Skírnir - 01.04.2004, Page 92
86
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
Hvernig æxlaðist það svo til að kenningar Nozicks og Rawls
misstu smám saman flugið? Engum skyldi koma á óvart þótt það
yrði hlutskipti hinnar fyrrnefndu; sú var af það róttæku frjáls-
hyggjukyni að henni hlaut að verða búin vist utan alfaraleiðar al-
menningshylli eða heimspekilegrar íhygli þegar mesta nýjabrumið
var farið af henni. Meiri furðu sæta örlög frjálslyndiskenningar
Rawls, sem hefði, við fyrstu sýn, átt að geta höfðað til breiðs hóps
stjórnmálahugsuða frá mildum hægri líberalistum til vinstri
manna af öllum stærðum og gerðum. Raunin er samt sú að réttlæt-
iskenning Rawls hefur ekki lengur sama heimspekilega vaðið fyr-
ir neðan sig og áður var. Til þess bera margar greinir sem flestar
tengjast almennu gjaldfalli formhyggju í siðfræði (skynsemis- og
háttarkenninga á borð við kenningu Rawls) á kostnað veraldar-
hyggju, einkum af dygðafræðitagi.10 Spurningin sem siðfræðing-
um er hjartfólgnust um þessar mundir er sú hvaða persónulegar
dygðir athafna og tilfinninga stuðli sem mest að mannlegri heill;
og þessi áhugi hefur sáldrast yfir í stjórnmálaheimspekina líka, þar
sem æ fleiri vilja gaumgæfa réttlætið fyrst sem einstaklingsdygð
áður en þeir hyggja að því, eins og Rawls vildi einvörðungu gera,
sem „dygð félagslegra stofnana".* 11 Þar með nægir ekki lengur að
staldra við eina hillu í bókasafninu vilji maður íhuga réttlætið;
hvarfla þarf á milli bóka er fjalla um það út frá forsendum sið-
fræði, stjórnmálaheimspeki, þroskasálfræði, félagssálfræði og
jafnvel lögspeki. Þessi nýja þverfaglega áhersla, sem stefnir meðal
annars að því að brúa hið vanhugsaða en hefðarfreðna Ginn-
ungagap milli heimspeki og félagsvísinda, gengur út frá þeirri for-
sendu veraldarhyggjunnar að reynslugögn hljóti að skipta máli við
smíði heimspekilegra kenninga, til að mynda um réttlætið, og eðli-
legt sé að láta hversdagsleg sjónarmið og merkingarbrigði njóta
vafans nema fyrir hendi séu góðar ástæður til að hafna þeim.12 I
10 Sjá t.d. beitta gagnrýni Loga Gunnarssonar á formhyggju (2000) og Skírnis-
grein mína um bók hans (2001). Að vísu aðhyllist Logi sjálfur ekki veraldar-
hyggju þótt hann afneiti formhyggju, en það er önnur saga.
11 Rawls (1973), bls. 3. Sjá nánar um þetta í grein minni (2003d).
12 Sjá t.d. Miller (1999) og nánari umfjöllun mína um þetta efni í (2004b). Verald-
arhyggjumenn kannast samt að sjálfsögðu enn við upprunavilluna („the genetic