Skírnir - 01.04.2004, Side 52
46
JÓNA GUÐBJÖRG TORFADÓTTIR
SKÍRNIR
Knútur hélt frillu í blóra við trúboð kirkjunnar og telur M. K.
Lawson að Alfífa hafi verið frilla Knúts bæði áður og einhvern
tíma eftir að hann giftist Emmu. Engu að síður virðast kennimenn
hafa litið framhjá þessu syndsamlega líferni konungs og segir Law-
son að frillulíferni kunni á þessum tíma að hafa verið með líku móti
á Englandi og tíðkaðist meðal germana, þar sem frillan gegndi við-
urkenndri stöðu og börn hennar áttu arfsrétt.42 Eftir sem áður eru
Englendingar mjög andsnúnir þessari skipan mála, eins og fram
kemur í sögu Englandskonunga eftir munkinn William frá Mal-
mesbury (um 1090-1143), og er eindreginn vilji þeirra að fá ein-
hvern af sonum Emmu drottningar fyrir konung, annaðhvort
Hörða-Knút eða annan hvorn sona Aðalráðs:
Frá því herrans ári 1036 hélt Haraldur, sem samkvæmt orðrómi var son-
ur Knúts með dóttur Ælfhelm jarls, krúnunni í fjögur ár og fjóra mánuði.
Hann var kosinn af Dönum og Lundúnabúum sem vegna mikilla sam-
skipta voru um þetta leyti nánast búnir að tileinka sér háttu barbara. Eng-
lendingar voru þessu lengi vel andsnúnir þar eð þeir vildu fremur fá fyrir
konung annan hvorn af sonum Aðalráðs, sem bjuggu í Normandí, eða
Hörða-Knút, son Knúts og Emmu, sem dvaldi á þessum tíma í Dan-
mörku.43
languentis concubinae, quod ueratius credi potest." Encomium Emmae Reg-
inae, 38-41 (þýðing greinarhöfundar).
42 Lawson: Cnut, 132. David Herlihy (Medieval Households, 50) segir m.a. að lit-
ið hafi verið á frillulíferni sem e.k. óformlegan hjúskap hjá germönum; frillan
hafði ekki rétt á við eiginkonuna en hún gegndi engu að síður viðurkenndri
stöðu í samfélaginu, þó í blóra við kirkjuna. Jenny Jochens („The Impact of
Christianity on Sexuality and Marriage in the Kings’ sagas", 531-550) telur
ennfremur að norskir konungar og höfðingjar, allt frá tíð Haralds hárfagra (um
860-930) til Hákonar gamla Hákonarsonar (1217-63), hafi getað átt margar ást-
konur. Það var hagur allra; þ.e. fyrir konunginn að eignast marga arftaka og
fyrir konurnar að verða hugsanlegar konungamæður.
43 „Anno Dominicae incarnationis millesimo tricesimo sexto Haroldus, quem
fama filium Cnutonis ex filia Elfelmi comitis loquebatur, regnauit annis quattu-
or et mensibus totidem. Elegerunt eum Dani et Lundoniae ciues, qui iam pene
in barbarorum mores propter frequentem conuictum transierant. Angli diu
obstiterunt, magis unum ex filiis Egelredi, qui in Normannia morabantur, uel
Hardacnutum filium Cnutonis ex Emma, qui tunc in Danemarkia erat, regem
habere uolentes“. William frá Malmesbury: Gesta Regvm Anglorvm, I, 334
(þýðing greinarhöfundar).