Skírnir - 01.04.2004, Blaðsíða 12
Frá ritstjórum
Orðræða er áberandi hugtak á okkar dögum. Skilgreiningar á því eru margar en
oft er það notað um merkingarbæran tjáningarhátt af einhverju tagi, hvort heldur
er í ræðu eða riti, mynd eða máli. Orðræða birtist þá jafnt í bókmenntum, fjölmiðl-
um, stjórnmálum, kvikmyndum, tísku og hvers kyns tjáningarleiðum sem maður-
inn nýtir sér. Birtingarmyndirnar geta verið leyndar og ljósar. 1 þessum víða skiln-
ingi tengist orðræða valdi með ýmsum hætti. Hún getur í senn verið afurð valds og
viðhaldið því, eða verið vitnisburður um átök. í orðræðunni birtist myndin sem
við gerum okkur af heiminum, hún getur löggilt og áréttað gildismat, forréttindi
eða afstöðu, sem hún getur einnig afhjúpað og hafnað.
Kristín Loftsdóttir fjallar um mynd Afríku í orðræðu þeirra íslendinga sem
skrifuðu fréttagreinar í Skírni á 19. öld. Þær draga upp heldur neikvæða mynd af
Afríku sem frumstæðum menningarheimi, telur höfundur, og hafi íslendingar
þannig viljað skipa sér á bekk með siðmenntuðum þjóðum, enda hafi það verið
þeim vopn í sjálfstæðisbaráttunni. Jóna G. Torfadóttir beinir sjónum að 11. aldar
konunni Alfífu sem nefnd er í nokkrum miðaldaheimildum og hlýtur iðulega niðr-
andi einkunn; skýringar megi leita í aldagömlum föstum niðrandi orðræðu. í ís-
lendingasögum er fjallað leynt og Ijóst um siðferði og athyglinni beint að samfé-
lagslegum vandamálum eins og ofbeldi. Gert Kreutzer kannar hvernig orðræðan
um pólitískt vald og samfélagsskipan birtist í völdum sögum um þetta efni. Vald af
ýmsu tagi er bundið í lög og eru þau enn ein birtingarmynd orðræðunnar, en þó
ekki endilega sú ótvíræðasta. Lagabókstafurinn getur valdið deilum og fætt af sér
enn frekari orðræðu sem leiðir stundum til þess að lögum er breytt. Miklar deilur
hafa staðið um vald forseta íslands og hvernig skilja beri orð stjórnarskrárinnar um
embættið. Sigurður Líndal fjallar um forsetavald í Skírnismálum sínum og telur
einsýnt að embættið sé ekki valdalaust.
Kristján Kristjánsson gerir réttlætishugmyndum samtímans nokkur skil í grein
sinni um stöðu orðræðunnar að Rawls gengnum og horfir til verðskuldunar sem
lykilhugtaks. Orðræðan um þjóðernið, ekki síður en þjóðernið sjálft, hefur verið
umdeilt efni að undanförnu. Gunnar Karlsson dregur saman ýmsa þræði sem þeim
málum tengjast í grein sinni í Skírnismálum. Þjóðerninu tengist tungumálið og
bókmenntaarfurinn. Jónas Hallgrímsson hafði mikil áhrif á þjóðernisvitund ís-
lendinga á 19. og 20. öld með ljóðum sínum um land og þjóð. Því hefur verið hald-
ið fram að ógerlegt sé að þýða ljóð Jónasar á erlend mál. Robert Cook fjallar um
athyglisverða tilraun Dicks Ringler til að þýða ljóð listaskáldsins góða á alþjóða-
málið ensku.
Onnur grein um bók er eftir Gunnar Kristjánsson, sem metur rit Sigurjóns
Árna Eyjólfssonar um Lúther, kenningar hans, áhrif og mikilvægi. í ritgerð sinni
glímir Guðmundur J. Guðmundsson við heimildir um tengsl norrænna manna á
Grænlandi við umheiminn. Skáld Skírnis er Gerður Kristný og birtast sex ljóð eftir
hana. Myndlistarmaður tímaritsins er Halldór Ásgeirsson. Æsa Sigurjónsdóttir
fjallar um list hans í lok heftisins.
Svavar Hrafn Svavarsson og Sveinn Yngvi Egilsson