
fáum við ný föt sem eru enn með
verðmiðanum á. Svo fáum við til
okkar óskilamuni af flugvellinum
og það eru uppáhalds dagarnir
mínir. Það eru þá flíkur sem hafa
verið þar í marga mánuði og eng-
inn hefur vitjað. Það eru alltaf mjög
fallegar flíkur, oft merkjavara og
fallegar slæður. Reyndar gerðist
það einu sinni að slæðu var vitjað
í óskilamunum eftir að hún kom
til okkar. Þetta hafði þá verið slæða
sem upphaflegi eigandinn hafði
keypt á 170.000 krónur. Hún var
því miður ekki hjá okkur. Kannski
vorum við búin að selja við hana á
500 krónur, það er erfitt að segja.“
Halldóra segir fólk stundum feimið
við að versla í Rauða kross búð í
fyrsta sinn. Það sé þó engin ástæða
til þess enda séu allir velkomnir.
„Innflytjendur hafa alltaf verið
duglegir að koma til okkar en núna
að undanförnu hafa fleiri Íslend-
ingar bæst í hópinn. Margar konur
segja okkur að þetta sér uppáhalds
búðin þeirra.“ Verðinu er stillt í
hóf og kosta flíkurnar á bilinu 100
til 2.000 krónur. Halldóra segir því
alveg kjörið fyrir fólk með kaupæði
að versla hjá Rauða kross búðinni.
Oft gerist það líka að fólk kaupi sér
föt í búðinni og skili svo þangað
aftur þegar það er hætt að nota þau.
Sækir fólk í fataúthlutun
Fataúthlutun er til fólks á miðviku-
dögum og fær fólk þá að velja sér
þau föt sem það vantar og er sú
deild á afmörkuðum stað í húsi
Rauða krossins, aðskilin frá búð-
inni. Þar fær fólk rúmföt, hand-
klæði, hlý útiföt, lesgleraugu og
annað sem því vanhagar um. „Fyrst
voru það aðallega útlendingar sem
komu í fataúthlutun til okkar en
núna koma Íslendingar líka. Við
viljum endilega hjálpa sem flestum.
Starfið hérna snýst um það. Ég er
búin að vinna hérna í eitt ár og
held að ég sé orðin svolítið næm
fyrir högum fólks. Stundum sé ég
fólk í búðinni og býð því að koma í
fataúthlutunina. Eftir því sem ég er
lengur hérna á ég auðveldara með
að finna fólkið sem þarf á hjálp að
halda. Fólk kemur ekki alltaf sjálf-
viljugt og biður um hjálp, heldur
þarf stundum að sækja það.“
Verslun Rauða krossins við Smiðju-
velli er opin á miðvikudögum og
fimmtudögum frá klukkan 13 til
17.
Nýta hvern þráð
-Suðurnesjamenn gefa eitt tonn af fötum á viku í gáma Rauða krossins.
Halldóra Blöndal, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum.
Gleðin er alltaf í fyrirrúmi hjá sjálfboðaliðum Rauða kross búðarinnar. Á myndinni frá vinstri eru Sigrún Ásgeirs-
dóttir, frá Íslandi, Rogelia Helena, frá Portúgal, Halldóra Blöndal frá Íslandi, Mrije Nlka-Rasha, frá Albaníu, María
Shishigina-Pálsson, frá Jakutia í Síberíu og Irina Nam frá Kirgizistan. VF-mynd/dagnyhulda.