Skírnir - 01.04.2004, Blaðsíða 271
SKÍRNIR
.. OG STEFNDI BEINT TIL WoRMS
265
» *
Sigurjón Árni gerir ítarlega grein fyrir friðþægingarkenningu Lúthers,
m.a. í umfjöllun um lögmálið og syndina, en einnig í áhugaverðri umfjöll-
un um synd og fórn, um kenningar Hebrea í því efni, m.a. um fórnar-
lambið sem var slátrað í musterinu til að endurnýja lífskraftinn í samfé-
laginu en einnig um sektarlambið sem var rekið út í eyðimörkina eftir að
hafa tekið „táknrænt“ á sig synd mannsins. í framhaldi af þessu gerir höf-
undur grein fyrir því hvernig Lúther fjallar um Jesúm Krist sem hið sanna
páskalamb sem er slátrað á páskum Gyðinga á krossinum, heiminum til
lífs. Samkvæmt þessari kenningu er hér ekki að baki reiður Guð heldur
miskunnsamur sem lætur sér óendanlega annt um manninn (331).
Friðþægingin gildir ekki aðeins fyrir mannkynið sem slíkt heldur
einnig „fyrir mig“, pro me, sem Lúther leggur sífellt áherslu á. Það er
„mín“ vegna sem þetta gerist, til þess að einstaklingurinn geti sagt í hjarta
sínu: mér er borgið, ég er sáttur við Guð, Guð er sáttur við mig, ég þarf
ekki að óttast reiði hans. Af þessu er ljóst að sálarangist mannsins og sam-
viskukvöl hans hverfur einnig „út í eyðimörkina" með slátrun hins eina
sanna páskalambs á krossinum (332). Af þessu leiðir að „kross og upprisu
er hægt að aðgreina hvort frá öðru en ekki skilja þau að“ (333). Slátrun
lambsins er um leið sigur yfir dauðanum, syndinni og sálarangistinni.
Þetta merkir ekki að lögmálið, boðorðin tíu, sé fallið úr gildi. Síður en
svo; lögmálið á maðurinn að halda eftir bestu getu, þótt það geri ekki út-
slagið íyrir sálarheill hans. Lögmálið getur haft þau áhrif á manninn að
hann fyllist sektarkennd og ótta við að geta ekki uppfyllt kröfur Guðs, en
svar trúarinnar við þeim áhyggjum er fórn hins saklausa á Golgata; þar er
fagnaðarerindið í hnotskurn í kenningum Lúthers. „Fórnin er uppfylling
lögmálsins og samkvæmt fyrirheiti þess færir hún manninum endurlausn-
ina“ (334).
í samantekt um þetta efni segir höfundur m.a.: „Túlkun Lúthers á
krossinum er mun róttækari en áður hafði þekkst innan hefðarinnar, því
að hann tengir hana við samviskukvölina þar sem maðurinn reynir afneit-
un Guðs á sér“ (357). Höfund hefur ekki skort efni til úrvinnslu um þetta
efni í verkum Lúthers, þar sem þetta var eitt af hinum stóru viðfangsefn-
um siðbótarmannsins alla tíð.
Það hefði verið áhugavert að lesa umfjöllun höfundar um túlkun guð-
fræðinga á síðari hluta tuttugustu aldar á friðþægingarkenningu Lúthers;
þar er um auðugan garð að gresja, því að Lúther er hinn mikli samtalsað-
ili guðfræðinga á öllum tímum, ekki síst í nútímanum. Þetta hefur höf-
undur gert að litlu marki í umfjöllun sinni um kenningu Lúthers um rétt-
lætingu af trú og gerir sú málsmeðferð þann kafla ólíkt áhugaverðari en
verið hefði án slíks samanburðar. Hvað friðþæginguna varðar er hér um
sambærilegt lykilatriði að ræða, ekki hvað síst í samskiptum kristinna trú-
félaga, því að oft hefur friðþægingin valdið miklum og harðvítugum deil-
um milli þeirra.