Skírnir - 01.04.2004, Page 112
106
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
urra siðrænna tengsla („kvikindisleg eða illgjörn öfund“). Af-
brýðisemi er að vísu alltaf bundin hugmynd um verðskuldun, en
hún er flókin, samsett tilfinning þar sem Ari álítur til dæmis ekki
einvörðungu að Bjarni hafi fengið eitthvað sem Ari átti jafn vel
eða betur skilið, heldur telur líka að Gunna ófétið hafi gert rangt
með því að veita Bjarna en ekki Ara umbunina og að ákjósanleg-
ast væri að þessi umbun hyrfi frá Bjarna (aftur) til Ara. Afbrýði-
semi er því samsett úr þremur tilfinningum sem taka saman hönd-
um: réttlátri reiði (vegna verðskuldunarbrots), venjulegri reiði og
öfund.62
Ein af áhugaverðustu staðhæfingum Aristótelesar um verð-
skuldunartilfinningarnar fjórar sem beinast að öðru fólki er sú að
þær sæki allar styrk í sömu manngerðina: þá siðlegu skaphöfn að
vera sanngjarn gagnvart lífsláni annarra. Hann virðist jafnvel gefa
í skyn að til sé sjálfstæð almenn tilfinning eða tilfinningahneigð -
nemesis í víðri merkingu,63 er við gætum kallað verðskuldunar-
kennd á íslensku64 - sem einkennist af ánægju með verðskuldað
lán eða ólán og óánægju með óverðskuldað lán eða ólán, og að
hver hinna fjögurra verðskuldunartilfinninga tjái þessa almennu
hneigð sem gullinn meðalveg við ólíkar aðstæður, en illfýsi, með-
aumkun, rangsleitin sigurgleði og meinfýsi séu öfgamyndir með-
alvegarins.65 Með öðrum orðum: Aristóteles gæti hér verið að
hnykkja á sjálfu eðli verðskuldunarinnar sem tilfinningadygðar:
dygðar er knýtir saman sálir góðs og skynsams fólks í samfélagi
tilfinninga og skoðana og leggur grunninn að réttlæti sem félags-
legri dygð. Ég hverf aftur að þessari hugmynd í næsta hluta.
Ég sagði að kerfi Aristótelesar væri á köflum ofsoðið. Dæmi
62 Sjá nánar í bók minni (2002a), kafla 5.
63 „Nemesis" er líka heiti Aristótelesar á einni hinna einstöku tilfinninga, þ.e.
réttlátri reiði (óánægju vegna óverðskuldaðs láns annarra).
64 Þótt ég búi hér til orðið „verðskuldunarkennd", sem hljómar vel á íslensku, þá
má ekki skilja það þeirri bókstaflegu merkingu (fremur en orðið „réttlætis-
kennd“ annars staðar í ritgerðinni) að átt sé við „kennd“ í hinni þröngu fræði-
legu merkingu sem útskýrð var í nmgr. 36, til aðgreiningar frá geðshræringum.
Hér er að sjálfsögðu um geðshræringar að ræða, ekki einberar hráar kenndir.
65 Sjá ítarlegar tilvitnanir í hin ýmsu rit Aristótelesar í grein minni (2003a). Coker
(1992) og Curzer (1995) íhuga sama túlkunarkost.