Skírnir - 01.04.2004, Page 215
SKÍRNIR FORSETI ÍSLANDS OG SYNJUNARVALD HANS 2°9
Þessi ákvæði verður öll að skilja með hliðsjón af 11. gr., að for-
seti sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum; 13. gr., að hann láti ráð-
herra framkvæma vald sitt; 14. gr., að ráðherrar beri ábyrgð á
stjórnarframkvæmdum öllum og 19. gr., að undirskrift ráðherra
undir löggjafarmál10 eða stjórnarerindi veiti þeim gildi. Um skip-
un ráðherra er forseti að auki bundinn af þingræðisreglunni.
En hér þarf að skilja á milli hlutverks forseta sem handhafa lög-
gjafarvalds og handhafa framkvæmdarvalds, en leitazt var við að
orða ákvæði 2. gr. um framkvæmdarvald þannig, að ljóst væri
hverjir færu með það í raun og veru. Reglum um það var því ekki
breytt svo að heitið gæti við lýðveldisstofnun, heldur voru þær
lagaðar að veruleikanum. Áfram var hins vegar gert ráð fyrir tví-
skiptu löggjafarvaldi, en nýmæli var synjunarvald með málskots-
rétti. Sú skipan fól í sér að staða forseta, sem að auki var þjóðkjör-
inn, varð gerólík stöðu konungs. Ákvæðin um stöðu forseta verð-
ur því að túlka sjálfstætt og óháð þeim ákvæðum sem eiga sér
lengri sögu.
VI. Forseti Islands og dönsk stjórnskipunarhefð
Nokkuð hefur verið skírskotað til danskrar stjórnskipunarhefðar
við skýringu á stöðu forseta innan núgildandi stjórnskipunar.
í stjórnarskrá konungsríkisins íslands nr. 9, 18. maí 1920, seg-
ir þetta í 2. gr.:
Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi, báðum saman, framkvæmdar-
valdið hjá konungi og dómsvaldið hjá dómendum.
Hér er það ljóst að löggjafarvaldið var í höndum konungs og Al-
þingis og hlutdeild konungs birtist í því að hann gat synjað lögum
staðfestingar þótt hann hefði ekki beitt því um langa hríð.
10 Undirskrift ráðherra undir löggjafarmál felur ekki í sér hlutdeild í löggjafar-
valdi, heldur ábyrgist ráðherra með þessu alla stjórnarframkvæmd sem lýtur að
setningu laga, meðal annars að hún sé í samræmi við stjórnarskrá og önnur lög,
sbr. lög um ráðherraábyrgð nr. 4/1963. Sjá einnig Sigurð Líndal, „Stjórnskipu-
leg staða forseta íslands", bls. 430.