Feykir


Feykir - 09.07.2015, Blaðsíða 5

Feykir - 09.07.2015, Blaðsíða 5
26/2015 5 Sóley Björk Guðmunds- dóttir er frumkvöðull smáforritsins og heima- VIÐTAL Þóra Kristín Þórarinsdóttir Tengir bæjarheiti eða örnefni í Skagafirði við þjóðsögur Lifandi landslag – hulduheimar er nýtt smáforrit síðunnar Lifandi landslag – hulduheimar sem slegið hefur rækilega í gegn. Hún var með kynningu á Lummudögum þar sem hún setti upp borð, bauð upp á jarðaber og dreifði miðum á bæði íslensku og ensku til þeirra sem áttu leið hjá og fræddi þar fólk um þessa spennandi afþreyingu. Sóley Björk Guðmundsdóttir er fædd og uppalin á Sauðárkróki, er ættuð af Skaganum og Húsavík en býr í Reykjavík um þessar mundir. Hún er frumkvöðull heimasíðunnar og smáforritsins Lifandi landslag – hulduheimar en almennt vinnur hún við Iceland Monitor, enska hluta mbl.is, þar sem hún sér um viðburðasíðuna. Foreldrar Sóleyjar eru Sig- ríður Sigurjónsdóttir og Guð- mundur Örn Ingólfsson, eða Sísí og Gúndi eins og þau eru betur þekkt. Þau bjuggu á Sauðárkróki á meðan Sóley ólst upp en fluttu svo til Danmerkur. „Pabbi er sonur Olla á Áka og Fjólu ljósu ef einhver er að velta fyrir sér ættfræðinni. Ég bý svo vel að því að eiga enn heimili á Króknum, í Dalatúninu hjá Jóhanni frænda og Hrönn. Hinu heimilinu á suðurlandinu deili ég með kærastanum mínum Loga Fannari Sveins- syni frá Víðimel.“ Sóley fór í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og eftir stúdent skellti hún sér í BA nám í Þjóðfræði. Þaðan fór hún í MA nám í Hagnýtri Menningarmiðlun, en Lifandi landslag er byggt á meistararitgerðinni hennar. „Þegar ég kláraði BA námið ákvað ég að taka mér örlítið námshlé. Ég ætlaði að mennta mig frekar, en vantaði innblástur og var óviss hvaða stefnu ég ætti að taka. Ég sótti um vinnu hjá ferðaskrifstofu og fór í viðtal. Þar fékk ég spurninguna: „Hvernig getur þjóðfræði nýst í ferðaþjónustu?“ Ég bablaði sjálfsagt eitthvað en ég velti þessu fyrir mér á leiðinni út. Hugmyndin tók svo á sig skýra mynd í bílnum á leiðinni heim. Ég ákvað að sleppa hléinu og drífa masterinn af, og þá lá einhvernvegin beinast við að svara þessari spurningu og láta reyna á að búa til smáforrit,“ segir Sóley aðspurð hvernig hugmyndin að smáforriti hefði kviknað. Mikil vinna á bakvið eitt svona forrit „Ástæðan fyrir því að þjóðsögur urðu fyrir valinu er ekki bara sú að mér finnst þær skemmtilegar, mig langaði að deila þeim með fleirum. Ég þekki marga sem eru ólíklegir til að leita sér afþreyingar í bókum. Hvað þá í 150 ára gömlum þjóðsagnasöfnum. Það er ekki að þeim þyki sögurnar leiðinlegar, því þjóðsögur rata víða í afþreyingarefni í nútímanum. Þar má nefna söguna um Mjallhvíti. Hún er upprunalega þjóðsaga sem Grimms bræður söfnuðu en hefur m.a. ratað í Disney teiknimynd og svo tvær stórar Hollywood myndir bara á síðustu þremur árum. Vandamálið er miðillinn. Það sem Lifandi landslag gerir er að koma þessum menningararfi í miðil sem er líklegastur til að ná til ungs fólks.“ Upphaflega hugmynd Sól- eyjar var að nota einungis þjóðsögurnar, en eftir heim- sókn á skrifstofu Sveitarfél- agsins ákvað hún að auka efni forritsins og fá með sér í lið menningarverkefnið Á Sturlungaslóð. „Fyrst ég var að búa til forritið á annað borð fannst mér um að gera að bæta við það efni til að gera það ýtarlegra og betra. Á Sturlungaslóð er líka skemmtilegt og vel unnið efni sem bætir miklu við forritið. Síðar ákvað ég svo að hafa þjónustu og hagnýtar upplýsingar með en það eykur enn frekar notkunargildi Lifandi landslags. Það var heldur ekki vit í öðru en að hafa forritið á ensku líka, til að vekja athygli erlendra ferðamanna á skagfirskum menningararfi.