Morgunblaðið - 06.04.2018, Síða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. APRÍL 2018
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
S
vik í viðskiptum með mat-
væli eru algengari en
margur heldur og virðast
vera vandamál í öllum
kimum matvælageirans.
Ragnhildur Friðriksdóttir er sér-
fræðingur hjá Matís og segir
matvælasvik geta verið bæði
margslungin og flókin og spanna
allt frá því að selja ódýrari teg-
undir matvæla sem dýrari yfir í að
bæta skaðlegum efnum í matvöru
til að drýgja hana eða fegra nær-
ingarmælingar.
„Það sem við vitum er að
matvælasvik hafa verið að færast í
vöxt og að oft er um að ræða
skipulagða glæpastarfsemi. Miklir
peningar eru í spilinu og hefur
verið áætlað að tekjur óprúttinna
aðila af matvælasvindli af ýmsum
toga nemi um 52 milljörðum
bandaríkjadala ár hvert á heims-
vísu. Til samanburðar má nefna að
allur heimsmarkaðurinn með ólög-
leg skotvopn er talinn velta 8,5
milljörðum dala og heróínfram-
leiðsla 30 milljörðum dala.“
Flestir þekkja frægustu dæmin
um matvælasvindl, eins og þegar
upp komst árið 2013 að hrossakjöt
hafði verið selt sem kjöt af öðrum
dýrum og notað í skyndirétti sem
seldir voru í evrópskum matvöru-
verslunum. „Fólkið sem stendur
að þessum glæpum svífst oft
einskis og er tilbúið að gera hvað
sem er, óháð áhrifum á heilsu
manna, eins og þegar efninu mel-
amíni – sem til dæmis er notað til
að búa til ákveðin plastefni og
steypu – var bætt út í þurrmjólk
fyrir börn í Kína til að láta prótín-
mælingar sýna hærra prótíngildi í
vörunum. Komst upp um svindlið
árið 2008 og talið að sex börn hafi
látist af þessum sökum og margir
tugir þúsunda barna þurftu að
leggjast inn á spítala.“
Fiskur í sjötta sætti
Neytendur þurfa að vera á varð-
bergi og meðvitaðir um algeng-
ustu tegundir matvælasvindls. „Ef
við skoðum topp-10-listann yfir
matvæli sem svindlað er með þá
má þar finna appelsínusafa sem er
til dæmis seldur sem nýkreistur
en hefur verið þynntur út með
vatni og bragðbættur með bragð-
efnum eða sykur- og litarefna-
blöndu sem seld er sem hunang.
Það er líka algengt að svindlað sé
með truffluolíu og hún þynnt út
með öðrum olíum og sömuleiðis er
vel þekkt að mun meiri ólífuolía er
seld á heimsvísu en væri nokkurn
tímann hægt að framleiða með öll-
um þeim ólífum sem ræktaðar
eru,“ segir Ragnhildur.
Svindl með fisk hafnar í 6. sæti
á listanum yfir algengasta mat-
vælasvindl. „Þetta er svindl af
ýmsu tagi, s.s. þegar ólöglega
veiddur afli er seldur sem löglega
veiddur fiskur eða eldisfiskur
seldur sem villtur fiskur. Svindlið
getur líka verið fólgið í því að log-
ið er til um hvaðan fiskurinn kem-
ur svo hann virðist hafa minna
sótspor og svo vitaskuld að ein
fisktegund er seld sem önnur,“ út-
skýrir Ragnhildur.
Til að gefa hugmynd um um-
fang matvælasvindls með sjávar-
afurðir nefnir Ragnhildur banda-
ríska rannsókn þar sem tekin voru
þúsund fisksýni á tæplega 700
sölustöðum í Bandaríkjunum.
