Skírnir - 01.04.2004, Blaðsíða 279
SKÍRNIR ORÐ OG AUGNABLIK í VERKUM H. ÁSGEIRSS. 273
úruhamförum, allt hrynur og menningin þar með. Og maðurinn
verður að byrja upp á nýtt. Utfrá þessum atburði hafa kviknað nýjar
hugmyndir og úrvinnsluleiðir í áframhaldandi stafrófsverkefnum.5
Efni verkanna þriggja er nýtt, en samt kunnuglegt þeim sem hafa fylgst
með listferli Halldórs: Sléttur, skreyttur flötur, einlitur grunnur, framandi
myndletur og hraun. Hvítar flísar, eins og þær sem sjá má í eldhúsum,
baðherbergjum, sundlaugum og sjúkrahúsum víða um heim. Hvítir
hversdagslegir matardiskar. Yfirborð beggja er hvítt, hlutlaust og gljáandi.
Hvortveggja er fjöldaframleidd, einkennalaus vara sem er alls staðar eins.
Nytjahlutir frá heimilum eins og lökin, skálarnar, glerkrukkurnar og
flöskurnar sem Halldór hefur ætíð unnið með. Allt eru þetta efni sem
tengjast einstaklingnum á náinn en um leið algildan hátt. Hlutlaus efni
sem jafnframt fela í sér mjög nauma en almenna skírskotun.
Endurnýting, endurnýjun og umbreytingarferli hafa alla tíð verið
sterkur þáttur í list Halldórs. Efni er flutt á milli staða, úr einu verki yfir
í annað. Efni verður að formi, hraunmoli verður að skuggamynd sem
verður að teikningu sem verður að ókennilegum staf úr framandi stafrófi.
Efnið hverfur og eftir stendur spor eða skuggi sem breytist í tákn. Hall-
dór bendir á hliðstæðu í þróun tungumálsins sem sífellt færist úr stað og
endurnýjast. Fyrirbæri breyta um heiti, nýyrði verða til og orð breyta um
merkingu.
Þannig virðist Halldór vilja tjá sundrungarferli mannsins en leitar um
leið algildrar merkingar mannlegs kjarna og umhverfis. Eins og margir
listamenn í lok 20. aldar afneitar hann sögulegum aðskilnaði lista og vís-
inda, náttúru og menningar. Hann einangrar þætti sem eru alls staðar eins,
leitar kjarnans í hinu mannlega, menningarlega rými sem kallast alheimur
og sækir sköpunarkraft sinn, þekkingu og hugmyndaflug til fyrirbæra
náttúrunnar. Jafnvel myndletur og stafróf heimsins sækja uppruna sinn til
náttúrunnar og til líkama mannsins.
Vincennes
Halldór fæddist í Reykjavík 13. október árið 1956. Hann lauk stúdents-
prófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1976. Þá lá leiðin til Kaupmanna-
hafnar og þaðan lagði Halldór upp í Le Grand Tour þeirra tíma, fyrst til
Parísar, þá suður og austur um Evrópu, um Tyrkland og síðan landleiðina
5 Sama heimild.