Skírnir - 01.04.2004, Side 90
84
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
lensku“,4 er þó sá hve grópmál hún var og mikil orðakveikja. í
fæstum orðum má segja að hún hafi skapað þá löð sem öll umræða
um heimspekilegar réttlætiskenningar á Islandi hefur síðan lagst í.
Orð eins og „fjalldalaregla", „fávísisfeldur", „lykta-“ og „tilkalls-
kenningar" um skiptaréttlæti5 og mörg önnur sem nú þykja ómiss-
andi og sjálfsögð í þessum fræðum á íslensku eru, að ég hygg, flest
sporræk til þessarar einu ritgerðar.
En jafn lífseig og umfjöllun Þorsteins um réttlætið var um
langa hríð þá hefur hún elst nokkuð hratt á fáum árum. Þá á ég
ekki við að rökræða hans um þá Nozick og Rawls hafi þorrið að
gildi heldur hitt að þrefbraut heimspekinga um réttlætið hefur
víkkað nokkuð og breyst síðasta áratuginn. Því hvarflaði að mér
að ef til vill væri við hæfi að gera jafnt Þorsteini sem lesendum
Skírnis það virðingarmark að taka nú upp þráðinn þar sem Þor-
steinn sleppti honum og vekja hugboð um það sem síðan hefur
gerst í réttlætisfræðum.6 Af ýmsum ástæðum, sem raktar verða
hér að neðan, er það þó torsóttara verk en var fyrir tuttugu árum,
meðal annars vegna þess að erfitt er að greina lengur eina tiltekna
umræðuhefð um réttlætið sem allt skipast í hvirfing um - og jafn-
vel ekki tvær.
Þegar ég segi ritgerð Þorsteins hafa elst nokkuð hratt á
skömmum tíma á ég einkum við það að stjörnur þeirra Nozicks
og Rawls blika nú ekki lengur með sama ljóma og áður var. Til
þeirrar sögu ber margt og minnstu skiptir þar sú staðreynd að
báðir höfundar eru nýlega látnir. Svo vill til um frjálshyggju
Nozicks að hún eignaðist aldrei neinn verðugan heimspekilegan
arftaka. Enduróm hennar má að vísu finna í kenningum hagfræð-
4 Kristján Kristjánsson (2002b), bls. 255. Þetta var raunar á sama tíma og stað og
ég átti í útistöðum við Þorstein út af öðru og miklu ómerkilegra máli, eins og sjá
má á samhengi þessarar ívitnunar.
5 Þ.e. „distributive justice", til aðgreiningar m.a. frá endurgjaldsréttlæti („retri-
butive justice") sem lögspekingum er hugtamast.
6 Ég hef gert flestum þeim hugmyndum sem reifaðar eru á þessum blöðum ítar-
legri skil í skrifum á ensku í (2002a), (2003a), (2003b), (2003c), (2003e), (2004a)
og (2004c). Þar sem þessi skrif eru ugglaust misaðgengileg lesendum Skírnis mun
ég til hægðarauka vísa, eftir föngum, í eigin skrif og annarra á íslensku um þessi
efni þar sem þau eru fyrir hendi.