Feykir


Feykir - 02.10.2014, Qupperneq 7

Feykir - 02.10.2014, Qupperneq 7
37/2014 7 Húnavatnssýslu. Þar kynntist hún manni sínum, Jóni Þor- finnssyni. Hófu þau búskap í Bólstaðarhlíð í Austur-Húna- vatnssýslu. Síðar bjuggu þau í Þverárdal í tvö ár, Breiðabólsstað í eitt ár og Valabjörgum í sjö ár. Guðrún lýsir þessum stöðum sem harðbýliskotum þar sem fjölskyldan hafi þó átt til hnífs og skeiðar, en ekki meira en svo. Hugurinn leitaði alltaf út á Skaga, þar sem foreldrar Guð- rúnar voru ennþá. Þangað fluttust þau Jón og bjuggu á Mallandi í 18 ár. Það var á árunum á Skag- anum sem Guðrún hélt áfram að skrifa Dalalíf, sem hún sjálf taldi sína bestu sögu, og sagðist hún hafa tekið sex til átta ár í það með öðrum verkum. Í áranna rás hafði hún komið sér upp ansi miklum bunka af skrifuðum blöðum en brenndi þau þegar hún fór að huga að búskap. Henni sagðist svo frá að alltaf hefðu orðið eftir einhver slitur af Dalalífi, þó að annað félli í gleymskunnar dá. Seinustu búskaparárin fór hún að taka klukkutíma á dag til að færa þessi gömlu slitur yfir á ný blöð og hirða úr þeim það sem henni þótti nýtilegt, þó henni dytti aldrei í hug að það kæmi fyrir almenningssjónir. Frá Mallandi fluttu Guðrún og Jón á Sauðárkrók árið 1940. Þar byggði Jón húsið Malland, sem stendur við Freyjugötu 5. Guðrún átti eitt ár í sextugt þegar sögur hennar fóru að koma fyrir augu lesenda. Fyrsta bókin, Æskuleikir og ástir, sem jafnframt er fyrsta bindi Dalalífs, kom út árið 1946. Skömmu áður hafði þó Nýtt kvennablað birt fyrsta hluta nýrrar framhalds- sögu eftir Guðrúnu, Afdalabarn. Talið er fullvíst að sú birting hafi ýtt við útgefandanum sem hafði haft handritið að Dalalífi hjá sér í nokkurn tíma án þess að gefa það út. Æskuleikir og ástir seldust vel og ekki stóð á útgef- andanum að gefa út bækur Guðrúnar eftir þetta. Dalalíf kom út í fimm bindum á árunum 1946-1951. Verkið er 2189 blaðsíður og með lengstu skáldsögum í evrópskri bók- menntasögu. Á þessum tíma taldi Sauð- árkrókur um 1000 íbúa, en margir þeirra vissu ekki að skáldkonan vinsæla hefði búið á staðnum í nokkur ár. Eftir að fyrsta bókin kom út var gefin út ein bók á ári allt þar til Guðrún var 86 ára gömul, að undanskildu árinu 1969. Bækurnar urðu því 27 talsins og hefur verið erfitt að nálgast þær um nokkurt skeið. Alla tíð hafa bækur Guðrúnar frá Lundi verið með þeim útlánahæstu á bókasöfnum landsins. Þau hjónin Guðrún og Jón eignuðust þrjú börn: Hilmar Angantý, Freystein Ástvald og Marín Baldvinu. Barnabörn þeirra urðu sex og eru fimm þeirra á lífi. Jón var alla tíð mikið frá heimilinu sökum starfa sinna við smíðar og má ætla að skrifin hafi stytt Guðrúnu stundir í einverunni með börnin. Jón lést árið 1960. Eftir það dvaldi Guðrún hjá börnum sínum og barnabörnum á veturna en kom alltaf heim á Krókinn á sumrin. Hún lést árið 1975, 88 ára að aldri. Þórir Sigurðsson, tengda- sonur Guðrúnar, orti þessi fallegu eftirmæli um tengda- móður sína, sem að sögn afkomenda lýsa persónuleika hennar einstaklega vel. Eftir- mælin hafa ekki áður birst opinberlega en birtast hér með góðfúslegu leyfi Hrafns, sem er dóttursonur Guðrúnar og sonur Þóris. Í Minjahúsinu á Sauðárkróki er horn tileinkað Guðrúnu. MYND: KSE Það fundu svo margir sem fylgdu um skeið og frá minni reynslu ég segi. Hún flýtti sér aldrei en fór alla leið og felldi engan úr vegi. Á náttmyrkum kvöldum er náðir sér tók þá nýtni frá öðrum ei þekki er lyfti hún að barmi sér lúinni bók en ljósið kveikti hún ekki. Það las hún að venju laus við allt hik sjá lögmálið varð ekki brotið. Þar logaði sérhver lína og strik í ljósi sem hún ein fékk notið. (Þórir Sigurðsson) „Við erum búin að prenta 6000 eintök í tveimur prentunum og þeim hefur eiginlega verið dreift - að minnsta kosti helmingur er þegar seldur til neytenda. Bókin er í öðru sæti á metsölulista Eymundsson eins og er.