Skírnir - 01.04.2004, Page 136
130
KRISTÍN LOFTSDÓTTIR
SKÍRNIR
Áhersla á siðmenningu og mikilvægi Vesturlandabúa sem boð-
bera siðmenningar birtist einnig á opinskáan hátt. í umfjöllun frá
1831 er fjallað um hvernig Frakkar hafa leitt „siðu og menntir" í
Alsír og að landsmenn taki því vel enda „eru þetta fögr umskipti
og gleðileg fyrir siðgæði og upplýsing yfir höfuð“ (16-17). Grein
tímaritsins árið 1861 fjallar um siðferðislega yfirburði landkönn-
uðanna Barths og Livingstone með þeim orðum að þeir hafi
„borið ægishjálm yfir villimönnum, og sýnir það, hvílíkt afl að
liggr í yfirburðum sálarinnar og mentun vorrar heimsálfu" (bls.
101). í frétt frá Gullströndinni árið 1874 koma slík viðhorf einnig
skýrt fram:
Það er mál margra manna, þeirra er kunnugir eru högum blámannaþjóða
í Afríku, að þeim geti aldrei orðið neinna þrifa auðið, nema menningar-
ríki vorrar álfu hafi hönd í bagga með þeim og forræði fyrir þeim ... Það
eru Evrópumenn einir, sem fært yrði að byggja út ósiðum þeim, er nú
voru nefndir [fjölkvæni og mannsal], ef þeir næðu ráðum yfir þjóðum
þessum og vildu vel fara með völdum sínum (bls. 57-58).
í beinu framhaldi er þó bent á að Bretar gætu einnig grætt mikið
á viðskiptum við þessar þjóðir ef tækist að mennta þær, og þannig
er efnahagslegur ávinningur samofinn siðferðislegri ábyrgð Evr-
ópubúa. I frétt frá 1870 um Egyptaland má greinilega merkja
hversu sterklega framfarir eru tengdar Evrópubúum og kristinni
trú: „Evrópumenntan á Egyptalandi er enn að eins í ytra fari - eri
þar sem ósiðaðar þjóðir taka eptir hætti kristinna manna, verða
þær um leið að játa, að þær standi þeim á baki, og jafnan fylgir því
annað meira þegar fram líður“ (bls. 220). Yfirburðir Evrópubúa
og mikilvægi landnáms þeirra í Afríku er einnig undirstrikað með
því að draga upp mynd af fólki álfunnar sem börnum sem kunni
ekki fótum sínum forráð. í grein frá 1861 er því haldið fram að sál-
aratgjörvi „blökkumanna" sé ekki mikið, allar hugsanir tengdar
munni og maga og tungumálið líkt barnahjali. I framhaldi er bent
á að karlar og konur gangi um nakin, en nekt var talin bera vott
um lágt þróunarstig fólks (bls. 102). Hér má að vissu leyti sjá
ákveðið bergmál af fyrrnefndum hugmyndum Gobineaus um
„tómið“ sem einkenna átti Afríku.