Feykir


Feykir - 13.04.2016, Blaðsíða 5

Feykir - 13.04.2016, Blaðsíða 5
14/2016 5 Nokkrir þankar – að gefnu tilefni Vegna anna hef ég ekki gefið mér tíma fyrr til að rita á blað þær hugsanir er fóru í gegnum huga minn á Jóladagsmorgunn síðast- liðinn. Þegar ég var búinn að sópa alla garða, sáldra dálitlum fóðurbæti í þá og fylla þá svo af ilmandi nýræktarheyi, settist ég á eitt garðabandið, horfði á ærnar éta og lét hugann reika, og þá meðal annars til reikn- ings frá Húnavatnshreppi sem mér barst í pósti 10. desember með eindaga 22. desember fyrir álögð fjallskil. Mér fannst í meira lagi undarlegt að fá rukkun fyrir fjallskilum á meðan ekki er búið að klára að smala afréttinn, eins og sveitar- félaginu ber skylda til að gera samkvæmt fjallskilasamþykkt fyrir Austur-Húnavatnssýslu nr.299/3 mars 2009. Allavega það fé sem vitað var um eða búið var að sjá, meðal annars úr flugleit í haust. Hvað skyldu margar kindur hafa runnið á milli Haukagilsheiðar og Víðidalstunguheiðar á þeirri viku, rúmlega það, sem leið á milli þess að smöluð var Haukagilsheiði og þeir í V-Hún. smöluðu Víðidals- tunguheiði? Hvað skyldu þær vera margar sem runnu þar á milli og ekkert var aðhafst til að gá að, eða reyna að ná? Skyldu þær vera á lífi enn þessar sem runnu á milli eða eru þær allar dauðar, annaðhvort úr hungri eða hefur tófan séð um þær? Hvernig skyldi vera með þær kindur sem sáust úr flugleit fram í Fljótsdrögum í september og aldrei voru sóttar. Skyldu þær vera enn á lífi? Ef þær eru á lífi þá fá þær hvorki hey né annað fóður á þessum hátíðardegi heldur þurfa að krafsa í snjóinn og ná þar í eitt sinustrá sér til lífs- viðurværis. Auk þess að verjast ágangi tófunnar sem situr gjarnan um eftirlegukindur. Á sama tíma setjast fjall- skilanefndarmenn og sveitar- stjórnarmenn, sem bera ábyrgð á þessum málum, að dúkuðu jólaborði hlöðnu allskonar kræsingum. Ekki er ólíklegt að þar leynist svo sem eitt villikryddað lambalæri með hamborgarhryggnum og hangikjötinu. Þeir hafa engar áhyggjur af hvort kindur séu eftir fram á heiðum eða gangi úti í heimalöndum – já eða hvort þær á annað borð lifi af eða verði hungurdauðar. Mér finnst orka mjög tvímælis að hafa menn í stjórn hvort heldur það sé fjallskilastjórn eða sveitarstjórn sem sjá ekki sóma sinn í að láta ná í það fé sem vitað er um á afrétti eða í heimalöndum á haustin. Og að lokum, ef ég á að vera alveg hreinskilinn, fyrir hvað greiðum við fjallskil??? Lifið heil. Ritað í Sunnuhlíð, Árni Bragason AÐSENT ÁRNI BRAGASON SKRIFAR Myglusveppur greindist í gólfdúk Leikskólinn Ársalir Sauðárkróki Raki í húsnæði yngra stigs leikskólans Ársala á Sauðárkróki hafði valdið áhyggjum nokkurra foreldra sem óttuðust að þar kynni að vera myglusveppur. Þær áhyggjur reyndust á rökum reistar samkvæmt niður- stöðum rannsókna á sýni sem skoðað var af Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðingi Náttúrustofnunar Íslands, og gerðar voru kunnar á upplýs- ingafundi með foreldrum 5. apríl síðastliðinn. Haldnir hafa verið þrír fundir með foreldrum og hefur verið greint frá fyrri tveimur í Feyki. Fyrsti fundurinn var haldinn þann 25. febrúar og annar fundurinn fór fram 2. mars