Feykir


Feykir - 10.04.2014, Blaðsíða 7

Feykir - 10.04.2014, Blaðsíða 7
14/2014 Feykir 7 bústarfa sinntu þau hjónin veðurathugunum og vitavörslu. Æðarvarpið krafðist einnig mikils vinnuframlags en um það hirtu þau hjónin af stakri alúð með þeim góða árangri að það óx nær því allan þeirra búskap. Æðarvarpið ber vott um eljuverk og natni Hraunsfólks. Þegar Steinn faðir Valda keypti Hraun árið 1914 voru þar einungis þrjú æðarhreiður en þau eru nú talin um 3000. Valdi var fyrirhyggjusamur bóndi. Hann lagði ávallt mikla áherslu á að eiga það sem hann hafði undir höndum og vildi jafnan hafa borð fyrir báru. Hann lagði sig fram um það allan sinn búskap að nýta gæði jarðarinnar vel og miða lífsmáta sinn við þau gæði sem land og sjór gáfu honum. Þegar Valdi rifjaði upp langa búskaparsögu sína á efri árum sagðist hann hafa lifað þrenn verklagsskeið í sínum búskap. Fyrst var handverkfærum beitt, þá hestaverkfærum og svo gekk vélaöld í garð. Fannst honum með ólíkindum að slíkar breytingar gætu orðið á einni mannsævi. Vitnaði hann oft til þess að þegar ljósvitinn var byggður á Skagatá sumarið 1935 fluttu hann og annar unglingur steypumölina í vitann veturinn áður úr Hraunsvík og yfir ísi lagt Hópið. Hafði hvor þeirra hest og kerru. Var mölinni mokað upp í hestakerrur og ekið að vitastæðinu. Þegar kom fram á einmánuð og ís leysti af Hópinu varð að setja mölina í poka sem fluttir voru í hestakerrunni á vatnsbakkann þar sem þeir voru settir í bát og ferjaðir yfir vatnið. Sandur í steypuna var fluttur vestan úr Ósvíkum um vorið. Var hann settur í poka og fluttur á klakk að vitastæðinu. Þannig mættu forn vinnubrögð véla- og tæknivæðingunni sem birtist í byggingu vitans. Gerð og viðhald sjóvarnar- garða á Hrauni var einnig til marks um stórbreytingar á vinnubrögðum á æviskeiði Valda. Landbrot vegna sjávargangs hefur lengi gert vart við sig á Hrauni og reynt var að bregðast við því eins og fært þótti á hverjum tíma. Honum var einkar minnisstætt svokallað veturnóttabrim haustið 1934 sem rauf mörg skörð í sjóvarnargarðinn á Hrauni og þeytti yfir hann grjóti og þönglum sem skemmdu túnið. Við þessu brást Steinn faðir hans af fullri einurð og með sínu fólki fyllti hann í öll þau skörð sem komið höfðu á garðinn og fjarlægði allan hroðann af túninu. Við verkin voru notuð handverk- færi, hestur og kerra. Þegar Valdi lýsti þessum verkum hafði ég það á tilfinningunni að þessi verk, flutningurinn á byggingar-efninu í vitann og endurreisn sjóvarnargarðsins, Skúraskin að Hrauni á Skaga um 1955. Mynd: Pétur Hannesson. hefðu gengið hvað næst kröftum hans enda var hann þá ungur og óharðnaður. Síðast þegar Valdi lét vinna við sjóvarnargarða á Hrauni var notuð til þess stór beltagrafa og einnig hjólaskófla með margra tonna lyftigetu og var það vinnulag allt harla ólíkt því sem tíðkaðist á tímum veturnátta- brimsins. Las í sjávarhljóð og háttalag húsdýra og fugla Steinn Leo, elsti sonur þeirra Valda og Gillu, byggði strax sitt heimili á Hrauni þar sem hann vann foreldrum sínum meðan þess þurfti við auk þess að sinna eigin búrekstri og sjósókn uns hann tók við öllum búsfor- ráðum á Hrauni. Síðar reisti Jóhann sér einnig hús á Hrauni og aðstoðaði foreldra sína við þeirra störf. Árið 2010 voru þau Valdi og Gilla heiðruð af Bændasam- tökum Íslands fyrir góða búskaparhætti.Veðurathuganir voru snar þáttur í lífsstarfi Valda og var hann á þeim vettvangi meira en þjónn Veðurstofunnar því hann gerði sínar eigin veðurspár á bæjarhólnum eftir þeim skeytum sem náttúran sendi honum og las í sjávarhljóð og háttalag húsdýra og fugla enda veðurglöggur náttúru- unnandi. Mér er kunnugt um að sjómenn höfðu samband við Hraun til að fá upplýsingar um veður og jafnvel ráðleggingar sem munu hafa gefist vel. Valdi var hjálpfús og greiðvikinn og mér reyndist