Skírnir - 01.04.2004, Síða 100
94
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
ekki komast svo langt í þessari ritgerð að færa endanlegar sönnur
á þá ályktun, þó að ég leyfi mér, í V. hluta, að geta mér til um
hvernig rökstuðningur fyrir henni kynni að líta út. Markmið mitt
er hófsamara - og þar með í raun ekki eins metnaðarfullt og Þor-
steins sem bar fram sína eigin réttlætiskenningu í lokin. Vilji minn
er fremur sá að reyna að skýra fyrir lesendum hinn aukna áhuga á
þessum verðskuldunartilfinningum og að veita sýn á nokkrar helstu
þeirra. Hér strax á eftir íhuga ég skoðanir þriggja heimspekinga,
Roberts Solomon, Samuels Scheffler og Peters Strawson, sem all-
ir hafa lagt sitt af mörkum, þótt frá ólíkum sjónarhornum sé, til
skilnings á eðli og meintu siðmæti verðskuldunartilfinninga. í
næstu tveimur hlutum, III og IV, greini ég tvo mikilvæga flokka
slíkra tilfinninga sem beinast annars vegar að verðskulduðu eða
óverðskulduðu lífsláni annarra og hins vegar manns sjálfs. V. hlut-
inn skýrir svo, eins og áður segir, hvers konar dygðir gætu búið í
þessum tilfinningum: hvers vegna það kynni að vera hollt að hafa
þær.
Hví skipta tilfinningar máli fyrir réttlætið? Robert C. Solomon
hefur svarað þeirri spurningu í einni bók og tveimur merkum
greinum.39 Þótt Solomon vaði nokkuð úr einu í annað í rökstuðn-
ingi sínum ætla ég að reyna að skipta ástæðunum sem hann lætur
í Ijósi í þrennt: merkingarlegar, sálrænar og siðlegar.
Merkingarlegu ástæðurnar skiljum við ekki til fulls nema með
þá staðreynd í baksýn að Solomon var einn forvígismaður vits-
munakenningarinnar um tilfinningar: kenningarinnar um að þær
tilfinningar sem við höfum mestan hug á að ræða við eldhúsborð-
ið og í fræðiritum, það er geðshræringar okkar, svo sem afbrýði-
semi, öfund, hluttekning, stolt, gleði og reiði, séu þrungnar af vits-
munum. Upphafleg tilgáta Solomons var sú að þessar tilfinningar
vœru einfaldlega skoðanir (en ekkert meira né minna), og þótt
hann sé nú orðinn viljugri að taka tillit til þess látæðis, langana og
kennda sem geðshræringunum fylgja hefur það ekki haggað þeim
kjarna vitsmunakenningarinnar, sem enn er allsráðandi í fræði-
heiminum, að geðshræringar séu viljatengd viðhorf. Þess vegna,
39 Solomon (1994; 1995; 2001).