Feykir - 13.04.2016, Blaðsíða 6
6 14/2016
Vilja byggja 14 íbúðir
á barnaskólalóðinni
Húsnæðismál í Skagafirði
Eitt kauptilboð barst í gamla barnaskólann við
Freyjugötu á Sauðárkróki sem felst í að breyta
húsnæðinu í íbúðir. Tilboðið barst frá Friðriki
Jónssyni ehf. fyrir hönd óstofnaðs dótturfélags.
Farið var yfir tilboðið á fundi Byggðarráðs
Sveitarfélagsins Skagafjarðar 7. apríl sl.
Í fundargerð segir að tilboðsgjafi fyrirhugi að
breyta gamla barnaskólanum að meðtöldum
leikfimisal í tíu íbúðir. Jafnframt er áhugi á að byggja
við Freyjugötu fjórar íbúðir (tvö parhús). Samtals er
því fyrirhugað að byggja á lóðinni 14 íbúðir.
Byggðarráð fól sveitarstjóra að koma á fundi með
tilboðsgjafa.
Tók jákvætt í erindi um samstarf
Í sömu fundargerð kemur fram að ASÍ hafi tekið vel
í erindi sveitarfélagsins þar sem óskað hafði verið
eftir samstarfi um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði
fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga í
Skagafirði. Var það gert í ljósi nýlegrar vilja-
yfirlýsingar ASÍ og Reykjavíkurborgar um upp-
byggingu á íbúðarhúsnæði í borginni. Óskað var
eftir samstarfinu á sama grundvelli til að bæta úr
brýnum húsnæðisskorti í Svf. Skagafirði. Sveitar-
stjóra er falið að koma á fundi byggðarráðs með
forsvarsmönnum ASÍ og stéttarfélögunum í
Skagafirði. /BÞ
Heilir og sælir lesendur góðir.
Nú fyrir skömmu lést einn af mínum
góðu vinum, vísnaáhugamaður og góður
gleðimaður og hagyrðingur, Jón Karlsson
bóndi í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum.
Langar að byrja þáttinn að þessu sinni með
nokkrum vísum eftir hann. Um sumarmál
mun hann einhverju sinni hafa ort svo.
Veðrasömum vetri lauk
við það léttist sporið.
Heyrði ég í hrossagauk
hann var að dýrka vorið.
Um einn af reiðhestum sínum yrkir Jón svo.
Bleikan átti ég hófahund
hann var öðrum betri.
Mína oft hann létti lund
lífs á köldum vetri.
Trúlega hefur Jón verið í gangnaferð, kannski á
Hveravöllum, er hann orti þessa.
Við skulum syngja lítið lag
létt og kátt við spjöllum.
Nóg er að hugsa um næsta dag
nær hann rís á fjöllum.
Á efri árum mun Jón hafa komið hugsun sinni
svo vel fyrir í fjórum línum.
Skapið linast, fjörið fer,
fætur vilja drolla.
Fífill minnar ævi er
orðinn biðukolla.
Gaman að koma næst með góða vísu eftir
annan snilling, Guðmund G. Halldórsson á
Húsavík. Eins og margir lesendur sjálfsagt
vita er hann meðal annars höfundur að hinu
fallega ljóði Rósin. Einhverju sinni er hann átti
í einhverjum glettum við menn úr Skagafirði
var þessi vísa til.
Skiptir ei máli um Skagfirðing
skilgreining ætta hverra.
En þegar þú ávarpar Þingeying
þá áttu að segja herra.
Hress og glaður hefur nafni verið er hann orti
svo.
Ég hef notið krafta og kvenna hylli
og komið stundum upp á aðra flatt.
Ég hef oftast meter haft á milli
og meira stundum, það er alveg satt.
Þegar aldurinn færist yfir verða skýringar
Guðmundar á öllum aðstæðum auðskildar.
Hjartað gleður fremur fátt
fjörs er brostinn strengur.
Nú get ég ekki upp á gátt
opnað kjaftinn lengur.
Um tvo bændur í nágrannasveit verður þessi
til.
Að hafa orf og hrífustubb
ég held þeim ætti að nægja.
En mættu fá sér Farmal kubb
til að fara á milli bæja.
Vísnaþáttur 662
Það mun hafa verið skáldið Páll Ólafsson sem
lýsti svo samskiptum sínum við stúlku.
Ekki tala málið mælt
má við svanna ungan,
þá er eins og stálið stælt
strax í henni tungan.
Dauft hefur verið yfir skáldinu er hann orti
þessa.
Nú er ekki völ á vísu
vegna þess ég finn,
að kvæðadísin dregur ýsu
-djöfuls ómyndin.
Léttara hefur verið yfir Eiríki Einarssyni frá
Réttarholti er hann orti þessa.
