Morgunblaðið - 25.01.2018, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 25.01.2018, Blaðsíða 9
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. JANÚAR 2018 9VIÐTAL „Það er mjög jákvætt fyrir fyrirtæki að fá verðlaun og hrós. Það er ekki nógu mikið um hrós í íslensku atvinnulífi. Við erum því mjög ánægð með að fá nú þetta hrós fyrir vel unnin störf,“ segir Eggert Þór Kristófersson, for- stjóri N1, í samtali við ViðskiptaMoggann, en fyrirtækið fær viðurkenningu Creditinfo í ár fyrir framúrskarandi samfélagslega ábyrgð. Þetta er í fyrsta skipti sem viðurkenningin er veitt, en Creditinfo og Festa, miðstöð um sam- félagsábyrgð, standa saman að viður- kenningunni. Dómnefnd, sem skipuð var þeim Hönnu Valdísi Þorsteinsdóttur sérfræðingi á sviði samfélagsábyrgðar, sem var formaður dóm- nefndar, Þorsteini Kára Jónssyni og Sæmundi Sæmundssyni úr stjórn Festu, horfði í vali sínu til stefnu fyrirtækisins um samfélagslega ábyrgð og hvaða þáttum stefnan tekur á, svo sem umhverfismálum, félagslegum þáttum og ábyrgum stjórnarháttum. Einnig skoðaði dómnefndin hvort fyrirtækin settu sér mæl- anleg markmið og frammistöðu þeirra við að ná þeim markmiðum. Ennfremur var litið til þess hvort samfélagsleg ábyrgð væri tengd inn í kjarnastarf fyrirtækisins og menningu og hvort fyrirtækið gæti talist fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki. Útnefningin kom á óvart Eggert telur að áhersla sem félagið hefur sett á samfélagið í gegnum tíðina sé það sem hafi skilað því þessari viðurkenningu. Hann segir að útnefningin hafi þó komið sér á óvart. „Forverar mínir í forstjórastólnum sinntu þessum málaflokki vel. N1 hefur alltaf stutt vel við samfélagsleg verkefni og hefur sýnt mikla ábyrgð víða um land. Við gerum mikið af því að styðja við nærsamfélagið á hverjum stað. Við erum hinsvegar ekkert sérstaklega dugleg að segja frá því sem við erum að gera,“ segir Eggert. Spurður að því hvernig starfið við mála- flokkinn fari fram innan félagsins, segir Egg- ert að ferlar skipti þar miklu máli. „Við erum með gæðastjóra sem heldur utan um verk- efnið og dregur að sér þá starfsmenn sem til þarf. Við höfum „ferlað“ félagið vel upp með tilliti til samfélagslegrar ábyrgðar. Við erum með vottanir frá Michelin á dekkjaverk- stæðum okkar og ISO-gæðavottanir á bensín- stöðvunum. Þessir ferlar voru teiknaðir upp fyrir nokkrum árum, og við fylgjum þeim vel eftir. Ennfremur birtum við árlega samhliða ársskýrslu okkar, svokallaða GRI (Global Re- porting Initiative) skýrslu. Hana má sjá á heimasíðu okkar. Þannig að það má segja að við séum með handrit þar sem hvert ár í rekstri fyrirtækisins er tekið fyrir í þessum efnum.“ Minnka sóun og flokka sorp Spurður um ný verkefni í málaflokknum, segir Eggert að undanfarin misseri hafi þem- að verið öryggis- og umhverfismál. „Við erum að minnka sóun, og varðandi sorphirðu til dæmis þá erum við að flokka allt sorp sem fell- ur til, bæði á skrifstofunni og eins á þjónustu- stöðvunum. Við höfum líka innleitt Lean- straumlínustjórnun sem snýst um að draga úr sóun alls staðar. Við munum auka fókusinn á þetta á næstu árum.“ Spurður sérstaklega um skoðun sína á því hvort atvinnulífið sé á réttri leið almennt í þessum efnum, segist Eggert telja að svo sé. „Mér fannst þetta fyrst snúast mikið um almannatengsl og ímyndaruppbyggingu, að menn væru mest að berja sér á brjóst bara til að auglýsa sig. Við ákváðum að gera það ekki heldur fara í þessa vinnu og láta hana seytla um félagið. Við höfum verið skömmuð fyrir það af okkar sérfræðingum í almannatengslum að við séum ekki nægjanlega dugleg að segja frá því sem erum að gera, en það sem við höfum gert er þó að skila okkur þessari viðurkenn- ingu Creditinfo,“ bendir Eggert réttilega á og brosir. Hann nefnir sem dæmi að N1 sé eina fyrir- tækið sem styrki mæðrastyrksnefnd Kópa- vogs, en hafi ekki sagt neitt frá því hingað til. „Þetta er kannski íslenskt vandamál, að vilja ekki vera of mikið að monta sig af hlutum, eða tala um allt sem gert er.