hann ávallt ráðhollur. Hann vann öll sín störf af trúmennsku og gefin loforð voru honum sem helgur dómur. Hann var óáleitinn en stefnufastur og hélt sínum skoðunum fast fram hver sem í hlut átti. Hann trúði á einstaklingsframtakið. Slíkur gæfumaður var Valdi að hann sá flesta sína drauma rætast í lífinu. Mér er minnisstætt hve glaður hann var þegar hann sagði frá því að aftur væri kominn Sæfari að Hrauni en þá höfðu synir hans, Steinn og Jóhann, fest kaup á báti sem fékk þetta heiti sem bátur föður hans hafði borið og nutu til þess dyggs stuðnings Valda. Valdi var fastheldinn á forna siði sem honum þótti hafa gefist vel en vildi líka tileinka sér nýjungar, ekki síst þær sem léttu hin daglegu störf. Gestrisni þeirra Hraunshjóna held ég að hafi jaðrað við að vera landskunn. Allir sem að garði bar voru drifnir í bæinn og húsfreyja bar fram veitingar af sinni alkunnu rausn. Við eldhúsborðið á Hrauni ríkti jafnræði og glaðværð sem allir tóku þátt í. Það kom af sjálfu sér að húsbóndinn var í öndvegi hvort sem umræðan snerist um gamanmál eða alvöru lífsins. Af því málþingi fóru margir fróðari og léttari í lund. Hjónaband þeirra Gillu og Valda var með afbrigðum farsælt og gott. Það einkenndist af trausti og gagnkvæmri virðingu enda hugðarefni þeirra flest lík og bæði bjuggu yfir einlægum vilja til að gera hag heimilisins sem mestan og bestan. Þegar æviárunum fjölg- aði varð aldursmunur þeirra hjóna sýnilegri en áður hafði verið og þegar ellihrumleiki sótti að Valda varð hann upp á aðstoð og forsjá konu sinnar kominn. Þar brást ekkert og var lærdómsríkt að sjá að eftir því sem líkamsþróttur Valda þvarr lagði Gilla sig meira fram um að uppfylla þarfir hans og svo vel tókst til fyrir eljusemi og fórnfýsi hennar að Valdi gat dvalið heima á Hrauni lengst af en það var hans heitasta ósk. Hinsta sjúkrahúslega hans á Sauðárkróki varði aðeins nokkra daga. Fjölskyldan á Hrauni er afar samhent og ég fullyrði að það var ríkur vilji hennar að hafa í heiðri flest grundvallarsjónarmið Valda. Mér fannst ég fá það staðfest þegar ég sá kistu hans á útfarardaginn en hún var gerð úr viði úr stóru rekatré sem borið hafði að landi á Hrauni. Þegar farið var að vinna tréð sáu kunnáttumenn að árhringar þess myndu vera ámóta margir og æviár Valda. Kistan hans var falleg listasmíð og þegar ég nú kveð þennan aldna vin og útvörð Skagans er margt sem á hugann leitar og hef ég leitast við að gera hér grein fyrir sumu af því. Ég á þeim hjónum þökk að gjalda fyrir góð samskipti og langt og farsælt nágrenni. Ég minnist vart Valda svo að ekki komi Gilla mér í hug svo samofin sem ævi þeirra var. Lokið er langri og farsælli ævi góðs drengs. Endurminn- ingunni um hann fylgir söknuður og hin fulla vissa um að það sem einu sinni var kemur aldrei aftur. Gilla og Valdi á góðri stundu í janúar 2012. Rjúkandi ráð Sæluvikustykki Leikfélags Sauðárkróks Leikfélag Sauðárkróks æfir nú gamanleikritið Rjúkandi ráð eftir Jónas Árnason og Stefán Jónsson með lögum eftir Jón Múla Árnason. Í þessum leik, sem stundum hefur verið kallaður smákrimmaóperetta, fáum við að kynnast Stefáni Þ. Jónssyni veitingamanni og lánveitanda, en hann rekur veitingahúsið Stebbakaffi. Stefán leggur á ýmis ráð til að græða peninga og verða áhorfendur vitni að fegurðar- samkeppni, bruna og tryggingarsvindli. Inní þetta flettast þekktir söngdansar Jóns Múla Árnasonar. Tólf leikarar bregða sér í gervi lögregluþjóna, smáglæpona og fegurðardísa, en alls koma um tuttugu manns að uppsetningunni. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson. Frumsýnt verður í Bifröst á Sauðárkóki á opnunardegi Sæluvikunnar þann 27. apríl næstkomandi. Sýningarplan er hægt að sjá á feykir.is og í dagskrá Sæluvikunnar. /KSE Leikhópur LS

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.