Skírnir - 01.04.2004, Page 268
262
GUNNAR KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
við heiminn og sköpunina, þ.e. við veruleika lögmálsins" (203). í djúpi
sálarlífsins „á maðurinn beint samband við Guð í orði hans: í lögmálinu"
(204). Maðurinn þekkir með öðrum orðum vilja Guðs, Guð er nálægur
manninum í vitund hans um rétt og rangt. Höfundur bendir á að Lúther
hafi átt í höggi við þá sem vildu afneita lögmálinu þegar hann flutti þess-
ar prédikanir út frá Jóhannesarguðspjalli á fjórða áratug sextándu aldar,
og sú barátta gefur framsetningu hans óhjákvæmilega nýtt yfirbragð og
nýja áherslu.
En samviskan er samt ekki óyggjandi innri dómstóll um rétt og rangt
sem vísar manninum rétta leið í breytni sinni. Hún er ekki guðlegt lögmál
og áttaviti innra með manninum. Hún er ekki meðfætt lögmál sem nægir
manninum til þess að gera greinarmun á réttu og röngu. Hin meðfædda
samviska áminnir og ásakar manninn og segir honum að gera meira og
meira til þess að þóknast Guði. Þetta er leið lögmálsins á máli siðbótar-
innar, leið lögmálsins til þess að ávinna manninum sáluhjálp og sálarfrið.
En sú leið er ófær því að samviskan heldur áfram og áfram að skelfa
manninn, núa honum því um nasir að hann sé ekki búinn að gera nóg.
Hin meðfædda samviska fjötrar manninn og gerir hann ófrjálsan, jafnvel
yfirborðslegan hræsnara sem þykist vera góður og betri en hann er; góð
samviska er hér samkvæmt litríku orðalagi Lúthers hvorki meira né
minna en „uppfinning djöfulsins." Þetta er leiðin til þess að festa mann-
inn í viðjum samviskunnar. Hann verður þræll samvisku sinnar: gerði ég
nóg, var þetta nógu gott? Samviskubitið kvelur hann sífellt. Með þessu
móti verður maðurinn síður en svo frjáls.
Það er hlutverk trúarinnar að leysa manninn undan þessari ánauð og
það á að gerast þegar maðurinn uppgötvar hinn náðuga Guð sem umber
hann en kallar hann samt til góðra verka.
Samviskan að skilningi Lúthers beinist ekki fyrst að breytni mannsins
heldur að innstu veru hans, að tilvist hans í dýpsta skilningi. Þessi hlið
snýr að manninum sjálfum og varðar mennsku hans og hún tengir Lúth-
er óneitanlega viðhorfum sem voru áberandi meðal heimspekinga og rit-
höfunda tilvistarstefnunnar. Heidegger nefnir samviskuna ákall frá um-
hyggjunni [Ruf der Sorge) sem kallar manninn til eiginlegrar tilvistar og
mennsku og varnar því að hann falli undir vald ómennisins (Das Man).
Samviskan kallar manninn til sjálfs sín. Hann finnur mennsku sína með
þeim hætti. En rödd samviskunnar verður einnig til þess að maðurinn
skynjar ábyrgð sína og um leið sekt sína í þessum heimi. Hann getur
aldrei svarað til fulls þeim siðferðilegu kröfum sem gerðar eru til hans, en
víki hann undan þeim er mennska hans í húfi.2
2 Sjá Wolfgang Nikolaus, „Gewissen, philosophisch.“ Evangelischer Kirchenlexi-
kon 2. bindi 3. útg, Göttingen 1989, bls. 174-175.