„Reyndust 33% sýnanna rangt
merkt og voru sushi-staðirnir
langverstir. Sem dæmi um teg-
undasvindl sem kom í ljós var að
eldislax úr Atlantshafi var seldur
sem villtur Kyrrahafslax eða dýr-
ari tegundum túnfisks skipt út
fyrir ódýrari. Sams konar rann-
sókn var gerð í Brussel á dög-
unum þar sem tekin voru 280 sýni
hjá 150 veitingastöðum og voru
30% þeirra rangt merkt.“
Matís er þátttakandi í þremur
alþjóðlegum rannsóknarverkefnum
er snúa að matvælasvindli; Food-
Integrity, Authent-net og Auth-
enticate. Allt eru þetta stór verk-
efni með marga þátttakendur,
aðallega frá Evrópu, sem eru að
rannsaka matvælasvik. Þátttaka
Matís í þessum verkefnum hefur
sýnt að svindlið nær líka til Ís-
lands og segir Ragnhildur að af
þeim sýnum sem Matís hafi tekið
úr sjávarfangi á veitingastöðum í
tengslum við þessi verkefni hafi
23% verið í ólagi. „Við tókum sýni
á veitingastöðum og í ljós kom að
í sumum tilvikum var tegundin
sem pöntuð var ekki í samræmi
við væntingar, t.d. langa seld sem
þorskur eða steinbítur sem hlýri.“
Það flækir rannsóknir á mat-
vælasvindli með sjávarfang að erf-
itt getur verið að finna sökudólg-
inn. Ragnhildur bendir á að frá
því fiskurinn er dreginn um borð
og þangað til hann er kominn í
innkaupakörfu neytandans eða á
disk veitingahúsgestsins fari hann
stundum um margar hendur. „Var
það sá sem veiddi fiskinn sem
svindlaði eða fór svindlið fram á
fiskmarkaðnum? Var það kannski
í flutningum að merkingum var
breytt eða var það kokkurinn sem
ákvað að selja eina tegund af fiski
sem aðra? Svo er heldur ekki úti-
lokað að svindlið hafi ekki verið af
ásetningi heldur bara afleiðing
mannlegra mistaka.“
Neytendur veiti aðhald
Eftirlit með matvælasvindli með
sjávarfang er bæði flókið og dýrt.
Ragnhildur segir að takmarkað
eftirlit fyrirfinnist á Íslandi og í
raun sé stundum óljóst hver fer
með eftirlitshlutverk þegar kemur
að þessum málaflokki hérlendis.
Þó svo að Matís taki þátt í nokkr-
um alþjóðlegum verkefnum sem
beinast gegn svikum í viðskiptum
með sjávarfang sé Matís ekki eft-
irlitsaðili og ekki með neinar op-
inberar eftirlitsskyldur. Það sé
því að miklu leyti undir neyt-
endum komið að vera á verði og
veita seljendum aðhald, en Ragn-
hildur segir að kraftur neytenda
sé engu að síður mikill séu þeir
meðvitaðir um þessi mál.
„Það má fylgja fimm heilræðum
til að lágmarka líkurnar á að
verða fórnarlamb matarsvindls
þegar keyptur er fiskur eða annað
sjávarfang. Í fyrsta lagi er um að
gera að spyrja spurninga, s.s. um
tegund og uppruna fisksins sem á
að kaupa. Í öðru lagi ætti að at-
huga verðið og hafa á bak við eyr-
að að ef verðið er of gott til að
vera satt þá gæti matarsvindl ver-
ið ástæðan,“ segir Ragnhildur og
ráðleggur neytendum að hugsa
sig tvisvar um áður en þeir
stökkva á ódýrasta kostinn í fisk-
borði eða á veitingastað. „Í þriðja
lagi ætti fólk að velja seljanda
sem það treystir, hvort sem um er
að ræða veitingastað eða fisksal-
ann á horninu. Ef fólk beinir við-
skiptum sínum til fyrirtækja sem
sýna það í verki að þau eru
traustsins verð setur það meiri
þrýsting á hina.“
Fjórða heilræðið er að kaupa
fisk úr heimabyggð. „Því styttri
sem virðiskeðjan er, því ólíklegra
er að svindl hafi átt sér stað ein-
hvers staðar á leiðinni. Þar að
auki ætti sótsporið að vera minna
af fiski sem keyptur er nálægt
þeim stað þar sem hann kom í
land,“ segir Ragnhildur. „Fimmta
reglan er að kaupa vörur sem eru
sem minnst unnar. Það er auð-
veldara fyrir neytandann að koma
auga á svindlið ef hann kaupir
heilan fisk eða heilt flak frekar en
bita og hvað þá fiskifingur eða
-bollur.“
Svindl með fisk vandamál á
Íslandi eins og annars staðar
Í rannsókn á matvæla-
svindli hér á landi
reyndust 23% af fiski
sem pantaður var á veit-
ingastöðum ekki eins og
haldið var fram á mat-
seðlinum. Matvæla-
svindl með fisk á sér
stað um allan heim og
þurfa neytendur að vera
meðvitaðir um vandann.
AFP
Slóð Miklar fjárhæðir eru í húfi og flækir vandann að fiskur getur farið um margar hendur á leið sinni til neytandans, og erfitt að komast að því hvar svindlið átti sér
stað. Var það við löndun, í flutningi, á markaði, hjá fisksala eða í eldhúsi veitingastaðar? Frá fiskmarkaði í Grimsby. Myndin tengist efni greinarinnar ekki beint.
Morgunblaðið/Hari
Samvinna „Ef fólk beinir viðskiptum
sínum til fyrirtækja sem sýna það í verki
að þau eru traustsins verð setur það
meiri þrýsting á hina,“ segir Ragnhildur.