Skírnir - 01.04.2004, Page 106
100
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
eigin mistök; en kurteislega orðuð ábending hans kemur að miklu
leyti í sama stað niður: „Ef frjálslyndisstefnan ætlar að rýja fólk
hefðbundinni verðskuldunarhugmynd sinni en ljá því í staðinn
hugmynd um réttmætar væntingar til kerfa og stofnana, og ef
þessi ætlun mætir pólitískri andstöðu, þá getum við ekki útilokað
þann möguleika að sú andstaða skýrist að hluta til af togstreitu
milli frjálslyndisstefnunnar og viðbragðaviðhorfa almennings
fremur en að hún eigi einungis rætur að rekja til einhverra tilvilj-
anakenndari kennileita í hinu ríkjandi pólitíska landslagi."52 Hug-
takið sem kemur hér enn og aftur við sögu er „viðbragðaviðhorf"
(„reactive attitudes") og löngu orðið tímabært að veita því nánari
athygli.
Hugtak þetta, sem Scheffler vísar beint í og Solomon óbeint, á
rót að rekja til frægrar ræðu sem heimspekingurinn Peter Straw-
son flutti á fundi hjá Bresku akademíunni fyrir rúmum fjörtíu
árum. Sú ræða var að vísu framlag til frumspeki, ekki stjórnmála-
heimspeki, og gekk út á vörn fyrir svokallaðri sáttakenningu
(,,compatibilism“) um löghyggju og frjálsan vilja mannsins.
Strawson gerði greinarmun á því þegar við hlutgerum fólk í lýs-
ingu á atferli þess, sem geðveiku eða ekki hugar síns ráðandi af
öðrum ástæðum, og þegar við bregðumst við athöfnum þess með
því sem hann kallaði „viðbragðaviðhorf". Þau viðbrögð taldi hann
grunninn að hugmyndinni um siðlega ábyrgð; raunar gekk hann
svo langt að segja að það að hafa slík viðhorf sé að eigna manni
ábyrgð á gjörðum sínum, punktur og basta. Viðbrögð þessi geta
beinst að öðru fólki, beint (t.d. sem reiði út í Begga bróður fyrir að
móðga mig) eða óbeint (afbrýðisemi mín fyrir hönd Begga bróð-
ur að Sesselja skyldi taka Davíð fram yfir hann), ellegar að manni
sjálfum, til að mynda sem stolt eða sektarkennd yfir eigin gjörð-
um. Strawson lýsti þessum viðbragðaviðhorfum sem „náttúruleg-
um mannlegum viðbrögðum" sem enginn veldi hvort hann fyndi
eða fyndi ekki til. Því skipti það öldungis engu máli þótt vísinda-
menn gætu í framtíðinni fært sönnur á fullkomið löggengi heims-
ins og þannig bitið bakfiskinn úr eða að minnsta kosti útvatnað
52 Scheffler (1992), bls. 314.