og þar gerði Sigurjón Þórðarson heilbrigðisfulltrúi grein fyrir niðurstöðum úr sýnatöku sem hann gerði með svokölluðum agarskálum með næringaræti sem hann kom fyrir á hverri deild á leikskólanum þann 26. febrúar. „Niðurstaða sýnatöku er jákvæð og bendir eindregið til þess að mygla í húsnæðinu sé ekki heilsufarlegt vandamál í leikskólanum,“ segir í skýrslu Heilbrigðiseftirlits NV, sem jafnframt var útbýtt á síðasta fundi. Sumir foreldrar voru ekki fyllilega sáttir við þessa niður- stöðu og vildu fá nánar úr því skorið hvort myglusveppur leynist undir gólfefnum deildar- innar Læk og vildu láta kalla til sérfræðing. Nafn Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræð- ings var nefnt í því samhengi og var tekið vel í það og tekið sýni í samráði við hana, sem henni barst 14. mars. Samkvæmt greinargerð Guð- ríðar Gyðu, sem útbýtt var á fundinum, greindist ein tegund myglusvepps í gólfdúk á deild- inni Læk að tegundinni Clado- sporium. Rannsakaðir voru þrír bútar af línóleum gólfdúki, tveir úr gólflista, sem límdur var neðst á vegginn en sá þriðji var úr gólfi í horni Læks. „Ekki mikið en hér og þar inni í þéttiefni og á nokkrum stöðum hafði dökkur sveppavöxtur troðið sér niður í dúkinn og var þar allhress að sjá þegar skornar voru þunnar sneiðar ofan í dúkinn þar sem hann var með eins og svartar æðar af sveppavexti og sneið- arnar skoðaðar í smásjá,“ segir í greinargerð. „Mest var af myglu í horni herbergis. Eini sveppurinn sem óx í sýninu úr Læk var Cladosporium tegund. Sveppa- vöxturinn var á yfirborði dúksins Yngra stig Leikskólans Ársala við Víðigrund. DeildinLækur er lengst til hægri á myndinni, Lón er í eldri hluta hússins vinstra megin. MYND: BÞ og í þéttiefninu og náði á nokkrum stöðum niður í dúkinn en ekki í gegnum hann. Neðra borð dúksins var því heilt og laust við myglu.“ Fram kemur að loftskipti hafi ekki verið nóg á þessari deild í vetur, raki úr lofti hafði þést og skapað aðstæður sem urðu til þess að gólfdúkur næst veggnum myglaði. „Sú lýsing passar við það sem sást í sýninu. Nú hafa loftskiptin verið bætt og mun verða fylgst með því að þetta gerist ekki aftur,“ segir Guðríður. „Það skal tekið fram að ef marka má sýnin þá er mjög lítið magn af Cladosporium tegundinni til staðar núna miðað við það sem var áður en myglan uppgötv- aðist,“ bætir hún við. Mygla var um allt neðra borð dúksins Á deildinni Lóni var gólf- dúkurinn verr farinn og undir honum greindust fleiri gerðir af myglusvepp. Rannsakaður var einn bútur af línóleum gólfdúki sem tekinn var úr gólfi við útvegg. „Gólfdúkurinn var illa farinn og þegar litið var neðan á hann sást að strigauppistaða dúksins var samanskroppin, svört á litinn og bæði mygluð og fúin. Dúkurinn sjálfur var orðinn harður og brotnaði því þegar hann var tekinn af gólfinu. Þegar línóleum dúkur myglar eru það oft tegundir af Asper- gillus ættkvíslinni sem vaxa neðan á slíkum dúk. Þær uxu á þessum dúki á deildinni Lóni ásamt fjölbreyttu vistkerfi ann- arra heldur skárri myglusveppa, bakteríum og smádýrum sem lifa á myglunni og skíta gróum sveppanna snyrtilega saman- þjöppuðum sem skítaspörðum. Mygla var um allt neðra borð dúksins, í líminu undir honum og að öllum líkindum í múrnum í gólfinu undir líminu.