Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.02.2018, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.02.2018, Blaðsíða 17
11.2. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17 Í Garðabæ hittir blaðamaður hjónin Guð-finnu Dóru Ólafsdóttur, fyrrverandi tón-menntakennara og kórstjóra, og Rúnar Einarsson rafvirkja, dóttur þeirra Hallveigu óperusöngkonu og svo dóttur Hallveigar, Ragnheiði Dóru Jónsdóttur mennta- skólanema. Fjölskyldan býður í kaffi og köku og svo hefst fjörugt spjall um orðfæri. Hverju munið þið eftir þegar þið hugsið út í vinsæl tískuorð þegar þið voruð yngri? Hallveig: „Mín kynslóð byrjaði með ógeðs- lega. Pabbi gerir enn grín að mér fyrir að nota það. Einnig þú veist. Glætan, spætan og feis var vinsælt.“ Rúnar: „Gæjar og pæjur eru orð sem komu inn þegar við vorum ung.“ Guðfinna: „Orð yfir stúlkur voru oft mjög ljót, það var talað um kvenmannsbelgi. “ Ragnheiður: „Mín kynslóð notar sum orð ekki í sömu merkingu og eldri kynslóðir. Það er til dæmis jákvætt að vera drusla í dag.“ Guðfinna: „Drusla getur aldrei orðið jákvætt. Drusla er tuska.“ Hallveig: „Foreldrar mínir voru ekki mjög ungir þegar þeir áttu mig, þannig að ég notaði oft dönsk orð frá þeim, sem enginn jafnaldri skildi. Um daginn bað ég manninn minn að setja bestik [hnífapör] á borðið. Hann vissi ekkert hvað ég var að tala um.“ Rúnar: „Einn félagi minn notaði alltaf orðið skaffigræjur yfir hnífapör.“ Guðfinna: „Tískuorð á okkur tíma voru ýmis dönsk orð eins og kújon, kjánaprik. En ég gleymi aldrei þegar ég var að kenna, og krakkar komu úr dönskuprófi og spurðu; Hvað þýðir eiginlega þetta fortó? Ég bara gapti, fyrir mér var fortó jafngilt og önnur ís- lensk orð.“ Rúnar: „Þegar ég var barn bjó ég á Hverfis- götu. Stundum þegar mamma var að bauka í kokkhúsinu við eldamaskínuna fór pabbi með okkur í spássitúr. Við fórum út um vaskahúsið og gengum framhjá offisera- kampi við Hlemm. Pabbi brýndi fyrir okkur að ganga á fortóinu. Á sláturtíð gengum við niður að sjó og í fjörunni reageraði Logi svíð- ingur, hann sveið hausa og lappir fyrir slát- urfélagið. Hann sat við fírverkeríið og hann gaf okkur sviðnar lappir í poka. Svo fórum við niður að höfn og komum heim með spyrðu. Það eru ýmis orð hér ég býst við að margt ungt fólk skilji ekki.“ Hallveig: „Örugglega komin 20 orð sem Ragn- heiður skilur ekki.“ Ragnheiður: „Ég er aðallega að pæla, hvað þýðir eiginlega fortó?!“ Guðfinna: „Gangstétt! Við töluðum líka um að tjútta.“ (Nú flissar Ragnheiður, tjútta!). En tískuorð þinnar kynslóðar, Ragnheiður? Ragnheiður: „Pepp notum við mikið í merk- ingunni að vera spenntur fyrir einhverju. „Ég er svo pepp“ þýðir „ég er svo spennt“. Hellað er annað, þýðir að eitthvað sé æðislegt. Við segjum að eitthvað sé geðveikt beisik og svo erum við að tjilla, hanga og hafa það notalegt.“ Hallveig: „Myndir þú skilja ef ég segðist vera með grænar bólur fyrir einhverju?“ Ragnheiður: „Já, en bara vegna þess að ég lærði það í íslenskutíma. Nota það alls ekki. Svo tölum við um eitthvað „á okkur“. Ef við ætlum sund þá segjum við „sund á okkur, sund á moi.“ Svo notum við ýmsar styttingar á samfélagsmiðlunum.“ Hallveig: „Sem er óþolandi. Eins og hikorðið „þú veist“, þau eru búin að breyta því í þúst sem er orð sem þýðir allt annað!“ Eru einhver orð sem þið amman og afinn hafið heyrt hjá dótturdóttur ykkar eða hennar kynslóð sem þið hafið orðið hugsi yfir? Rúnar: „Ég hef ýktan áhuga fyrir orðum yfir- leitt, geri mikið af limrum og það hefur í raun hjálpað manni að grípa það sem er verið að segja í kringum mann. Það er helst tölvumál þeirra sem maður skilur ekki.“ Ragnheiður: „Þegar við frændi minn vorum lítil ávörpuðum við afa mjög mikið með hey. Hey, afi. Afi svaraði alltaf: Ég á ekkert hey. Af hverju viljið þið hey! Eruð þið rollur?“ Guðfinna: „Við eigum tvo dóttursyni sem tala mikið saman á ensku. Það virðist algengt.