Best er að drekka brennivín
í bæði mál,
og líta á allt sem leik og grín
af lífi og sál.
Sagan segir að oft hafi Villi frá Skálholti
kynnst því sem Eiríkur lýsir, þó ekki hafi alltaf
mál farið á besta veg. Hann yrkir.
Ég í gær hafði visku og völdin
nú vitlaus með gjörsmáðan prís.
Við göngum að gleðskap á kvöldin
en grátum er dagurinn rís.
Minnir að Örn Arnarson sé talinn höfundur
að þessari.
Lýðurinn virðir lögin skráð
ljóst þó dæmin gjöri,
að þangað sækir refur ráð
sem rænir lambið fjöri.
Nú þegar þessi þáttur er í smíðum virðist allt
að verða hringavitlaust í pólitík landsins, og
æðir hver upp í annan og heimtar kosningar.
Einhverju sinni er nálgaðist kosningadag til
alþingis mun Jóhannes Sigfússon, bóndi á
Gunnarsstöðum, hafa ort svo.
Samfylkingin sýnir best
sértu í raun að velja.
Að það er alltaf auglýst mest
sem ekki er gott að selja.
Kannski hefur það verið um sömu kosningar
sem Aðalsteinn á Víðivöllum í Fnjóskadal orti
svo.
Ríða röftum kostar klof
kröftum Össur safnar,
sínum manni syngja lof
samfylkingar hrafnar.
Eins og getið er um hér fyrr í þættinum er Jón
Karlsson bóndi og gangnastjóri á Kili til fjölda
ára, nú ný látinn. Langar að tileinka minningu
hans lokavísuna.
Vor þó kalli vinur minn
vegir halla núna
þegar fjallaforinginn
fer um gjallarbrúna.
Veriði þar með
sæl að sinni.
/ Guðmundur
Valtýsson
Eiríksstöðum,
541 Blönduósi
Sími 452 7154
( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is
Ég man eftir mínum fyrsta,
besta vin. Hann heitir Daníel
og hann bjó við hliðina á mér
í fimm ár. Við vorum saman
í leikskóla, saman í bekk
í grunnskóla, lékum okkur
saman nánast daglega, og
gerðum allt á milli himins og
jarðar.
Núna í dag, heilum 25 árum
seinna, er vináttan okkar alveg
jafn falleg, þótt við leikum
kannski ekki saman á hverjum
degi. Vinátta okkar Daníels
kenndi mér margt, því það
að eiga besta vin er trúlega
það sem hefur hvað mest
áhrif á félagslegan þroska hjá
börnum. Það er afar mikilvægt
upp á félagslegan þroska í
framtíðinni. Besti vinur hefur
einnig þau áhrif að hann
getur bætt sjálfstraust og
dregið úr kvíða- og þung-
lyndiseinkennum. Dýrmætir
vinir eru til staðar fyrir hvorn
annan, þeir eru tryggir og sýna
hvor öðrum umhyggju.
En hvað gerist ef að börn eiga
ekki vini? Rannsóknir hafa
sýnt að án vináttu eru börn
líklegri til þess að verða lögð í
einelti og í mikilli hættu á því
að þróa með sér sálfræðilega
og félagslega erfiðleika. Þessir
erfiðleikar fylgja börnum
yfirleitt í gegnum unglingsárin
og fullorðinsaldurinn og
verða þessi einstaklingar
oft einmanna þegar þau
verða eldri þar sem það vex
sjaldan af börnum að eiga
í félagslegum vandræðum.
Það er nefnilega alls ekki
meðfæddur hæfileiki að vera
góður í vináttu.
Góðu fréttirnar eru hins vegar
þær að hægt er að auka færni
þeirra með þjálfun, hægt er
að kenna þeim vináttufærni
og þjálfa þau í henni. Að leysa
ágreining er til dæmis hluti
af vináttu og þess vegna er
mikilvægt að börn læri það.
Félagsfærni er þó ekki það
eina sem að börnin þurfa að
læra heldur einnig þessar
frábæru óskrifuðu samskipta-
reglur sem margir læra mjög
auðveldlega, en ekki allir. Því
er mikilvægt að eyða tíma í að
kenna börnunum okkar þessar
óskrifuðu reglur, það mun
alveg taka tíma og getur verið
erfiðisverk, en það borgar sig
þó alltaf á endanum því í laun
fær maður hamingjusamara
barn.
Tökum vel eftir, hjálpum þeim
sem eiga erfitt með að eignast
vini og verum góð við hvert
annað.
- - - - -
Sandra Dís skorar á Söru Lind
Kristjánsdóttur að taka við
pennanum.
Sandra Dís Káradóttir frá Blönduósi skrifar
Að eiga vini
ÁSKORENDAPENNINN
UMSJÓN kristin@feykir.is