SÍBS blaðið - okt. 2017, Side 16

SÍBS blaðið - okt. 2017, Side 16
16 SÍBS-blaðið fullunnin fæða. Grænmeti á að líta út eins og grænmeti, ekki koma mulið í töfluformi. Að sama skapi eigum við að borða ávexti en ekki þamba ávaxtasafa. Maður á að borða alvöru mat, raunverulega fæðu. Það er hollt og það minnkar byrði bólgu í líkamanum. En hvort matar- æði hafi áhrif á sjúkdóma eins og liðagigt hefur ekki gengið vel að staðfesta með rannsóknum. Við vitum þetta ekki alveg enn þá. Við vitum hins vegar að þeir sem minnka kolvetni í fæðu sinni geta minnkað líkur á þvagsýruköstum. Ég ráðlegg sem sé öllum með þvagsýrugigt að skerða neyslu kolvetna sem allra mest.“ Góð lyf ekki nóg En er ekki málið að það þurfi hvoru tveggja, hreyfingu og hollt mataræði – annað sé ekki nóg? „Jú, algjörlega. Þetta helst í hendur. Hreyfing er frekar máttlaus ein og sér ef um ofþyngd er að ræða, það verður að taka mataræðið einnig með í reikninginn. En þeir sem eru þungir og vilja ekki grennast eiga líka að hreyfa sig út af öllum hinum jákvæðu áhrifunum sem hreyfingin hefur á líkams- starfsemina í heild. Það má segja að við séum komin í hring. Einu sinni höfð- um við bara hreyfingu og mataræði. Síðan kom nútímalæknis- fræði með öllum sínum ráðum, aðgerðum og lyfjum. En núna erum við farin að horfa aftur á hreyfinguna og mataræði og viðurkenna að góð lyf eru ekki nóg til að sigrast á heilsufars- vandamálum. Nútímalæknisfræðin er frábær og nauðsynleg í mörgum tilfellum en við megum ekki gleyma grunnstoðum góðrar heilsu, að þurfa alltaf að gæta þess að hreyfa sig og ástunda hollt mataræði.“ Krónískir bólgusjúkdómar Er mikil hætta á því að bólgur leiði til langvinnra sjúkdóma? „Gigtarsjúkdómar eru nánast allir krónískir sjúkdómar. Ef við tökum bara þá sjúkdóma sem ég meðhöndla sem gigtar- læknir þá eru þeir allir krónískir. Mér hefur því miður aldrei tekist að lækna neinn af gigtarsjúkdómi en hefur þó tekist að minnka einkenni hjá mörgum sjúklingum. Við vitum að ómeðhöndlaður gigtarsjúkdómur þýðir að bólgan er stjórnlaus í líkamanum. Það veldur hjarta- og æðasjúkdómum, nýrna- vandamálum og svo framvegis. Til eru afbragðsgóðar faralds- fræðilegar rannsóknir sem sýnt hafa að gigtarsjúklingar eru í tvöfaldri og allt upp í áttfaldri áhættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma seinna á ævinni hafði þeir verið með virkan bólgusjúkdóm. Það má segja að ein megináhersla gigtarlækninga gangi út á að kveða niður bólgur með öllum tækjum og tólum sem við höfum yfir að ráða. Við viljum ekki leyfa liðagigtarsjúklingi að ganga lengi með ómeðhöndlaðan sjúkdóm, sama á við um hrygggikt, rauða úlfa, æðasjúkdóma, fjölvöðvagigt og fleira. Afleiðingarnar af því að gera ekki neitt geta verið mjög alvar- legar fyrir sjúklinginn. Bólgu á sem sagt ávallt að kveða niður eins fljótt og maður getur.“ Gegn betri vitund Er fólk almennt meðvitað um þessa hluti þegar það kemur til þín – eða ríkir vanþekking í kringum bólgusjúkdóma? „Fólk er flest meðvitað um hvað þarf til þess að lifa heilbrigðu lífi. En vissulega er fólk misjafnlega móttækilegt fyrir því að gera það að parti af sínu lífi. Mér finnst til dæmis stórfurðulegt að einhverjir skuli enn reykja í dag, bæði með tilliti til vitneskju okkar um skaðsemi reykinga og svo allra þeirra annarra leiða sem hægt er að fara til að neyta nikótíns. Af hverju að kveikja í sígarettu og anda að sér reyknum þegar hægt er að fá sér nikótíntyggju, alls konar úða, töflur og veip- ur í staðinn. Þarna er um að ræða margt fólk sem hefur heyrt boðskapinn en ekki meðtekið hann í raun og veru. Sama má segja um mataræði og hreyfingu – fólk tekur iðulega lélegar ákvarðanir þótt það viti betur. Fólk þarf líka að átta sig á því hvað því hentar sjálfu. Við erum öll svo ólík og fáumst við svo ólíka hluti – samt er svo rík tilhneiging til að reyna að steypa öllum í sama mótið, að halda því fram að eitt gildi fyrir alla þegar kemur til dæmis að mataræði og öðrum þáttum varðandi lífsstíl. Það er ekki hægt að gefa út einn matseðill fyrir alla – börn, unglinga, fullorðið fólk, gamalmenni, sjúklinga, heilsuhrausta og svo framvegis. Það getur bara ekki staðist. Ég held að Michael Pollan hafi sagt þetta best þegar hann dró alla næringarfræði saman í eina setningu: „Eat real food, mostly plants and not too much.“ Sem sagt að fólk eigi almennt séð að borða alvöru mat, mest úr plönturíkinu og gæta hófs í neyslunni.“ Mikilvægt að greina bólgusjúkdóma snemma Hvað á fólk að gera ef það telur sig vera með bólgur? „Líkt og gildir um öll önnur heilsufarsmál á það byrja á því að fara til heimilislæknis síns og láta skoða sig. Það er mjög mikilvægt að greina fólk með bólgusjúkdóma snemma, því ef það er með raunverulegan bólgusjúkdóm þarf það að komast sem fyrst til gigtarlæknis til að fá viðeigandi meðferð til að aftra því að líkamsvefir skemmist, hreyfigeta minnki, það verði óvinnufært og glati þar með lífsgæðum sínum. Þá má ráð- leggja þeim sem greinast með langvinnt verkjavandamál að huga fyrst og fremst að lífstíl sínum með tilliti til hreyfingar, sjúkraþjálfunar, góðum svefnvenjum og huga sérstaklega að andlegri heilsu.“ Ragnar Freyr: „Bólgu á ávallt að kveða niður eins fljótt og maður getur.“

x

SÍBS blaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SÍBS blaðið
https://timarit.is/publication/1222

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.