Morgunblaðið - 07.02.2018, Síða 19
19
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. FEBRÚAR 2018
Bankastræti Í rysjóttu veðri er lag að halda að sér höndum og íhuga stefnu sína. Neðst í Bankastræti kallast andstæður á – Stjórnarráð og Pönksafn – en nýbyggingar gnæfa neðan Lækjargötu.
Eggert
„Í flóknu þjóðfélagi
nútímans koma til
önnur öfl í sjálfu
stjórnkerfinu en Al-
þingi sem látlaust láta
meira að sér kveða.
Það er embættis- og
sérfræðingakerfið
m.a., sem ráðherrar
eru daglega hnýttir
við vegna starfa sinna.
Ég álít, að það sé
veruleg hætta á því að Alþingi tapi
löggjafarvaldinu yfir til ríkis-
stjórnar og embættis- og sérfræð-
ingavaldsins. Sumir vilja e.t.v.
segja að slíkt komi aldrei til því
auk löggjafarvaldsins ráði meiri
hluti Alþingis ríkisstjórn og því séu
völd þess og áhrif ævinlega tryggð,
hvernig sem að er farið. En málið
er ekki svona einfalt. Alþingi gæti í
reynd orðið lítið annað en kjör-
mannasamkoma til þess að velja
ríkisstjórn, og eins konar færiband
fyrir löggjöf sem nálega að öllu
leyti væri mótuð af ríkisstjórn og
þó að verulegu leyti embættis- og
sérfræðingakerfinu. Og það er ekk-
ert í sjálfri stjórnarskránni eða í
lögunum sem dugar til þess að
hindra að svo illa gæti farið.“
Þannig komst Eysteinn Jónsson,
þingmaður Framsóknarflokksins,
að orði í umræðum á Alþingi í
nóvember 1968. Eysteinn hafði
fyrr á árinu látið af embætti for-
manns Framsóknarflokksins. Orðin
lét hann falla í yfirgripsmikilli
ræðu um eigin tillögu til þings-
ályktunar um að
„þingforsetum ásamt
einum fulltrúa frá
hverjum þingflokki að
íhuga og endurskoða
starfshætti Alþingis“.
Eysteinn var sann-
færður um nauðsyn
þess að þing og þjóð
héldi vöku sinni svo
ekki færi illa. Alþingi
yrði að gera skyldu
sína og halda sínum
hlut. En þótt hann
hefði áhyggjur af
embættis- og sérfræðingavaldinu,
vildi Eysteinn ekki „forðast sér-
fræðinga eða minnka þeirra þjón-
ustu“. Eysteinn taldi hins vegar
nauðsynlegt að „styrkja Alþingi,
bæta starfsskilyrði Alþingis og al-
þingismanna, þannig að Alþingi
geti skipað þann sess í þjóðlífinu,
sem því ber, haldið sínu, svo að
jafnvægi ekki raskist og hægt sé
að notfæra sér á farsælan hátt
vinnu þýðingarmikilla sérfræðinga,
sem ómissandi eru hverju menn-
ingarríki“.
Tæp hálf öld er frá því að Ey-
steinn varaði við að Alþingi yrði
aðeins „færiband fyrir löggjöf“ sem
að verulegu leyti væri mótuð af
embættis- og sérfræðingakerfinu.
Því miður væri hægt að flytja svip-
aða ræðu í dag og taka dýpra í ár-
inni en Eysteinn gerði.
Reiknar sínar prósentur sjálfur
Auðvitað þurfa þingmenn ekki
síður en ráðherrar að leita til sér-
fræðinga – fræðimanna á ýmsum
sviðum. En þeir verða hins vegar
að vera þess umkomnir að „reikna“
sínar prósentur sjálfir, líkt og Lúð-
vík Jósepsson á árum áður. Þing-
menn, almenningur og þó ekki síð-
ur fjölmiðlungar, verða að geta
nýtt sér þekkingu og ráðleggingar
sérfræðinga og embættismanna en
hafa burði til að leggja sjálfstætt
mat á erfið viðfangsefni og þor til
að taka ákvarðanir.
