Feykir


Feykir - 18.10.2012, Blaðsíða 5

Feykir - 18.10.2012, Blaðsíða 5
39/2012 Feykir 5 þetta eftir nokkurn tíma,“ segir María. Hún rifjar upp eina nóttina sem hún man vel. „Þegar við vorum á vakt máttum við ekki fara af deildinni niður í loftvarnarbyrgi. Ég man eina nótt þegar ég var á næturvakt á sjúkradeildinni þar sem allir voru rúmliggjandi. Þar voru óskaplega stórir gluggar sem náðu frá gólfi og upp í loft og fyrir þeim var vírnet. Ég sat hjá einni konu sem var mjög hrædd við sprengjurnar sem dundu fyrir utan og ég var að reyna að róa hana niður. Ég sagði við hana að við yrðum öruggar ef við settum dýnuna undir rúmið, sem við gerðum og ég sat hjá henni á gólfinu. Auðvitað var hún ekkert öruggari undir rúmi, þetta var bara það eina sem mér datt í hug til að róa hana,“ segir María brosandi og heldur áfram: „Daginn eftir kom í ljós að fyrir utan stóra gluggann okkar var risastór hola og ofan í henni var ósprungin sprengja. Ef hún hefði sprungið þá væri ég náttúrulega ekki hér í dag.“ Eftir að Þjóðverjarnir voru búnir að eyðileggja hernaðarmannvirkin við Clyde ána hættu þeir loftárásunum og beittu kröftum sínum að nýjum skotmörkum. María útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur í geðsjúk- dómum eftir þrjú ár í Glascow. Eftir það heillaði hana nám í almennri hjúkrun. Hún segir frá því þegar henni var boðið að drekka te með enskri hjúkrunarkonu sem hafði dvalið með breska hernum á Íslandi. „Hún var óskaplega hress kona og var mjög hrifin af Íslandi. Hún hafði lært almenna hjúkrun á Charing Cross spítalanum í London og mælti með því að ég færi þangað,“ segir María. Í kjölfarið sótti hún um en þar var mikil eftirspurn og því þurfti hún að bíða í eitt ár. Á meðan segist hún hafa safnað aur fyrir bókum og þess háttar, tekjur hennar höfðu hækkað eftir að hún útskrifaðist og gat hún því opnað sparnaðarreikning. Þegar kom að því að hún átti að mæta í viðtal á Charing Cross sjúkrahúsinu fór hún til Mrs. Brody til að biðja um frí, en ferðalagið myndi taka að minnsta kosti tvo daga. „Þá tók hún það ekki í mál. Henni þótti ekkert vit í því að fara í langt og kostnaðarsamt ferðalag alla leið til London og tilbaka. „Nei nei nei, ég hef bara samband við þá og gef þér meðmæli,“ sagði hún við mig,“ rifjar María upp og hlær. „Ég held ég hafi verið sú eina sem hóf þarna í nám án þess að fara í viðtal,“ bætir hún svo við. Martraðir eftir óhugnanlega reynslu María kom til London snemma í apríl 1944 og þá blasti mikil eyðilegging við henni. „Þetta var mjög kalt vor og ég man þegar ég kom þangað var allt svo nöturlegt. Það var óskaplega mikil eyðilegging. Svo kom vorið og þá blómstraði allt svo fallega að jafnvel rústirnar urðu fallegar,“ segir María brosandi. V-1 og V-2 eldflaugarnar sem voru sendar yfir Ermasundið voru daglegur viðburður í London en þeir sem voru staddir í miðborginni urðu sérstaklega fyrir barðinu á þeim. „Fólkið stóð alltaf í stanslausum viðgerðum. Eldflaugarnar voru hljóðlátar og við urðum að forða okkur þegar við sáum þær koma,“ segir María og heldur áfram: „Allar brýrnar við ána Thames voru sprengdar, sömuleiðis þinghúsið, byggingarnar umhverfis St. Paul kirkjuna og aðalpósthúsið í borginni en þar störfuðu um 500 manns,“ segir María og rifjar upp óhugnanlega lífsreynslu þegar um 200 slasaðir einstaklingar frá pósthúsinu voru fluttir á Charing Cross sjúkrahúsið þar sem hún starfaði. „Margir hverjir voru óskaplega illa slasaðir, þetta var hræðilegt. Ég man eftir einni konu sem ég sat hjá og það hafði verið sprengt af henni andlitið. Hún dó síðar blessunin,“ segir María en á þeim tíma segir hún enga áfallahjálp hafa verið í boði. „Það var rosalega mikið að gera hjá okkur og svo fékk maður martraðir næstu daga yfir þessu öllu.