Feykir


Feykir - 08.05.2014, Blaðsíða 9

Feykir - 08.05.2014, Blaðsíða 9
17/2014 Feykir 9 Í hugum margra er vísnakeppni sú sem Safnahús Skagfirðinga hefur staðið fyrir í áraraðir, ómissandi þáttur í þeirri menningarviku sem nú er nýlokið og voru úrslit hennar kynnt við formlega setningu Sæluvikunnar í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Vísnakeppnin hefur átt sinn fasta sess og notið mikilla vinsælda allt frá árinu 1975 er hún var haldin í fyrsta sinn að frumkvæði Magnúsar Bjarna- sonar kennara og minningar- sjóðs hans og má vel ímynda sér að þeir hafi verið fleiri sem glímdu við vísnasmíði þá en nú á tímum óþrjótandi afþreyingar á öldum ljósvakans. Er þó engin vísindaleg könnun sem styður þá tilgátu undirritaðs. Rúnar Kristjánsson á Skaga- strönd var einn af þeim sem sendi inn botna og vísur í keppnina í ár og vildi minnast Magnúsar á sinn hátt. Fyrst skal lof hér látnum tjáð ljóðsins kjarnavini, manni er átti mennt og dáð, Magnúsi Bjarnasyni! Sem fyrr var það Sparisjóður Skagafjarðar sem gaf verð- launin, samtals 30.000 krónur sem deildust milli þeirra er besta botninn gerði og bestu vísuna að mati dómnefndar og vert að þakka stjórnendum sjóðsins fyrir það framlag. Dómnefnd sú er nú starfaði í fyrsta skiptið var skipuð undirrituðum: Páli Friðriks- syni, Guðbjörgu Bjarnadóttur og Ágústi Guðmundsyni. Rúmur tugur manna tók þátt í keppninni að þessu sinni og sendu inn ýmist einn botn eina vísu eða marga botna við sama fyrri partinn, nú eða nokkrar vísur sem að þessu sinni skyldu snúast um komandi sveitarstjórnarkosn- ingar. Fyrripartarnir voru fjórir talsins og komu úr smiðju Haraldar S. Haralds- sonar annars vegar og Hreins Guðvarðarsonar hins vegar og hljómuðu svo: Skagafjörður skartar dýrð og skaparans er prýði. Í leik og gleði lífið er léttast hverjum manni. Enn mig tæla öll þau game sem eru á Sæluviku. Lifnar þor og léttast spor er líður vor um bæinn. Krummi sendi inn góða botna en bak við það dulnefni reyndist vera Ingibjörg Jóhann- esdóttir frá Miðgrund. Skagafjörður skartar dýrð og skaparans er prýði. Á hann falli aldrei rýrð aldir þó að líði. Ingibjörg fagnar vorkomunni og botnar eftirfarandi: Lifnar þor og léttast spor er líður vor um bæinn. Blessað lítið blóm í skor, býður góðan daginn. Og Eyjólfur Sveinsson á Sauðárkróki botnar einnig á þessa leið: Skagafjörður skartar dýrð og skaparans er prýði. Ef annars staðar að þú býrð ég illa tel að þér nú líði. Dómarinn sendi inn nokkra botna og kannski er hér um einhverjar Sæluvikusyndir að ræða. Í leik og gleði lífið er léttast hverjum manni. Sínar leiðir syndin fer samt, þó kirkjan banni. Dómarinn reyndist vera hinn ljúfi hagyrðingur Hilmir Jóhannesson og svona botnaði hann annan fyrri part. Lifnar þor og léttast spor er líður vor um bæinn. Ekki er slor að eiga Þor- ólf, forsjárlaginn. Hvítur hrafn hafði ýmislegt til málanna að leggja botnaði sama fyrripart svo: Lifnar þor og léttast spor er líður vor um bæinn. Kýrin borin kind í skor kópur í slori við sæinn. Bak við dulnefnið leyndist Stefán Haraldsson frá Víðidal. Hafði hann svo þetta til kosningamálanna að leggja: Kosningin hún kostar glímu kvíða og sár hún ber. Sveitarstjórn í sæluvímu syndlaus fórnar sér. Eins