Feykir - 07.12.2016, Blaðsíða 7
46/2016 7
Erla María og Grétar á Olympiastadion í Berlín.
Erla María lítil stelpa á Skagaströnd.
„Annars langar mig að nefna
einn stað og það er Tempelhof
flugvöllurinn, gamli flugvöllur-
inn hérna í Berlín, sem að var
lokað og er núna nýttur sem
útivistarsvæði. Þetta er risastórt
svæði. Flugbrautirnar eru nýttar
sem göngu- og hjólabrautir og til
að renna sér á línuskautum og
hjólabrettum. Þarna er grillað og
það eru hjólaleigur og hjóla-
brettagarður. Þetta er frábært
svæði, fólk fer í piknick og
sólbað. Núna er búið að setja
upp flóttamannabúðir á svæðinu
sem er afgirt fyrir utan flug-
stöðina. Það hefur staðið til að
byggja þarna. Íbúalýðræðið
hérna er frekar sterkt, það hefur
verið kosið um þetta og íbúarnir
hafa þvertekið fyrir að gera þetta
að byggingarlandi. Mér finnst
það alveg frábært að þeir fái pínu
að ráða því.“
Frá Skagaströnd í
milljónaborg
„Það er himinn og haf þar á
milli,“ segir Erla María hlæjandi
þegar blaðamaður spyr hvort það
sé ekki mikill munur á því að búa
á Skagaströnd og í milljóna-
borginni Berlín, þar sem eru um
3,5 miljónir íbúa. „En hvort um
sig hefur sína kosti og sína galla.“
Erla María segir að Berlín sé
frekar ódýr borg, þar sé til dæmis
ódýrara að leigja húsnæði en í
Reykjavík og mun ódýrara að
borða, hvort sem farið er í mat-
vörubúð eða út að borða. „Ég
segi stundum við fólk, þegar ég er
að útskýra þetta, að mér finnist
dýrt þegar ég borga 10 evrur fyrir
aðalréttinn minn, sem eru 1200
krónur í dag. Þannig að ég fæ
alltaf svolítið sjokk þegar ég kem
til Reykjavíkur og fer út að borða
þar,“ segir hún.
Erla María stundar nám í
innanhúsarkitektúr við BAU
International háskólann. Hún
segist ánægð með skólann sinn.
„Ég er í glænýjum háskóla hérna,
sem er alþjóðlegur, þannig að
það er kennt á ensku. Skólinn er
upprunalega stofnaður í Tyrk-
landi, í Istanbúl. Núna eru þeir
að opna skóla víðs vegar um
heiminn og skólinn sem ég er í
hefur aðeins verið starfandi
hérna í Berlín í þrjú ár. Hann er
ennþá frekar lítill, og mjög kósý,
sem að hentar mér mjög vel,
komandi frá Íslandi. Þarna
þekkja allir alla, maður hefur
greiðan aðgang að prófessorun-
um og þetta er mjög heimilis-
legt sem mér finnst alveg
æðislegt.“
Aðspurð um hvernig gangi
að komast inn í tungumálið og
samfélagið segir Erla María að
það hafi verið farið að fyrnast
töluvert yfir menntaskólaþýsk-
una þegar hún kom til Berlínar,
en það hafi þó hjálpað að hafa
lært hana á sínum tíma. „Auð-
vitað er þetta þannig að ef maður
æfir sig að tala þá gengur þetta.
En fyrir mig, sem að var ekki í
vinnu og er í skóla þar sem kennt
er á ensku gengur þetta hægt. En
ég get alveg átt í einföldum
samræðum við fólk en ég er ekki
mikið að ræða pólitík og heims-
málin á þýsku,“ útskýrir hún.
Grétar er líka í námi sem kennt
er á ensku og er sameiginlegt
stærðfræðiprógram þriggja
stærstu háskólanna í Berlín.
Berlínurnar með
íslenska leiðsögn
um borgina
Í Berlín starfar fyrirtækið Berlín-
urnar, en það var stofnað af
tveimur íslenskum konum, þeim
Margréti Rós Harðardóttur og
Katrínu Árnadóttur, og býður
upp á leiðsögn um borgina á
íslensku. Boðið er upp á nokkrar
mismunandi ferðir; Brot af því
besta, Múrtúr, hjólaferð, menn-
ingarferðina Múltíkúltí, Sælkera-
ferð og Þriðja ríkis ferð. Einnig
hafa Berlínurnar farið sérsniðnar
ferðir að óskum hópa sem leita
til þeirra. Í dag starfa sjö
Íslendingar við leiðsögn á vegum
Berlínanna. „Flestir skilja ensku
og geta farið í ferðir sem eru með
leiðsögn á ensku. En upplifunin
verður öðruvísi þegar þetta er á
þínu eigin tungumáli,“ segir Erla
María. Ferðirnar eru vinsælar og
reynt að gera þær persónulegar
og hafa hópana hæfilega stóra.