Brynjar Níelsson, félagi minn,
gerði sérfræðinga að umtalsefni á
fésbókarsíðu sinni fyrir nokkrum
dögum og skrifaði meðal annars:
„Ég minnist margra góðra „sér-
fræðinga“ sem voru sérstaklega
áberandi í tíð Jóhönnustjórnar-
innar. Þeir sögðu ráðherrum í
þeirri stjórn að þjóðin yrði að
greiða Icesave-skuldina. Ekki bara
að það væri laga- og siðferðis-
skylda heldur yrðum við fátækasta
þjóð í heimi ef skuldin yrði ekki
greidd. Sömu „sérfræðingum“
fannst alger lögleysa að láta slita-
búin og vogunarsjóðina sæta ein-
hverjum takmörkunum og greiða
skatta. Svona mætti lengi telja.“
Um það verður vart deilt að það
var þjóðinni til gæfu að til voru
stjórnmálamenn sem höfðu þrek til
að andmæla sérfræðingum og
fræðimönnum. Yfirgnæfandi meiri-
hluti landsmanna var þeim sam-
mála og „reiknaði út sínar prósent-
ur“ þvert á ráðleggingar
sérfræðinga.
Langflestir þeirra sem fylla hóp
sérfræðinga og fræðimanna leggja
metnað sinn í að gefa góð ráð –
veita sína bestu ráðgjöf. En til að
þingmenn, ráðherrar og ekki síður
almenningur geti lagt mat á leið-
beiningar og ráð er nauðsynlegt að
upplýsingar um bakgrunn álits-
gjafanna – sérfræðinganna og
fræðimannanna – liggi fyrir.
Sjaldan eða aldrei er greint frá því
hvort og þá hvaða hagsmuna þeir
eiga að gæta. Þeir eru sjaldan
spurðir.
Völd og ábyrgð
Á síðustu áratugum hefur verið
komið á fót ýmsum úrskurðar-
nefndum, sem starfa undir ýmsum
nöfnum s.s. kærunefndir, málskots-
nefndir, áfrýjunarnefndir og mats-
nefndir. Í ritgerð Friðgeirs Björns-
sonar, fyrrverandi dómstjóra, og
forsætisráðuneytið gaf út árið
2005, kemur fram að „mjög hefur
færst í vöxt að löggjafinn komi á
fót úrskurðarnefndum í stjórnsýsl-
unni og úrskurðarvald á ákveðnum
sviðum hennar því ekki fengið ráð-
herrum eða úrskurðarvald sem
þeir áður höfðu frá þeim tekið“.
Árið 2004 voru nefndirnar 42 en
samkvæmt skriflegum svörum við
fyrirspurnum Atla Gíslasonar,
þingmanns VG, árið 2012 voru úr-
skurðarnefndir orðnar 46.
Hér skal ekki dregið í efa að
margar nefndanna þjóna góðum til-
gangi en svo virðist hins vegar sem
í raun hafi löggjafinn og ráðherrar
afsalað sér áhrifum og völdum án
þess að því fylgi ábyrgð.
Friðgeir bendir á að ráðherrar
beri ekki ábyrgð á úrskurðar-
nefndunum og starfi þeirra „enda
þótt þeir beri ábyrgð á stjórnar-
framkvæmdum öllum samkvæmt
14. gr. stjórnarskrárinnar“.
Nefndirnar „eigi að vera sjálf-
stæðar og óháðar og vandséð er að
ábyrgð á störfum þeirra beri nokk-
ur annar en nefndarmenn sjálfir“.
Friðgeir tekur ekki afstöðu til þess
hvort þróunin sé neikvæð eða já-
kvæð en segir það „eðlilegt og
nauðsynlegt að með henni sé fylgst
og henni stýrt eftir þeim pólitíska
vilja sem fyrir hendi er hverju
sinni“.
Umræða um kosti og galla þess
að „framselja“ vald til úrskurð-
arnefnda er ekki fyrirferðarmikil,
en mér er til efs að Eysteini Jóns-
syni hefði hugnast sú mikla fjölgun
sem orðið hefur. Og eitt er ljóst:
Eftir því sem valdsvið úrskurðar-
nefnda eykst og þeim fjölgar, því
fjarlægari verður sú hugmynd að
valdið sé sótt til almennings og að
kjörnir fulltrúar séu umboðsmenn
kjósenda. Gegn þessari hugmynd
standa því miður of margir sér-
fræðingar og fræðimenn. Jafnvel í
þingsal hefur sú hugsun náð að
festa rætur að best sé að láta sér-
fræðingana um þetta flest. Alþingi
afgreiðir síðan málin á færibandi.
Eftir Óla Björn
Kárason »Hálf öld er frá því að
Eysteinn varaði við
að Alþingi yrði aðeins
„færiband fyrir löggjöf“
sem væri mótuð af emb-
ættis- og sérfræð-
ingakerfinu.
Óli Björn Kárason
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðis-
flokksins.
Látum sérfræðingana bara um þetta!