Skírnir - 01.04.2004, Page 126
120
KRISTÍN LOFTSDÓTTIR
SKÍRNIR
sem enduróma í orðum Matthíasar Jochumssonar má líta á sem
bergmál ráðandi stórsagna (metanarratives) 19. aldar. Viðfangs-
efni mitt er í megindráttum þær hugmyndir sem birtast í íslensk-
um ritum um Afríku á 19. öld og hvað þær gefa til kynna um sjálfs-
mynd íslendinga á þessum tíma.1 Ég legg áherslu á að skoða fé-
lagslegt umhverfi þessara ímynda; skilja merkingu þeirra í íslensku
samhengi, þá sérstaklega út frá mikilvægu samtímamáli sem teng-
ist breyttu pólitísku og félagslegu landslagi í Evrópu, þ.e. kröfu ís-
lendinga um aukið sjálfsforræði. Jafnhliða legg ég áherslu á afstæði
afmörkunar „okkar“ og „hinna“ með áherslu á fjölbreytileika
ímynda íslendinga á tímum þjóðernishyggju og útþenslustefnu
Evrópu, sem og mögulegt hlutverk hugmynda um Afríku í þeirri
afmörkun. Umfjöllunin snýr að mestu að ímyndum Afríku sem
brugðið er upp í Skírni á 19. öld. Ástæðan fyrir þeirri afmörkun er
sú að ritið var mikilvægur miðill erlendra frétta á þessum tíma,
merkismenn í sögu þjóðarinnar voru pistlahöfundar og einnig tel
ég áhugavert að skoða rit með jafn langa útgáfusögu og Skírnir.
Orðræður í Evrópu á 19. öld voru að sjálfsögðu ekki einróma eða
stöðugar, en mynduðu engu að síður, svo ég noti hugtak Michel
Foucault, ákveðinn „stórsannleik" (á ensku regime of truth) í til-
hneigingu höfunda að éta upp texta annarra í sífelldum hring end-
urtekninga (sjá Miller 1995). Ákveðnir þræðir í ímyndum Afríku
urðu því undarlega einsleitir í aldanna rás.
Norski mannfræðingurinn Fredrik Barth (1969) sem minnst
var á fyrr fjallar um raunveruleg, lifuð tengsl á milli hópa. Ég und-
irstrika hér að textar geta falið í sér nýjar leiðir til að ímynda sér
heiminn, sjálfan sig í tengslum við aðra sem og afmörkun „okkar“
og „hinna“, jafnvel þar sem hinir eru hvorki sýnilegir né áþreifan-
legir. í bók sinni The Black Atlantic fjallar Paul Gilroy um skip
1 Rannsóknin sem þessi grein byggist á var styrkt af Rannsóknarráði íslands,
Rannsóknarsjóði Háskóla Islands og Aðstoðarmannasjóði Háskóla íslands.
Helga Björnsdóttir, meistaranemi í mannfræði, aðstoðaði við þann hluta rann-
sóknarinnar sem snýr að ímyndum Afríku í Skírni á 19. öld, en einnig aðstoðaði
Þórana Dietz, meistaranemi í mannfræði, við ákveðin atriði þess hluta. Einnig vil
ég þakka Sigríði Matthíasdóttur fyrir athugasemdir við eldra uppkast af grein-
inni og nafnlausum yfirlesara Skímis fyrir gagnlegar athugasemdir. Ég ber aug-
ljóslega sjálf engu að síður ábyrgð á efni greinarinnar.