Blaðamaður getur sannarlega
tekið undir þau meðmæli sem
ferðirnar fá, eftir að hafa farið
með leiðsögumannog séð Brot af
því besta í borginni.
„Heimurinn er lítill og Ísland
er lítið. Það kemur varla sá hópur
í ferð með okkur að maður geti
ekki tengt við einhvern í
honum,“ bætir Erla María við.
Hún segir líklega mest að gera
hjá Berlínunum á vorin og
haustin. Múrtúrinn hefur verið
mjög vinsæl ferð og einnig
hjólaferðin. Brot af því besta er
ný ferð, sem Erla María segir að
sé að sækja í sig veðrið. Það er
fremur stutt ferð en margt
skoðað á stuttum tíma. Hún
segir að minnismerkið um
helförina sé líklega það sem fólki
þykir áhrifamest af því sem
skoðað er í ferðunum. „Persónu-
lega finnst mér þetta ofsalega vel
gert og áhrifamikið verk,“ segir
hún. „Sagan hérna í Þýskalandi
er líka svo rosalega mikil og
nálægt okkur í tíma.“
Í frítímanum segir Erla María
að þau reyni að hitta vini sína,
sem flestir eru Íslendingar. „Það
gefst ekki alltaf mikill tími frá
náminu til að hitta vini, svo við
reynum að nota tímann þegar
tækifæri gefst. Svo förum við um
og njótum borgarinnar. Við
förum líka oft á markaði, en út
um alla borg er að finna spenn-
andi matar- og flóamarkaði.“
Tíðkast ekki að
hjóla með hjálm
Erla María segir að það sé mikið
frelsi að vera ekki á bíl og segist
hjóla töluvert á sumrin en annars
nota almenningssamgöngurnar.
„Ég var alveg skíthrædd við að
hjóla hérna fyrst, enda hjólaði ég
aldrei í Reykjavík, en svo þegar
ég fór að hjóla þá er það mjög
þægilegt, enda er Berlín nánast
flöt. Það eru reyndar fæstir með
hjálm, sem kom mér mikið á
óvart. Ég er næstum því litin
hornauga af því ég er alltaf með
hjálm þegar ég hjóla.“
Erla segir að það sé mikið af
Íslendingum í Berlín, hún hafi
heyrt að um 400 Íslendingar séu
skráðir íbúar í borginni en telur
að þeir séu jafnvel fleiri. Sam-
félagið er mjög fjölþjóðlegt og
mannlífsflóran fjölbreytt. „Borg-
in er ekki dæmigerð fyrir
Þýskaland í heild sinni. Hérna
úir og grúir af öllum þjóðernum.
Hér er mikið af innflytjendum
og hefur verið frá því að skipt var
var í Austur- og Vestur-Þýska-
land. Þá komu Tyrkir til Vestur-
Þýskalands og Víetnamar til
Austur-Þýskalands og það hefur
haldið sér.“
Þegar viðtalið er tekið eru
jólamarkaðir og jólastemning í
algleymingi í Berlín. Um áttatíu
jólamarkaðir eru staðsettir víðs-
vegar um borgina og þar er hægt
að ganga á milli verslana,
skreppa á skauta eða í tívolítæki
og fá sér svo heitt gluhwein og
bratwurst-pylsur. Erla María
segist þó verða að viðurkenna að
hún sé ekki mikið jólabarn.
„Mér finnst samt gaman að rölta
á einn og einn svona markað,
það er mikil stemning og mikið
af fólki, en ég er ekkert að missa
mig yfir þessu,“ segir hún. „Hins
vegar veit ég að það er fólk sem
kemur hingað gagngert til að
fara á þessa markaði.“
Að lokum segir Erla María að
þau Grétar gera ráð fyrir að vera
í Berlín þangað til að námi lýkur,
að minnsta kosta í þrjú ár í
viðbót. Framtíðin ráðist síðan
m.a. af því hvar Grétar kemst í
svokallaða post doc stöðu í
stærðfræðinni, en hann hyggst
stunda akademískar rannsóknir.
Það geti því orðið hvar sem er í
heiminum. „Ég væri alveg til í að
vera hérna áfram, en það verður
bara að koma í ljós,“ segir hún að
lokum.
Frá Tempelhof flugvellinum. MYNDIR: ÚR EINKASAFNI
Erla María í draumaborginni, Berlín.
Erla og Grétar við Brandenburger Tor.
/