“ Aðfaranótt 8. maí 1945 var María á næturvakt á bráðamóttöku á Charing Cross spítalanum þegar tilkynning barst um stríðslok í útvarpinu. „Fólk varð brjálað. Ég var í mestu vandræðum með fimm sjúklinga með höfuðkúpubrot sem réðu sér ekki af gleði og fóru sér að voða. Við enduðum með að þurfa að sprauta þá niður,“ segir María hlægjandi. „En ég var óskaplega fegin – lofaði Guð hátt og í hljóði,“ segir hún. María segir engann vafa hafa verið í bresku þjóðinni um að þau myndu sigra stríðið. „Churchill var duglegur við að stappa í okkur stálinu og svo yfirgaf konungsfjölskyldan aldrei London, það sama skildi ganga yfir þau og okkur hin. Það var mikill stuðningur í því,“ útskýrir María. Kóngafólkið indælt blátt áfram fólk Eftir þrjú ár á Charing Cross spítalanum kláraði hún nám sitt í almennri hjúkrun árið 1947. Hún snéri þá aftur til Íslands í fyrsta sinn frá því fyrir stríð og dvaldi hér í fjóra mánuði. Þann 1. september 1947 hélt hún aftur út til London í framhaldsnám. „Ég hafði alltaf haft áhuga á taugasjúkdómum, allt frá því ég var á geðsjúkrahúsinu í Glasgow. Ég var ráðin sem nemi á taugaspítala, National Hospital for Nervous Diseases, sem var mjög þekktur spítali fyrir allt sem tengist taugakerfinu,“ útskýrir María. „Þangaði sóttu læknar og hjúkrunarfólk þekkingu hvaðanæva úr heiminum; Evrópu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Afríku og víðar. Þar á meðal tók Sverrir Bergmann taugasérfræðingur og fyrrverandi yfirlæknir á Landspítalanum sína sérgrein hjá okkur og Gunnar Guðmundsson prófessor á Landspítalanum var hjá okkur um tíma,“ segir María. Árið 1948 var Maríu boðið að gerast deildarstjóri á spítalanum. „Þeir kostuðu nám mitt í deildarstjórnun í King Edward College. Ég starfaði þar næstu 30 árin, til ársins 1981, þar til ég lét af störfum,“ segir hún. María segist hafa eignast marga góða vini og minnist fjölda góðra stunda á spítalanum. Til að mynda voru jólin alltaf tilhlökkunarefni hjá starfsfólki og sjúklingum spítalans en þá var jafnan mikið tilstand og læknarnir með leikþátt. Hún rifjar upp þegar hún hitti Elísabetu drottningamóður, sem var verndari spítalans, en hún var viðstödd þegar opna átti nýja rannsóknardeild. „Ég man að ég var að flytja parkinson sjúkling þegar við mættum henni og hún spjallaði við okkur, ég man hvað maðurinn var hissa og ánægður með þetta,“ rifjar María upp og hlær. „Svo var Karl Bretaprins hjá okkur einu sinni þegar hann var lítill. Hann hafði hlaupið á vegg og rotast og þurfti að vera hjá okkur í viku. Síðar kom Lord Spencer, pabbi Díönu, til okkar eitt sinn til að láta fjarlægja blóðæxli úr höfðinu. Hann náði aldrei fullu jafnvægi eftir það en stóð sig samt vel að leiða Díönu upp að altarinu,“ segir María og brosir. Hún bætir við að konungsfólkið virkaði indælt og blátt áfram fólk. María segir aldrei neitt annað komið til greina en að flytja aftur heim til Íslands. Hún kom hingað árið 1994 og segir að það hafi vissulega verið dálítið skrýtið að snúa aftur eftir svona langa fjarveru. Það helsta sem hún segist sakna er að geta ekki stokkið í leikhús eða óperuna og finnst það mætti vera aðeins meira menningarstarf á Blönduósi. Annars segist henni líka vel við sig við bakka Blöndu, þar sem sólin alltaf skín. /BÞ María ásamt sjúklingi og öðru starfsfólki taugaspítalans í London. Þau voru alltaf gleðileg jólin á taugaspítalanum en þá var jafnan mikið tilstand og læknarnir sýndu leikþætti. Starfsfólk á National Hospital for Nervous Diseases. María er í neðstu röð, önnur frá hægri.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.