“ Hann segir að samfélagslega ábyrg stjórnun skili sér í meira virði til allra hlutaðeigenda, hluthafa, starfsmanna og samfélagsins al- mennt. „Um leið og menn fóru að vinna skipu- lega í þessu, þá fóru þeir að sjá tilganginn með þessu.“ Komu með eigin ruslapoka Allir í fyrirtækinu eru með á nótunum þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð, að sögn Egg- erts. „Við fórum í stefnumótun árið 2013 og fengum þá tækifæri til að hitta starfsfólk á vinnufundum á öllum starfsstöðvum. Þá nýtt- um við tækifærið til að koma þessu að, og svo tókum við þetta aftur upp fyrir einu ári. Við höfum því nýtt okkur öll þau tækifæri sem gef- ast til að koma þessu að, sérstaklega þegar við höfum verið að vinna í svona stærri málum. Ég sé ekki annað en að fólk taki þessu mjög vel.“ Eggert nefnir eitt dæmi til gamans: „Fyrst þegar við fjarlægðum allar ruslafötur af skrif- stofum þá voru einhverjir sem komu með ruslapoka að heiman og fóru svo bara með rusl- ið heim til sín. En í dag finnurðu engan mann með ruslafötu hjá skrifborðinu sínu.“ Annað dæmi sem Eggert nefnir er Grill- skálinn á Þórshöfn á Langanesi sem brann í desember 2016. Ráðist var í endurbyggingu skálans, og verður hann tilbúinn með vorinu. „Við erum svo mikið út um landið með þjón- ustu, 110 stöðvar. Við erum mikið í grasrótinni og nærumhverfinu. Styrkjum BUGL (Barna- og unglingageðdeild) og golfklúbba um land allt til dæmis. Þegar skálinn brann á Þórshöfn kom í ljós að þetta var í raun félagsheimili bæj- arins, og menn voru ekki ánægðir með að við ætluðum ekki að endurbyggja skálann. En við skiptum um skoðun. Þó að það þjónaði kannski ekki tilgangi rekstrarlega, þá myndi það aftur á móti gera mikið fyrir þetta litla samfélag.“ Spurður um tilvonandi samruna N1 og Fest- ar, sem rekur 27 verslanir undir merkjum Krónunnar, ELKO, Nóatúns og Kjarvals, og hvort fyrirtækin séu samstiga í samfélagslegri ábyrgð, segir Eggert að félögin séu á sama stað hvað það varði. „Festi leggur mikla áherslu á að minnka sóun og er jafnvel dug- legra en við að segja frá sínum afrekum á þessu sviði. Hugsunarhátturinn er svipaður, þannig að ég held að þetta smellpassi.“ Vantar meira traust Eggert segir að áhyggjuefni sé, burtséð frá verðlaununum, hve atvinnulífið njóti lítils trausts hjá fólki. Honum finnst það skjóta skökku við, þegar flestir vinni jú í þessu sama atvinnulífi. „Það er það sem er oft erfitt við að vera starfsmaður N1, þegar fólk þarf að hlusta á ýmsar glósur um það hvað N1 sé að standa sig illa, en að nýir aðilar eins og Costco séu svo frábærir, til dæmis. Fólk er því miður oft of fljótt að dæma, og það mætti vera meira um- burðarlyndi. Ég heyrði af könnun í Danmörku um að 80% fólks bæri traust til vinnuveitenda sinna, en hér á Íslandi er sama tala 30%. Það er skrýtið að mæta í vinnu en bera ekki traust til sinna vinnuveitenda,“ segir Eggert að endingu. Það er ekki nógu mikið um hrós í íslensku atvinnulífi Morgunblaðið/Eggert Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Olíu- og smásölufyrirtækið N1 hlýtur viðurkenningu Creditinfo fyrir framúrskarandi samfélagslega ábyrgð. Forstjórinn segir að félagið sinni ýmsum verkefnum í nær- umhverfi sínu. ” Þegar skálinn brann á Þórshöfn kom í ljós að þetta var í raun félagsheimili bæjarins, og menn voru ekki ánægðir með að við ætluðum ekki að endurbyggja. Allir í fyrirtækinu eru með á nótunum þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð, að sögn Eggerts Þórs. „Við höfum nýtt okkur öll þau tækifæri sem gefast til að koma þessu að, sérstaklega þegar við höfum verið að vinna í svona stærri málum. Ég sé ekki annað en að fólk taki þessu mjög vel.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.