Skírnir - 01.04.2004, Page 79
SKÍRNIR
GRÆNLAND OG UMHEIMURINN
73
Þeir sóru hins vegar að Grænlendingar hefðu samþykkt á Alþingi
sínu að selja þeim ekki kost nema þeir keyptu grænlenskar vörur
og studdu tveir menn sem voru með þeim á Grænlandi framburð
þeirra. Málið leystist farsællega, Grænlandsfarar greiddu tilskilin
gjöld af góssi sínu og var málið þar með úr sögunni.47
En það er ekki heiglum hent að sjá hvað varð um grænlensku
skreiðina eftir að knörrinn hafði flutt hana til Björgvinjar, frekar
en ullarvörurnar áður fyrr. Á bryggjunni í Björgvin hverfur hún
sjónum okkar, þar sem henni hefur væntanlega verið skipað út í
önnur skip, ásamt skreið frá Islandi og Noregi, og allt saman selt
á erlendum mörkuðum þar sem Björgvinjarkaupmenn höndluðu.
Það er hins vegar auðveldara að rekja feril auðþekkjanlegrar
vöru á borð við fálka, tannvöru og hvítabjarnarfeldi, ekki síst
vegna þess að þegar til Noregs kom var aðeins hluti vörunnar
seldur á almennum markaði. Það sem krúnan náði tangarhaldi á
var oft og tíðum ekki selt þótt verðmætt væri, heldur brúkað til
gjafa handa bandamönnum konungs og vildarvinum, ýmist til að
liðka fyrir viðskiptum eða til að efla pólitísk tengsl við erlenda
fursta og valdsmenn. Þetta átti líka við um íslensku fálkana. Á
þjóðveldistímanum höfðu íslenskir höfðingjar svo sem Páll bisk-
up Jónsson sama hátt á og norski konungurinn en meðal gjafa sem
hann sendi vinum sínum voru valir.48
Árið 1223 sendi Hákon konungur til dæmis Hinriki III. sex
geirfálka og nokkra gæshauka og lofar meira af slíku þegar sendi-
menn hans komi aftur frá íslandi, gegn því m.a. að fá vernd fyrir
norska kaupmenn í Englandi.49 Sendimennirnir skiluðu sér árið
1225, eins og áður er getið, og þá sendi Hákon Hinriki 13 geir-
fálka, þar af þrjá hvíta, tennur úr stóru sjávardýri, líklega rost-
ungstennur, en einnig aðra dýrgripi svo sem elgshorn.50 Þessar
gjafir áttu svo sannarlega eftir að borga sig því hart var tekið á
brotum gegn norskum kaupmönnum í Englandi næstu árin og líf-
leg verslun var milli landanna.
47 D.N. XVIII, bls. 29-31.
48 Páls saga biskups, bls. 143.
49 D.N. XIX, bls. 117-18.
50 Sama rit, bls. 125.