“ Rúnar: „Maður gengur framhjá hópi af ung- lingum og það er alveg jafnvíst að það sé verið að tala ensku og íslensku.“ Ragnheiður: „Minn vinahópur notar ensk orð yfir margt, við tölum ekki um að gera eitthvað í okkar frítíma heldur í okkar freetime.“ Hallveig: „Hverfi hafa líka mikið að segja hvaða slangur er notað. Ein vinkona mín bjó í Fossvoginum. Unglingar þar notuðu mikið „iii fornöld“ yfir það sem var gamaldags. Þetta var aldrei notað í Garðabæ.“ Guðfinna: „Enda bara töluð hrein tunga í Garðabæ!“ En ef þið elsta kynslóðin hugsið út í orðfæri ykkar foreldra, hvaða orð eru það sem þau not- uðu sem tilheyra þeirra tíma? Guðfinna: „Þau tengjast gjarnan mat. Fricas- sée, það var soðið kjöt með grænmetissósu. Orðin sítron og sítronvatn voru notuð yfir alla gosdrykki, pepsi, appelsín og allt. Þegar fólk var að draga sig saman var talað um tildrag- else og skjóta sér hvert í öðru. Svo voru skemmtileg íslensk orð sem þau notuðu en hafa ekki lifað, eins og ráptuðra, taska af ríflegri gerðinni. Annað orð sem ég hef lítið heyrt nema frá mér eldri kynslóðum er bússur.“ Rúnar: „Það eru stór kuldastígvél. Og skóhlíf- arnar hétu gallósíur.“ Hallveig: „Það er líka eins og blankskór [glans- andi svartir herraskór] sem maður heyrir aldr- ei nefnda í dag.“ Rúnar: „Þéringarnar tilheyra líka þessum tíma. Móðir mín vildi að við þéruðum utan heimilis- ins. Þetta smábreyttist næstu árin en ég var þó kominn í Iðnskólann þegar þar var til dæmis kennari sem vildi láta þéra sig.“ Guðfinna: „Amma mín varð svo móðguð ef hún var þúuð á biðstöðinni í strætó eða búðum. Nokkra kennara þéraði maður alla tíð og einu sinni lenti ég í smávegis vandræðum. Gylfi Þ. Gíslason kenndi mér og ég þéraði hann alltaf. Svo mörgum árum síðar, þegar þéringar voru eiginlega aflagðar, þurfti ég af einhverri ástæðu að hringja í hann. Ég var alveg í vand- ræðum því ég hafði alltaf þérað hann og hann hafði aldrei boðið mér dús. Átti ég þá allt í einu að þúa hann 20 árum síðar og allir hættir að þéra? Ég hringdi í hann og ég vandaði mig að komast hjá því að þurfa að segja þú eða þér.“ Eru orð sem þið Hallveig og Ragnheiður mynduð ekki nota, ykkur finnst lummuleg, sem eldri kynslóð en þið notar? Hallveig: „Ég myndi til dæmis aldrei segja lummuleg, ég myndi segja hallærislegt.“ Rúnar: „En tíkó?“ Hallveig: „Nei.“ Rúnar: „Tíkó var mikið notið hjá okkur, yfir það sem þótti hallærislegt.“ Ragnheiður: „Mamma notar orðið grúví! Hvað er það? Sko árið 1970 var að hringja.“ Hallveig: „Guð, hvað þú ert grúví í dag.“ Ragnheiður: „Aaaaa, hættu mamma!“ Hallveig: „Svo þolir hún ekki heldur þegar við fullorðna fólkið notum orð sem hennar kynslóð notar, við höfum eiginlega ekki leyfi til þess.“ Ragnheiður: „Orð detta úr tísku þegar þið far- ið að nota þau. Eins og Facebook, við hættum öll á Facebook þegar þið eldra fólkið fóruð að hanga þar. Það segir t.d. enginn lengur fröllur [franskar kartöflur] nema foreldrar. Mér fynd- ist mjög skrýtið ef mamma segði fössari.“ Að lokum. Hverju haldið þið að þið slett- ið? Ragnheiður: „Næs, ókei, beisikli, kúl, oh my good og blótsyrðin, shit og fokk. Ég get ekki talið hversu oft ég segi fokk yfir dag- inn.“ (Ekki setja það í blaðið segir mamm- an). Guðfinna: „Sletti ég nokkuð? Ja, kannski gerir maður það að gamni sínu.“ Rúnar: „Maður leikur sér með málið en ég held ég geti sagt með góðri sam- visku að ég sletti ekki.“ Guðfinna: „Við Rúnar segjum ekki hæ og bæ eins og þær Hallveig og Ragnheiður Dóra. Við segjum komið þið sæl og bless.“ Hallveig: Jú, mamma, víst segirðu hæ!“ Guðfinna: „Nei, ég segi bara hæ, hæ og hó, hó stundum.“ Glætan, spætan, sítronvatn og tjill Á heimili Guðfinnu og Rúnars fara jafnan fram fjörug fjölskyldusamtöl, oft um íslenskt mál. Morgunblaðið/Árni Sæberg ’Mamma notar orðið grúví! Hvað erþað? Sko árið 1970 var að hringja. ’ Það er líka eins og blankskór, sem maður heyrir aldrei nefnda í dag.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.