“ „Við vorum fyrst í efsta sæti í þrjár vikur en þá var fyrsta upplagið á þrotum og við lentum í fjórða sæti í eina viku vegna þess að bókin var víðast hvar uppseld. Þegar önnur prentun kom í sölu flugum við aftur upp í fyrsta sæti og höfum svo verið í öðru sæti síðan,“ sagði Bjarni Harðarson hjá bókaforlaginu Sæmundi, sem gefur Afdalabarn út í endurútgáfu, þegar Feykir hafði samband við hann á dögunum. En skyldi forlagið vera farið að huga að endurútgáfu fleiri bóka eftir Guðrúnu? „Við höfum haft svo annríkt við dreifingu að við erum ekki farnir að hugsa svo langt - útgáfurétturinn er vitaskuld hjá fjölskyldu Guðrúnar og við tökum engar ákvarðanir nema í samráði við hana,“ sagði Bjarni. Bókaforlagið Sæmundur endurútgefur Afdalabarn Á toppi metsölulistans Bylgja Angantýsdóttir á Móbergi í Langadal og Hrafn Þórisson á Skeggstöðum í Svartárdal eru barnabörn Guðrúnar og muna vel eftir henni. Bylgja segist einkum muna eftir ömmu sinni eftir að hún sjálf varð fullorðin. Hrafn er fæddur á Freyjugötu 5 og bjó þar til fjögurra ára aldurs og var mikið hjá ömmu sinni og afa á sumrin fram undir fermingu. Þá dvaldi Guðrún um skeið á heimilum þeirra beggja eftir að hún var orðin ekkja. Blaðamaður hitti þau yfir kaffisopa á Skeggstöðum og spurði þau um endurminningar sínar af ömmu sinni. „Amma var svo hjá mér í sveitinni þrjú haust og var svolítinn tíma. Hún skrifaði nú kannski ekki mikið þar en ég man sérstaklega þegar það var hringt frá bókaútgáfunni Leiftri og verið að reka á eftir henni með handrit. Hún var bara góð og indæl,“ segir Bylgja þegar blaðamaður biður hana að lýsa ömmu sinni. „Ósköp einfalt,“ skýtur Hrafn inn í, „besta kona sem ég hef kynnst.“ Bylgja segist vel muna eftir ömmu sinni við skriftir: „Það var oft þegar ég kom, ég var að vinna á Króknum þarna eitt sumarið og kom oft til hennar. Þá fann ég hana iðulega ekki því hún var inni í betri stofunni, niðursokkin við að skrifa. Það var stundum svo kalt þarna inni en ég held hún hafi ekki tekið eftir því. Ég er alveg viss um það að þegar amma var að skrifa og datt eitthvað í hug, þá tók hún ekkert eftir því sem var í kringum hana og hún hefur ekki borðað nema þegar henni datt það í hug.“ Bæði segjast frændsystkinin hafa lesið allar bækur ömmu sinnar. Aðspurð um uppáhaldspersónurnar segir Hrafn að sér hafi alltaf þótt mikið til Þóru í Hvammi koma. Bylgja segir hins vegar að sér hafi verið óskaplega í nöp við Jón á Nautaflötum. „Svo sagði amma einhvern tímann þegar hún var hjá mér: „Já, maður getur alltaf fyrirgefið honum aftur.“ Þau hlæja bæði þegar spurt er um fyrirmyndir að persónunum og Bylgja segir ömmu sína aldrei hafa neitað því að hún hefði fyrirmyndir að persónunum, þó hún hafi ekki játað því heldur. Þau rifja upp að mágkona Guðrúnar hafi einhverju sinni sagt við hana: „Það er ég alveg viss um að þú hefur haft mig sem fyrirmynd að henni Sigurfljóð á Hálsi.“ Frændsystkinin minnast þess að amma þeirra hafi tekið allan pappír til handagagns og notað til að skrifa. Við skriftirnar notaði hún pennastangir og blek. Hrafn minnist þess líka að amma sín hafi sótt í útskrifaðar stílabækur þeirra bræðra: „Við vorum látnir skrifa í aðra hvora Bylgja Angantýsdóttir og Hrafn Þórisson, barnabörn Guðrúnar: „Hún var lítið fyrir sviðsljósið“ línu í skólanum og þá gat hún notað hina línuna.“ Hann minnist líka frásagnar fyrrum nágrannakonu sinnar, sem bjó á Valadal þegar Guðrún bjó á Valabjörgum og hafði oft komið í heimsókn til hennar. „Þá sagði Dúa að hefðu verið bréfsnifsi um allt, útskrifuð. Og þetta var löngu áður en hún gaf nokkuð út.“ Bylgja og Hrafn þverneita bæði að þau fáist við skriftir. Þau taka það fram að afi þeirra, Jón Þorfinnsson hafi verið mjög hagmæltur og eftir hann liggi hundruðir vísna, þó ekkert af þeim hafi verið gefið út. Þá voru bræðurnir, Angantýr og Freysteinn hagmæltir en tvær bækur hafa komið út af Angantý. Frændsystkini eru sammála um að amma þeirra hafi verið mikill mannþekkjari og séð það kómíska í öllum hlutum. Þau telja að hana hefði aldrei órað fyrir vinsældunum sem bækur hennar áttu eftir að njóta. „Og ég myndi segja að henni hafi verið nokk sama,“ bætir Hrafni við. „Hún sagði alltaf að hún skrifaði þetta fyrir sjálfa sig.“ Og Bylgja bætir við: „En hún sagði líka, ég er ósköp ánægð ef einhver vill lesa þetta.“ Og þau telja bækurnar höfða vel til fólks enn í dag, enda sýni vinsældir endurútgáfunnar það. „Ég veit bara ekki hvað hún amma hefði gert ef hún hefði vitað af öllu þessu fjaðrafoki núna, hún hefði bara verið alveg í vandræðum,“ segir Bylgja. „Hún var lítið fyrir sviðsljósið,“ botnar Hrafn, og líklega lýsa þau ummæli barnabarnanna best þessum hæverska og afkastamikla metsölurithöfundi sem Guðrún var. Hrafn og Byglja við eldhúsborðið á Skeggstöðum. MYND: KSE

x

Feykir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.