Skírnir - 01.04.2004, Síða 162
156
GUNNAR KARLSSON
SKÍRNIR
Guðmundur Hálfdanarson, sem má kalla merkisbera módernism-
ans í íslenskri sagnfræði, hefur farið aðra leið, notað orð'ið þjód um
nation og búið til orðið þjódflokkasamfélag um ethnie. Með orð-
um hans er formúlan því svona:
Þjóðflokkasamfélag + þjóðernishyggja = þjóð.
Guðmundur segist hafa valið orð eins og hann gerir „bæði vegna
þess að orðið þjóð hefur nokkurn veginn sömu merkingu og orð-
ið nation í erlendum málum, og kann því önnur notkun þess að
valda ruglingi, og vegna þess að ég tel nauðsynlegt að greina vel á
milli hugtakanna ethnie og nation.“7
Sé maður eingöngu að hugsa um að skýra uppruna þjóðríkis-
ins og ríkisþjóðarinnar er þessi afstaða skiljanleg. Það virðist um-
hendis að geta ekki nýtt sér þá beinu samsvörun sem er í hugum
flestra á milli orðanna nation og þjóð. En frá sjónarmiði hins, sem
fæst við þróun þjóðernis frá upphafi Islandssögunnar, er óþolandi
að vera skyldugur að þýða fornnorræna orðið þjóð, sem kemur
iðulega fyrir í heimildum, með þjóðflokkasamfélag, eða hvaða orði
sem væri. Og fáist maður þar á ofan við að draga upp langar línur
í sögu samfélagsins er umhendis að verða að skipta um merkingu
á orðinu þjóð á miðri leið.
Mín orðanotkun krefst þess ekki heldur að maður fórni alger-
lega samsvörun orðanna nation og þjóð. Pólitísk þjóð eða ríkisþjóð
er undirflokkur í heildinni þjóð, hún er þjóð með eitt ákveðið sér-
kenni, nefnilega pólitíska þjóðernishyggju. Því er auðvelt að stytta
heitið og kalla fyrirbærið einfaldlega þjóð, þegar augljóst er eða
ekki skiptir máli hvort átt er við pólitíska eða ópólitíska þjóð.
Ekkert hliðstætt er hægt að gera við orðið þjóðflokkasamfélag.
Sagnfræðingur sem setti sér að nota það orð um ethnie, og spara
orðiðþjóð þangað til kæmi að sannkölluðu nation, gengi í berhögg
við módernismann ef hann leyfði sér að tala nokkru sinni um ís-
lenska þjóð á miðöldum.
Loks tel ég vonlaust að ætla sér að halda merkingu orðsins þjóð
innan þeirra þröngu marka sem Gellner setti orðinu nation. Þótt
7 Guðmundur Hálfdanarson, „Hvað gerir íslendinga að þjóð?“ (1996), 18-19. -
Guðmundur Hálfdanarson, íslenska þjóðríkið (2001), 27, 256.