“ Sveppir sem fundust voru Scopulariopsis tegund, Euro- tium herbariorum, Aspergillus tegund (sem vel gæti verið lita- frugga, Aspergillus versicolor), Penicillium tegund, Acremon- ium tegund og Phialophora tegund. Einnig geislabakteríur. Smádýr sem lifa á myglu, mítlar og mordýr líklega og mikið af skít þeirra. „Það má reikna með að flestir sveppir sem vaxa innanhúss geti valdið ofnæmis- legum einkennum sem líkjast frjóofnæmi og einkennum sem líkjast astma. Algengir meðal- slæmir sveppir eins og tegundir Cladosporium ættkvíslarinnar og Scopulariopsis tegundir myndu falla undir þann hóp ásamt flestum Acremonium tegundum. Af þeim sveppum sem fundust var það Aspergillus tegundin sem gæti verið lita- frugga sem verður að teljast verst í sambúð innanhúss. Penicillium tegundin ætti að vera heldur skárri. Báðir þessir tegundahópar framleiða mikið af léttum gróum ætluðum til dreifingar með loftstraumum og geta framleitt varasöm efni þótt það fari eftir aðstæðum hvernig sú framleiðsla heppnast. Geislabakteríur líkjast sveppum að vissu leyti þar sem þær vaxa sem örmjóir þræðir en eru mun minni. Þær geta fram- leitt létt efni sem af er sterk fúkkalykt og eru óæskilegar innanhúss,“ segir loks í greinar- gerð. Ekki þörf á að loka leikskólanum á meðan framkvæmdir og hreinsun standa yfir Með greinagerðinni fylgdu leið- beiningar um hvernig best er að meðhöndla myglusveppina við hreinsun hans og að sögn fulltrúa sveitarfélagsins sem staddir voru á fundinum verður þeim leiðbeinginum fylgt til hins ýtrasta. Framkvæmdir eru þegar hafnar á Lóni þar sem verið er að fjarlægja gólfdúk og koma fyrir ofngrindum. Þá verður hita- þræði komið fyrir í gólfi og til að stemma stigu við kuldabrú sem þar er. Loks verður deildin máluð. Þegar framkvæmdum er lokið á Lóni verður farið í Læk og skipt um hluta af dúk, sam- kvæmt leiðbeiningum Guðríðar, settar ofngrindur svo hægt sé að kynda betur og auka loftun rýmisins. Þar verður jafnframt málað. Þá stendur að auki til að skoða veggi leikskólans að utan í sumar sem og skipta um þak- glugga í sal, þar sem mygla hefur myndast. Þá hefur starfsfólk verið frætt um myglusvepp svo hægt sé að vera vakandi fyrir honum. Einnig verður einnig farið yfir þrifamál. Fram kom á fundinum að samkvæmt niðurstöðum Guð- ríðar Gyðu þykir ekki ástæða til að loka leikskólanum á meðan á framkvæmdum stendur. Þar sem myglusveppurinn greindist að mestu undir gólfdúk, og að niðurstöður sýnatöku heilbrigð- isfulltrúa gáfu til kynna að myglusveppurinn væri ekki í andrúmsloftinu, bendir það til þess að mygla í húsnæðinu sé ekki heilsufarslegt vandamál í leikskólanum. Nánari upplýsingar um þær gerðir myglusveppa sem hér eru nefndar má lesa á feykir.is. /BÞ Heimildir: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2016). Rannsókn á myglusveppum í tveimur sýnum af gólfdúk úr húsnæði yngri deildar í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki. Akureyri: Náttúrustofnun Íslands. Sigurjón Þórðarson (2016). Athugun á myglu í leikskólanum Ársölum yngra stigi á Sauðárkróki. Sauðárkrókur: Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.