Skírnir - 01.04.2004, Side 282
276
ÆSA SIGURJÓNSDÓTTIR
SKÍRNIR
Flöturinn og línan
Veggmyndagerð hentaði vel beinskeyttri tjáningu Halldórs, en hann
gerði alls fjórar veggmyndir bæði á inni- og útveggi skólans. Myndirnar
voru ýmist abstrakt eða hálfígúratívar, teiknaðar í sterkum litum. Þær
voru eyðilagðar þegar skólabyggingarnar voru jafnaðar við jörðu árið
1980.
Stafróf og myndletur framandi menningarþjóða hefur verið efniviður
Halldórs allt frá fyrstu árum hans í Vincennes-háskólanum. Það var
kennari hans Jacques Brutaru, fyrrverandi forstöðumaður Nútímalista-
safnsins í Búkarest, sem vakti athygli nemenda sinna á sjónrænum krafti
myndleturs og frumstæðra jafnt sem nútímalegra tákna. Brutaru var sér-
fræðingur í semíológíu, táknfræði, sem var í brennidepli á þessum árum.
Rannsóknir Halldórs á kínversku og japönsku myndletri, egypskum
híeróglýfum og stafrófi framandi tungumála urðu til þess að hann fór að
nota skriftákn sem efnivið og þróa með sér sjálfsprottna skrift.
Allan níunda áratuginn vann Halldór að þróun þessa persónulega
myndmáls. Ferð hans til Mexíkó árið 1982-1983 hafði úrslitaþýðingu
fyrir þennan kapítula í list hans. Myndheimur hans varð fyrir sterkum
áhrifum af mexíkósku myndmáli, bæði for-kólumbísku myndletri og
mexíkóskri alþýðulist. Ur varð nokkurs konar stafróf hugmyndaflugsins,
pár sem hann safnaði í minnisbækur í ferðinni. Þegar heim var komið fór
hann að vinna úr þeim, velja og hafna, stækka og raða saman í sjálfstæð
myndverk sem síðan voru endurunnin og yfirfærð á einlitan flöt, renn-
inga úr pappír eða taui eins og um veggmyndir eða refla væri að ræða
fremur en málverk.
Fánar hafa verið notaðir sem myndfletir og grunnur tákna á flestum
menningarskeiðum sögunnar. Fánarnir á Ulfarsfelli, gjörningur úti í nátt-
úrunni sunnudaginn 28. ágúst 1983, er dæmi um leit Halldórs að óhefð-
bundnum grunni og tilraun til að endurvekja fánann sem flöt innan
myndlistarinnar. Fánarnir voru af ólíkum stærðum og gerðir úr ýmsum
efnum. Þeir voru saumaðir úr gömlum, rifnum lökum, gardínum og
hveitipokum, aflóga efni sem Halldór hafði auglýst eftir í dagblöðum og
endurnýtti á þennan hátt. Teikningarnar sem skreyttu fánana voru tekn-
ar upp úr dagbók frá Mexíkódvölinni og minna á tótem eða goðsögulegt
táknmál svokallaðra frumstæðra þjóðflokka. Fánarnir voru festir á 6
metra háar bambusstangir. Þeir voru settir upp á tindi Ulfarsfells með
borgina í baksýn. Það að flagga fánunum var viðburður, nokkurs konar
gjörningur eða sjálfeyðandi innsetning sem hvarf í rokið.