“ En á bakvið eitt svona forrit er gríðarlega mikil vinna. Sérstaklega hvað varðar þjóðsögurnar. „Hugmyndin er eitt, en framkvæmdin annað. Þegar ég byrjaði var nær engin þeirra til í öðru formi en í bók. Ég þurfti að finna þær í gömlum bókum, skanna þær inn, renna þeim í gegnum forrit sem greindi stafina, og lagfæra textann. Svo ég tali nú ekki um vinnuna við að hanna, sækja um styrki, uppsetningu og ég veit ekki hvað og hvað. En þetta er samt sem áður búið að vera ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt ferli.“ Sóleyju fannst ekkert vit í öðru en að byrja í heimabyggð, en einnig vildi hún skapa eitthvað sem nýtist Skagafirði vegna þess hversu mikið hann hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn. Það er mikið og gott starf í ferðaþjónustu í Skagafirði, en lengi má gott bæta. „Með Lifandi landslagi er ég að leggja mitt á vogaskálarnar til að vekja athygli á svæðinu, sem og til að skemmta heimamönnum. Lifandi landslag er alls ekki bara fyrir ferðamenn, það er skemmtileg afþreying og frábær leið til að kynnast Skagafirði enn betur. Efnið á íslensku er svo yfirgripsmikið að það er hægt að fara margar ferðir um fjörðinn án þess að þurfa að hlusta á og lesa sama efnið aftur. Skemmtilegasti hlutinn er líklega að nú get ég varla séð bæjarheiti eða örnefni í Skagafirði án þess að tengja það við þjóðsögu.“ „Þetta er framtíðin“ Forritið er frítt, enda er tilgang- urinn að ná til sem flestra. Sóley hannaði forritið á þá vegu að notandinn er staðsettur á korti af Skagafirði. Inn á kortið eru merktir allir sögustaðir þjóðsagna, Grettissögu og Sturl- ungu í firðinum ásamt helstu þjónustu- og afþreyingarstöðum. Notandinn ýtir á merkið og fær frekari upplýsingar, og sé þetta saga getur hann lesið söguna eða hlustað. „Allt efnið frá Grettissögu og Sturlungu hefur verið hljóðritað og tæplega helmingur sagnanna, eða yfir 40 sögur. Þó sögurnar séu ekki allar hljóðritaðar þá er þetta samt sem áður mikið efni og afþreying. Svo er stefnan að allar sögurnar verði hljóðritaðar og komnar í forritið fyrir næsta vor.“ Eins og áður kom fram var Sóley með kynningu á verkefni sínu á Lummudögum sem voru haldnir á Sauðárkróki 25.–28. júní sl. „Ég var með borð á Aðalgötunni með fullt af bæklingum. Til að heilla fólk til mín var ég með skál af jarðaberjum sem ég bauð fólki og á meðan það gæddi sér á berjum sagði ég þeim frá forritinu og heimasíðunni. Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð, og er hæstánægð með það.“ Aðspurð hvort hún muni búa til fleiri smáforrit í framtíðinni segir Sóley það alls ekki vera útilokað. „Þetta er framtíðin, við verðum að horfast í augu við það. Þetta er líklegasta leiðin til að miðla efni til fólks sem er um 35 ára og yngri. Þeim aldri tilheyra kynslóðir sem leita ekki langt eftir efni, heldur vilja fá það beint upp í hendurnar - í símana eða tölvurnar. Þetta á við flesta, en alls ekki alla. Við getum ekki búist við því að það breytist, eða látið það fara í taugarnar á okkur. Eina leiðin er að komast til móts við þennan hóp með góðu efni fyrir þann miðil sem virkar. Þarna er ég alls ekki að tala niður til neins, enda tilheyri ég þessari kynslóð sjálf.“ Til að ná til sem flestra má finna allt efnið inn á heimasíðunni lifandilandslag. is, en síðan virkar alveg eins og forritið. Næsta skref er svo að gefa út geisladisk með þjóðsögum, en það gerist einhvern tíma á næstu mánuðum. „Þetta er mikið og skemmtilegt efni, og því um að gera að það standi til boða í ýmsum útgáfum svo að sem flestir geti notið þess. Ég hvet alla til að sækja forritið eða kíkja inn á lifandilandslag.is, og kynnast öllum þeim sögum sem Skagafjörðurinn hefur að geyma,“ segir Sóley að lokum. MYND: ÓLÍNA BJÖRK HJARTARDÓTTIR

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.