Skírnir - 01.04.2004, Page 66
60
GUÐMUNDUR J. GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
einkenndist af sjálfsþurftarbúskap. Veiðar voru einnig mikilvægar
fyrir lífsafkomu fólks, einkum selveiðar, en auk þess veiddu
Grænlendingar fisk, fugl, hval og hreindýr.
Eftirsóttustu útflutningsvörur Grænlendinga voru munaðar-
varningur sem mikil eftirspurn var eftir í Evrópu. Þar skal fyrst
nefna rostungstennur en þær voru notaðar til myndskurðar langt
fram eftir miðöldum á sama hátt og fílabein, jafnt í veraldlega hluti
sem og kirkjuleg myndverk.3 Sjaldséðari og þeim mun dýrari voru
náhvalstennur4 en þær voru seldar sem einhyrningshorn og þóttu
miklar gersemar. Reipi úr rostungshúð (svarðreipi) voru eftirsótt
enda feikisterk. Hvít skinn af snæhéra og ref voru eftirsótt efni í
klæðnað hefðarfólks og grænlenskir veiðifálkar voru í sérflokki
ásamt íslenskum fálkum.5 Grænlensku fálkarnir höfðu það fram
yfir þá íslensku að þeir voru hvítir og mun sjaldgæfari en frændur
þeirra frá íslandi og því var það aðeins fyrir göfugustu höfðingja
að veiða með slíkum gersemum, eins og ráða má af Konungs-
skuggsjá. Þar er sagt að Grænlendingar hafi ekki notað þá. Þeir
hafa því eingöngu verið verslunarvara vegna þess hve dýrmætir
þeir voru. Líklega hefur verið nokkuð stöðugt framboð af rost-
ungstönnum, svarðreipum og skinnum en framboð af náhvals-
3 Rétt er að taka fram að rostungstennur og hvítabjarnarfeldir bárust einnig á
markað frá Norður-Noregi þannig að ekki er hægt að ganga út frá því sem gefnu
að ávallt sé um grænlenska vöru að ræða þegar þetta tvennt er nefnt í heimild-
um.
4 Náhvalstennur koma ekki oft fyrir í íslenskum heimildum. I sögu Árna Þorláks-
sonar biskups er greint frá deilum sem urðu um náhvalstönn sem Þorvaldur
Helgason prófastur náði með klækjum af vestfirskum bónda en var síðan gert að
borga með skuld. Árni biskup náði síðar tangarhaldi á tönninni og hafði með sér
til Noregs og ætlaði að gefa Eiríki konungi Magnússyni. Má af því merkja hví-
lík gersemi hún hefur verið talin. Árna^ga biskups, bls. 154-55 og 165.
5 Þrjár tegundir veiðifálka voru vinsælastar: Norðurlandafálkinn sem átti heim-
kynni nyrst í Noregi og Svíþjóð, íslenski fálkinn sem var nokkru stærri og
Grænlandsfálkinn en hann var hvítur og þeirra sjaldgæfastur. Rétt er að taka
fram að ýmis litaafbrigði eru til af íslenska fálkanum, frá mjög dökkum og yfir í
mjög ljósa, þannig að ekki er útilokað að stöku hvítur fálki hafi komið á mark-
að í Evrópu þó að Grænlandsverslunin legðist af, og þá frá íslandi. Ekki er held-
ur útilokað að eitthvað af þeim hvítu fálkum sem nefndir eru í heimildum hafi
verið íslenskir. Sjá nánar um fálkana í John Bernström o.fl. „Falkar“ og Björn
Þórðarson, „íslenzkir fálkar".