Skírnir - 01.04.2004, Page 159
SKÍRNISMÁL
GUNNAR KARLSSON
Syrpa um þjóðernisumræðu
Árið 1983 markar tímamót í umræðu mannvísindafólks um
þjóðernishyggju, því að þá komu út tvær bækur sem hafa sett um-
ræðunni kenningarramma alla tíð síðan, Imagined Communities
eftir Benedict Anderson og Nations and Nationalism eftir Ernest
Gellner. Þessi rammi tók fljótt að móta umræður íslendinga um
efnið, og síðan hefur verið stöðug fræðileg umræða um íslenska
þjóðernisvitund og þjóðernishyggju. Aðalatriði þessa ramma er
það sem þriðji brautryðjandinn í þjóðernishyggjurannsóknum,
Anthony D. Smith, kallaði módernisma, kenningin um að pólitísk
þjóðernishyggja, óskin um að mörk ríkis og þjóðmenningar falli
saman, eða uppfylling þessarar óskar, það sem er kallað nation á
ensku, sé varla til fyrr en á nýöld mannkynssögunnar.1 Niðurstaða
þessara hugtakapælinga níunda áratugarins var að greina að tvenns
konar hópa sem geta fallið undir íslenska orðið þjóð (og orðin et
folk, ein Volk og apeople í grannmálum okkar). Annars vegar var
það sem Smith gaf franska heitið ethnie og skilgreindi svo að það
gengi undir sameiginlegu þjóðarheiti, ætti oftast upprunagoðsögn
og sögu, hefði sérstaka menningu (mál og/eða trúarbrögð o.fl.),
tengsl við ákveðið land og nokkra samstöðukennd.2 Hópur af
þessu tagi hefur ekki endilega neinn áhuga á að mynda sérstaka
pólitíska heild. Hins vegar er hópur sem hefur fengið enska heitið
nation og má segja að sé ethnie sem vill endilega mynda sérstakt
ríki og er þannig haldið þeirri áráttu sem er kölluð nationalism á
ensku. Hér má því setja upp formúlu sem sameinar kenningar
1 Smith, The Ethnic Origins ofNations (1986), 7-13.
2 Smith, The Ethnic Origins ofNations (1986), 22-30.
Skímir, 178. ár (vor 2004)