Skírnir - 01.04.2004, Page 107
SKÍRNIR
RÉTTLÆTI Á EFTIR RAWLS
101
hugtakið „siðleg ábyrgð" frá vísindalegu sjónarmiði. Almenning-
ur færi ekki þann sama dag að taka að taka upp á því að hlutgera
allt mannlegt atferli; við héldum áfram að tala um vilja, áform og
ásetning annarra og sjálfra okkar eins og ekkert hefði ískorist.
Hinn kosturinn væri að vísu ekki röklega útilokaður en hann væri
útilokaður í reyndP
Um þessa niðurstöðu Strawsons má efast.54 Hví skyldi fólk
ekki geta breytt orðaforða sínum og hugtakanotkun ef það kæm-
ist að raun um að heimurinn væri allt öðruvísi en við höldum að
hann sé? En sú spurning er aukaatriði hér; í siðfræði og stjórn-
málaheimspeki eru „viðbragðaviðhorf" Strawsons undur nýtilegt
hugtak þar sem þau skýra svo vel hvað liggur að baki verðskuld-
unarhugmynd fólks: hugmyndinni sem birtist í jafn hversdagsleg-
um staðhæfingum og þeirri að Bjössi hafi loks fengið að súpa
seyðið af illverkunum sem hann bar ábyrgð á. Það sem bæði
Solomon og Scheffler minna okkur á er að réttlæti, án slíkra við-
bragðaviðhorfa, væri eins og rjómapönnukaka án rjóma.
III. Verðskuldunartilfinningar sem beinast að öðrum
Hröpum ekki strax að þeirri ályktun að viðbragðaviðhorfin, sem
hér voru rædd, séu það sama og verðskuldunartilfinningar. I fyrsta
lagi er ekki ljóst að öll viðbrögðin sem Strawson lýsir séu yfirleitt
tilfinningar; sum líkjast fremur kenndum, áformum eða löngun-
um, ellegar jafnvel skoðunum (sem ekki þurfa að vera tilfinninga-
þrungnar) um góðvilja eða illvilja annarra.55 I öðru lagi koma þau
ekki öll réttlæti við, hvað þá verðskuldun; maður getur til dæmis
verið þakklátur vini sínum fyrir greiða sem gekk miklu lengra en
maður verðskuldaði, eða jafnvel greiða sem maður átti alls ekki
skilið af hans hálfu. Þau viðbragðaviðhorf sem tengjast réttlæti
þurfa, í þriðja lagi, meira að segja ekki öll að taka mið af verð-
skuldun: Sálfræðingar hafa nýverið leitt í ljós hvernig fólk getur
53 Strawson (1962), einkum bls. 195-197 og 204.
54 Scheffler gerir það: (1992), bls. 312; ég myndi gera það líka, enda tel ég almennt
hæpið að frumspekilegum spurningum verði svarað með sálfræðilegum rökum.
55 Sjá Strawson (1962), bls. 192.