og áður var sagt sendi Rúnar Kristjánsson á Skaga- strönd botna og vísur og kom kannski ekki á óvart að þar var enginn skortur á afbragðs botnum og er hér einn af þeim: Í leik og gleði lífið er léttast hverjum manni. Bros á vör í heimi hér heilsar best með sanni. Rúnar setti kosningarnar í bundið mál og virðist nokkuð sáttur: Lýðræðis er gatan góð greind með stefnu ljósa. Alltaf fái okkar þjóð um sín mál að kjósa! Ólafur Sindrason er ekki eins jákvæður og Rúnar út í pólitíkusana og segir: Fyrir loforð fátt ég gef - mig framboð reyna að ginna. Kosninganna klækjavef kunna þau að spinna. Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri minnist þess er hann kaus í fyrsta skiptið og virðist hafa verið efins um ágæti framboðsins er fékk hans atkvæði. Fyrsta krossinn man ég mest í myrkri stofu inni. Þá gaf ég aftur gálgafrest gömlu hreppsnefndinni. Hilmir Jóhannesson leitar í sveitina til að skýra sína sýn á pólitíkina. Gáfnaljósin gjamma þver, gamli Mósi er staður. Ég þá kjósa enn vil hér enda fjósamaður. Sæluvikan hefur stundum verið nefnd æluvikan vegna afleiðinga víndrykkju sem getur gengið úr hófi hjá gleðiþyrstum mönnum en Alfreð Guðmundsson sútar það ekkert þegar hann botnar svo: Enn mig tæla öll þau game sem eru á Sæluviku. Eigi skæli út af þeim þó ég æli á stiku. Ari setur saman prýðilegan botn um fjörðinn fagra: Skagafjörður skartar dýrð og skaparans er prýði. Kvölds í loga skrauti skýrð skín þá fegurð lýði. Ari átti náinn frænda sem einnig sendi inn botn undir dulnefninu Bubbi: Í leik og gleði lífið er léttast hverjum manni. Ljúfir vindar lyfta sér og lífga í hverjum ranni. Það var hann Reynir Hjörleifsson ættaður frá Kimbastöðum í Skagafirði sem átti þá Ara og Bubba og reyndar fleiri kappa. Einn þeirra var Finnur en hann vildi gefa frambjóðendum góð ráð. Þau geta nú reyndar dugað hverjum þeim sem lífsandann dregur nokkuð vel. Ritaðu öll þín ráð á blað og réttu þínum vinum. Oft mun réttast reynast það sem ráðlegt er af hinum. Það hefur aldrei talist auðvelt að gera upp á milli vel gerðra vísna og fékk dómnefndin að reyna það. Þær voru nokkrar sem komu til álita sem besta vísan og sama má segja um botnana sem voru nokkru fleiri en vísurnar. En dagskipunin var ljós, besta botninn skyldi velja sem og bestu vísuna og komst dómnefnd að eftirfarandi niðurstöðu: Besta botninn að þessu sinni á Benedikt Benediktsson bóndi á Vatnsskarði og mærir hann dýrð Skagafjarðar á eftirfarandi hátt: Skagafjörður skartar dýrð og skaparans er prýði. Eflaust verður aldrei skýrð öll sú listasmíði. Eins og að framan greinir virðist Gunnar Rögnvaldsson hafa verið efins í kjörklefanum í fyrsta skiptið er hann kaus en eitthvað hefur það lagast með tímanum, þó heitin séu sjaldan efnd. Því lýsir hann í vísunni sem dómnefndin taldi eiga skilið fyrsta sætið í keppninni þetta árið: Fagurt galar flokkurinn fáir efna heitin. Í klefanum fer krossinn minn á kunnuglega reitinn. Dómnefnd óskar vinnings- höfum til hamingju með árangurinn og þakkar jafnframt þátttakendum fyrir framlag þeirra til keppninnar. Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga „Fagurt galar flokkurinn“ UMSJÓN Páll Friðriksson

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.